„Eftir farsóttina mun hagvöxtur aukast og atvinnuleysi minnka við lægri vexti en áður, meira peningamagn í umferð og hallarekstur ríkissjóðs sem skuldar meira en í upphafi farsóttarinnar. Afleiðingin gæti orðið vaxandi verðbólga á Vesturlöndum sem seðlabankar gætu átt í erfiðleikum með að bregðast við. Verðbólga myndi nú, eins og áratugina eftir síðari heimsstyrjöld í Bandaríkjunum, lækka hlutfall opinberra skulda og VLF. Þeir sem skulda myndu hagnast svo lengi sem verðbólgan kæmi ekki að fullu fram í hærri nafnvöxtum og þeir sem eiga peningalegar eignir borga brúsann fyrir COVID-19.“
Þetta segir Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, í grein sem birtist í síðustu útgáfu Vísbendingar, sem kom út í lok síðustu viku.
Greinin ber fyrirsögnina „COVID-19 og eftirmálin“. Þar segir Gylfi að ekki sé auðvelt að sjá út úr þeirri farsótt sem nú herji á heimsbyggðina og að fyllsta ástæða sé til þess að hafa áhyggjur af næstu mánuðum, miklu atvinnuleysi og gjaldþrotum fyrirtækja. „En einhvern tíma, og kannski fyrr en margir óttast, mun farsóttin taka enda og fólk geta óttalaust sótt vinnu, keypt þjónustu og ferðast til annarra landa. Þá mun hið mikla framboðsáfall COVID-19 heyra sögunni til og þjóðum heimsins verða létt, bjartsýni aftur ríkjandi. En hvernig verður það hagkerfi sem þá mun vaxa aftur eftir áföll liðinna mánaða?,“ spyr Gylfi í greininni.
Æskilegt að áætlun sé til staðar
Fyrir liggi að hagvöxtur muni aukast að farsótt lokinni og atvinnulausi dragast saman. Það verði gert í lægra vaxtaumhverfi en áður sem þó inniheldur meira peningamagn í umferð og ríkissjóð í hallarekstri sem mun skulda meira en við upphaf farsóttarinnar. Þetta gæti leitt til vaxandi verðbólgu á Vesturlöndum með þeim afleiðingum að þeir sem skulda hagnast, svo lengi sem að verðbólgan kemur ekki að fullu fram í hærri nafnvöxtum, og þeir sem eiga peningalegar eignir sitji þá uppi með að borga kostnaðinn af COVID-19.
Skuldastaða hins opinbera sé góð, allavega enn sem komið er, nafnvextir jákvæðir og hagkerfið hefur orðið fyrir minna höggi á framboðshlið – fólk getur mætt til vinnu og keypt sér þjónustu – vegna árangursríkra sóttvarna. „Lágir nafnvextir og neikvæðir raunvextir örva nú þegar innlenda eftirspurn, erlendir ferðamenn munu aftur venja komur sínar hingað og hallarekstur ríkissjóðs kynda enn meira undir innlendri eftirspurn í kjölfar farsóttarinnar. Við þessar aðstæður, vaxandi atvinnu og mögulega óróa á vinnumarkaði er æskilegt að gerð hafi verið áætlun um hvernig og hvenær hallarekstri ríkissjóðs verði snúið við og vextir hækkaðir í takt við vaxandi hagvöxt.“