Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra segir ekki eðlilegt að ferðamenn séu beðnir að framvísa niðurstöðum úr landamæraskimun á veitingahúsum eða annars staðar. Hafi slíkt verið gert velti hann því fyrir sér á hverju sú krafa sé byggð. Fólk fái niðurstöðu úr skimun senda í smitrakningarappið. „Það er eina staðfestingin sem fólk getur fengið,“ segir Víðir. Ekki sé um að ræða opinbert plagg á pappír og ferðamönnum sé ekki skylt að geyma þessar upplýsingar til framvísunar síðar.
Um helgina var greint frá því á íbúagrúbbu á Facebook að starfsfólk veitingastaðar á Suðurnesjum hefði beðið ferðamenn sem þangað komu um að framvísa niðurstöðum úr skimun. Fullyrt var í færslunni að í ljós hafi komið að hana hefðu þeir ekki enn fengið. Eftir að fólkinu var bent á að það ætti ekki að vera innan um annað fólk á þessum tímapunkti var því vísað út en boðið velkomið aftur þegar niðurstaðan lægi fyrir.
Víðir segir að til að byrja með hafi borið á því að fólk biði ekki á sínum gististað eftir niðurstöðu úr landamæraskimun, eins og því beri þó að gera. „En við mátum það þannig að skilaboðin okkar væru ekki nógu skýr en nú höfum við bætt þar úr og ég held að þetta sé komið í betra stand.“
Í sjónvarpsfréttum nýverið var viðtal við par sem var að skoða sig um við Geysi en hafði ekki enn fengið niðurstöðu úr skimun. Sagðist það gæta þess að koma ekki nálægt öðrum.
Það er þó ekki í takt við skilaboð yfirvalda: „Farið varlega þangað til niðurstöður prófsins berast,“ stendur í leiðbeiningum landlæknis til þeirra sem hafa farið í skimun við landamæri. Niðurstöður á Keflavíkurflugvelli eiga að liggja fyrir innan tólf klukkustunda og innan sólarhrings á öðrum áfangastöðum.
Svo stendur: „Haldið kyrru fyrir á heimili eða áfangastað og haldið ykkur í hæfilegri fjarlægð frá öðru fólki. Forðist snertingu eins og faðmlög eða handabönd. Þvoið hendur reglulega og ekki nota almenningssamgöngur.“
Einnig er bent á að þó að fólk mælist ekki með veiruna við komu sé engu að síður æskilegt að fara farlega fyrstu fjórtán dagana því niðurstöður prófsins séu ekki „alveg óyggjandi“. Fái viðkomandi hins vegar skilaboð um að hafa greinst með veiruna þurfi hann að „forðast allt samneyti við aðra og undirgangast einangrun þar til frekari rannsóknir hafa farið fram“.
Við slíkar aðstæður kemur til kasta COVID-göngudeildar Landspítala sem boðar viðkomandi í viðtal og blóðsýnatöku, þ.e. mótefnamælingu. „Þar fæst niðurstaða um hvort þú ert smitandi og þurfir áfram einangrun í 14 daga eða hvort þér sé frjálst að fara ferða þinna en áfram að sýna varúð.“
Víðir bendir á að erlendir ferðamenn sem greinast með virkt smit við komuna til landsins geti ekki snúið aftur til síns heima á meðan einangrun stendur. „Hafi einstaklingur ekki tök á að dvelja í heimahúsi sætir hann einangrun í sóttvarnahúsi. Sóttvarnahús eru rekin í Reykjavík, Akureyri og á Egilsstöðum.“
4.730 sýni hafa verið tekin við landamæri frá því að skimun við þau hófst þann 15. júní. Tíu hafa greinst með veiruna en í einhverjum tilfellum hefur mótefnamæling sýnt fram á „gamalt smit“ og viðkomandi því ekki talinn smitandi.
Farþegar sem setið hafa í nálægð við hina sýktu á leiðinni hingað hafa, meti smitrakningarteymið það svo, orðið að fara í sóttkví. Að sögn Víðis á það fólk kost á að dvelja sér að kostnaðarlausu í sóttvarnahúsi en það má einnig nýta sér aðra gistimöguleika á eigin kostnað, s.s. heimahús, hótel, sumarhús o.s.frv. Víðir bendir á að fjöldi hótela bjóði upp á dvöl á meðan sóttkví stendur og má finna upplýsingar um þau á heimasíðu Ferðamálastofu.
Þar verða þeir þó að fylgja leiðbeiningum um sóttkví sem eiga jafnt við um almenning hér á landi sem og ferðamenn, að sögn Víðis. Samkvæmt þeim má einstaklingur í sóttkví til dæmis ekki heimsækja fjölfarna ferðamannastaði þótt að þeir séu undir beru lofti.
Sá sem þarf að fara í sóttkví við komuna til landsins hefur möguleika á því, sé hann einkennalaus og ekki með veiruna, að snúa til síns heima innan tveggja sólarhringa í stað þess að vera hér á landi í sóttkví í fjórtán daga. Víðir segir þetta metið í hverju tilfelli fyrir sig og að ákvörðun um veitingu slíkra undantekninga sé samvinnuverkefni sóttvarnalæknis og smitsjúkdómalækna Landspítala með aðkomu smitrakningarteymis. Hann ítrekar að sóttkví sé fjórtán dagar og neikvæð niðurstaða úr skimun geti ekki stytt þann tíma.