Tæknifyrirtækið YAY ehf. fékk greiddar 4 milljónir króna fyrir að hanna snjallsímaforrit utan um ferðagjöf stjórnvalda, sem gerð var aðgengileg fyrir helgi. Samkvæmt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu var lausn fyrirtækisins metin hæfust af fjölda lausna sem upphaflega voru skoðaðar, en fyrirtækið hafði þegar þróað sambærilega lausn fyrir stafræn gjafabréf í farsíma sem ráðuneytið segir að komin hafi verið góð reynsla á.
Samkvæmt svari ráðuneytisins var strax við frumskoðun á ferðagjafaverkefninu talið að kaup á stafrænni lausn vegna gjafabréfanna yrði undir útboðsmörkum, sem varð síðan raunin.
„Af þeim sökum voru margar fýsilegar lausnir skoðaðar og í kjölfarið var ráðist í verðfyrirspurn, í samræmi við lög um opinber innkaup, til að gæta að meginreglum um jafnræði, gagnsæi og samkeppni meðal þeirra fyrirtækja sem talið var að gætu útvegað tæknilega lausn sem þegar væri til staðar til að leysa þessar þarfir án mikils þróunarkostnaðar. Markmiðið með þessu var að halda kostnaði vegna verkefnisins í lágmarki og koma því af stað eins hratt og örugglega og hægt væri í ljósi alvarlegrar stöðu ferðaþjónustufyrirtækja hér landi,“ segir í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans.
Fram kemur í svari ráðuneytisins að YAY hafi ekki einungis verið með fýsilegustu lausnina, heldur hafi fyrirtækið einnig boðið lægsta verðið. Því var ákveðið að ganga til samninga við fyrirtækið.
Auk þeirra 4 milljóna sem fyrirtækið fékk fyrir að hanna Ferðagjafar-forritið reiknar ráðuneytið með að greiða YAY á bilinu 8-11 milljónir króna til viðbótar fyrir rekstrarþjónustu forritsins þar til verkefninu lýkur, en ferðagjafirnar, sem nema 5.000 kr. á hvern íbúa á Íslandi sem fæddur er 2002 eða fyrr, eru innleysanlegar til loka árs.
YAY hefur ekki heimild til notkunar upplýsinga sem safnað er
Þegar notendur sækja Ferðagjafar-forritið í símann sinn eru þeir beðnir um að gefa upp símanúmer sitt, netfang, kyn og tengjast forritinu svo með innskráningu í gegnum Ísland.is. Einnig þurfa notendur að samþykkja skilmála YAY og inni í Ferðagjafar-forritinu má finna tengla á bæði skilmála og persónuverndarstefnu YAY.
Ferðagjöfin er komin í loftið. Afhverju þarf Yay að vita netfangið mitt og hvaða kyn ég skilgreini mig sem til þess að veita mér 5000 kr frá ríkinu? 🤔 pic.twitter.com/rlwcRaITce
— Axel Paul (@axelpaul) June 19, 2020
Kjarninn spurði ráðuneytið að því hvort YAY væri með þessu að fá heimild til þess að safna upplýsingum um notendur Ferðagjafar-forritsins til þess að hafa samband við þá síðar í einhverjum öðrum viðskiptalegum tilgangi. Ráðuneytið segir að svo sé ekki.
„Þeim upplýsingum sem safnað er, verða í eigu hins opinbera og YAY hefur ekki heimild til notkunar nú eða síðar,“ segir í svari ráðuneytisins.
Þá kemur enn fremur fram að þeir ferðaþjónustuaðilar sem taki þátt í ferðagjöfinni, sem orðnir eru yfir 4.000 talsins, þurfi ekki að stofna til viðskiptasambands við YAY, heldur skrái fyrirtæki sig inn á Ísland.is og fá þar með aðgang að bakendakerfi sem gerir þeir kleift að halda utan um notkun ferðagjafarinnar og taka á móti henni.
Engin nauðsyn að sækja forritið til að nýta gjöfina
Ráðuneytið tekur fram í svari sínu að ekki er nein nauðsyn fyrir fólk að sækja Ferðagjafar-forritið í símann sinn til þess að leysa út ferðagjöfina, heldur er einnig hægt að gera það með því að sækja strikamerki í símann á Ísland.is.Forritið er þó hugsuð sem notendavæn og einföld leið til að halda utan um gjöfina.