Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ætlar að höfða mál gegn Hafdísi Helgu Ólafsdóttur, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu, sem kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði nýverið að Lilja hefði brotið jafnréttislög með því að sniðganga í embætti ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Frá þessu er greint á vef RÚV.
Þar segir að með því að stefna Hafdísi Helgu ætli Lilja að reyna að ógilda úrskurð kærunefndarinnar.
Greint var frá því í byrjun mánaðar að Lilja hefði brotið jafnréttislög við skipun Páls Magnússonar í embætti ráðuneytisstjóra í fyrra, samkvæmt úrskurði kærunefndar jafnréttismála. Hún hafi vanmetið Hafdísi Helgu í samanburði við Pál. Hæfisnefnd hafði ekki talið Hafdísi Helgu í hópi þeirra fjögurra sem hæfastir voru taldir í starfið.
Páll, sem var skipaður í embættið síðla árs í fyrra, hefur um árabil gegn trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn en hann var varaþingmaður Framsóknarflokksins í tvö kjörtímabil í kringum árið 2000 og aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttur ráðherra Framsóknarflokksins.
Í frétt RÚV er rakið að í lögum um kærunefnd jafnréttismála segi að úrskurðir hennar séu bindandi gagnvart málsaðilum, en þeim sé heimilt að bera úrskurði hennar undir dómstóla. Til þess þarf ráðherrann, Lilja, að höfða mál á hendur kærandanum, Hafdísi Helgu.
Lögmaður Hafdísar Helgu, Áslaug Árnadóttir, segir við RÚV að þessi ákvörðun ráðherrans komi á óvart. „ Ég veit ekki til þess að þetta hafi verið gert áður, að ráðherra hafi höfðað mál persónulega gegn aðila sem kærir ákvörðun ráðherra til kærunefndarinnar.“
Ráðuneytið gaf þá skýringu að ráðherra hafi aflað lögfræðiálita, sem bentu á lagalega annmarka í úrskurði kærunefndarinnar. Úrskurðurinn byði upp á lagalega óvissu í tengslum við það ferli sem unnið sé eftir við skipan embættismanna. Þeirri lagaóvissu vilji Lilja eyða.