Lögmenn norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein munu innan skamms kynna niðurstöður rannsóknar sinnar á starfsemi Samherja í Namibíu fyrir stjórn sjávarútvegsfyrirtækisins, en rannsóknin er, samkvæmt svari Samherja við fyrirspurn Kjarnans, á lokametrunum.
Þar hefur hún raunar verið um nokkurt skeið, en nokkur dráttur hefur orðið á vinnunni vegna ferðatakmarkana af völdum heimsfaraldursins. Í janúar áætlaði Wikborg Rein að rannsókn fyrirtækisins, sem unnin er að beiðni Samherja, yrði lokið í apríl.
Fram hefur komið Samherji setti sig í samband við norsku lögmannsstofuna um það bil viku áður en ásakanir um meintar mútugreiðslur og aðra hátt fyrirtækisins í tengslum við starfsemina í Namibíu komu fram í umfjöllunum Kveiks, Stundarinnar og Wikileaks í nóvember í fyrra.
Er Samherji tilkynnti svo skömmu síðar að fyrirtækið ætlaði að fá Wikborg Rein til þess að vinna fyrir sig rannsókn á málinu sagði fyrirtækið að í rannsókninni yrði ekkert undanskilið og að upplýst yrði um niðurstöður hennar þegar þær lægju fyrir.
Á þeim tíma tóku flestir því þannig að upplýst yrði um niðurstöðuna opinberlega. Sá var einnig skilningur Elisabeth Roscher, eins eiganda Wikborg Rein, sem veitti mbl.is viðtal um rannsókn lögfræðistofunnar 27. nóvember.
„Ég byggi svör mín hér á því sem fyrirtækið hefur sagt, og fyrirtækið hefur sagt að það vilji láta yfirvöld hafa aðgang að öllum staðreyndum sem rannsóknin leiði í ljós og síðan upplýsa almenning um niðurstöðuna einnig. Það er það sem þeir hafa sagt og ég hef enga ástæðu til þess að efast um að það sé það sem þeir ætli sér,“ sagði Roscher, en lét þess einnig getið að mismunandi væri hversu mikil smáatriði fyrirtæki gæfu upp í kynningum sínum á rannsóknum sem þessari.
Skoða hvað verði hægt að birta og hvernig
Kjarninn spurði Samherja að því hvort búið væri að taka ákvörðun um hvort rannsókn Wikborg Rein á namibíska hluta starfsemi fyrirtækisins yrði gerð opinber.
Í svari Samherja segir að eftir að niðurstöðurnar verði kynntar stjórn Samherja muni fulltrúar Wikborg Rein „funda með fulltrúum þeirra stjórnvalda sem hafa málið til skoðunar og fara yfir hvort og hvernig niðurstöður rannsóknarinnar geti gagnast viðkomandi stjórnvöldum.“
„Líkt og áður hefur verið greint frá verður í kjölfarið tekið til greina hvað hægt er að birta og hvernig. Í því sambandi þarf að meta hvort birting á upplýsingum úr niðurstöðum Wikborg Rein kunni að hafa áhrif á rannsóknir í öðrum ríkjum. Þá þarf að meta hvort birting á upplýsingum gangi í berhögg við lög og reglur vegna þeirra einstaklinga sem verða nafngreindir. Þá eru ýmis fleiri atriði sem þarf að taka til skoðunar í því sambandi,“ segir í svari Samherja.