Í gær varð breyting á ráðleggingum íslenskra stjórnvalda varðandi ferðalög innan Evrópu. Er ekki lengur varað við ónauðsynlegum ferðalögum á þessu svæði. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í dag að gera þurfi greinarmun á þessum breyttu ráðleggingum stjórnvalda um ferðalög og ráðleggingum sóttvarnalæknis um smithættu vegna ferðalaga til ákveðinna landa.
Það sem breytingar á aðvörunum stjórnvalda fela í sér er að ekki sé lengur hamlandi að ferðast innan Evrópu en sóttvarnalæknir varar hins vegar enn við hættu á smiti og sýkingum. „Ég hef ekki breytt þeirri skoðun minni að ég tel óráðlegt að ferðast mikið erlendis,“ sagði Þórólfur. „Ég tel að einu löndin sem eru örugg núna séu Grænland og Færeyjar og tel enn að tryggasti ferðamátinn sé innanlands.“
Þórólfi líst ekki á að opna fyrir ferðalög milli Bandaríkjanna og Íslands að svo stöddu.