Þingflokkur Pírata hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að innkalla allar úthlutaðar aflaheimildir til sjávarútvegsfyrirtækja á 20 árum og bjóða þær þess í stað upp á opnum markaði þannig að hægt verði að tryggja fullt gjald fyrir nýtingu auðlindarinnar. Í tillögunni segir að með fullu gjaldi sé átt við markaðsverð, eða „hæsta gjald sem nokkur er fús að greiða fyrir afnot af auðlindinni, t.d. á markaði eða uppboði eða í samningum við ríkið sem umboðsmann rétts eiganda, þjóðarinnar.“
Í greinargerð tillögunnar segir að það hafi sýnt sig á undanförnum árum að auðlindarenta íslensku þjóðarinnar af fiskveiðiauðlindinni hafi ekki verið í samræmi við væntingar hennar. „Ítrekað hefur komið upp í samfélaginu megn óánægja með ákvarðanir Alþingis um veiðigjöld og ljóst að núverandi fyrirkomulag er ófullnægjandi þegar kemur að því að tryggja sanngjarna og réttláta gjaldtöku af auðlindinni. Flutningsmenn telja fullreynt að tryggja þjóðinni réttláta hlutdeild í auðlind hennar með núverandi fyrirkomulagi. Með því að bjóða aflaheimildir upp á opnum markaði verður hægt að tryggja að fyrir þessa auðlind fáist fullt gjald.“
Leigugjaldið óskipt í ríkissjóð
Í tillögunni felst að Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, verði falið að undirbúa og leggja fram, fyrir 1. nóvember næstkomandi, frumvarp sem myndi lögfesta að árlega yrði innkallað fimm prósent af úthlutuðum veiðiheimildum að ári liðnu frá gildistöku laganna. Yrðu þau að veruleika myndi því allar veiðiheimildir vera innkallaðar eftir 21 ár.
Í greinargerð tillögunnar segir enn fremur að ein af undirstöðum þess að fiskveiðistjórnarkerfið geti talist sjálfbært sé að um tilhögun þess ríki samfélagsleg sátt. „Til að tryggja þessa sátt leggja flutningsmenn til að óúthlutaðar aflaheimildir verði boðnar upp á aðgreindum mörkuðum. Nánari útfærsla hvað varðar aðgreiningu markaða verði falin ráðherra, en lagt er til að markaðir verði aðgreindir eftir landsvæðum að teknu tilliti til byggðasjónarmiða. Það skiptir máli að íslenskt samfélag í heild upplifi sátt um fiskveiðistjórnarkerfið en ekki síst að afmörkuð byggðarlög geri það, sérstaklega þar sem sjávarútvegur er á meðal helstu atvinnugreina samfélagsins. Með því að afmarka þá markaði þar sem uppboðið fer fram má betur tryggja samfélagslega sátt sem er lykilþáttur í sjálfbærni fiskveiðistjórnarkerfisins til langframa.“
Um 1.200 milljarða virði
Sé miðað við algengt virði á kvótanum í viðskiptum, og upplausn hans, er heildarvirði úthlutaðs kvóta til íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja um 1.200 milljarðar króna.
Kjarninn greindi frá því í lok apríl að tíu stærstu útgerðir landsins haldi samtals á rúmlega helmingnum af úthlutuðum kvóta. Innan þessa hóps eru aðilar sem eru tengdir þótt þeir séu það ekki samkvæmt lögum um fiskveiðar. Brim, Samherji og Kaupfélag Skagfirðinga eru fyrirferðamestu útgerðirnar. Þær halda, einar og sér og ásamt félögum sem eigendur þeirra eiga í, á rúmlega 43 prósent af öllum úthlutuðum kvóta.