Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir að frá því hún kom inn á þing fyrir tæpum þremur árum hafi henni ekki fundist ríkisstjórnin hugsa um hag hins almenna borgara, fátæks fólks og fíkla. Þetta kom fram í ítarlegu viðtalið Kjarnans við Ingu.
„Það eru fordómar gagnvart fíklum og mér finnst alveg óskaplega dapurt – og það tekur mig sárt að horfa upp á þetta. Ég hélt að við gætum öll verið sammála um að það eru ákveðin grundvallaratriði í samfélaginu sem við eigum að sammælast um að virða. Það er nú minnsta kosti að hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi, það hlýtur að vera lágmark,“ segir hún.
Inga segir að íslensk stjórnvöld eigi það til að hafa öll eggin í sömu körfunni og að treysta á ákveðnar stoðir í samfélaginu. „Við ætlum greinilega að halda því áfram og treysta á ferðamennsku,“ segir hún en bætir því við að hún sé einstaklega ánægð með áherslu ríkisstjórnarinnar á nýsköpunina en auðvitað mætti gera enn betur.
„Það verður að efla nýsköpun og virkja hugvitið okkar og virkilega reyna að dreifa eggjunum á fleiri körfur. Þegar eitt eggið brotnar þá séum við samt sem áður á nokkuð góðum stað. Við eigum svo mikla snillinga í hugviti,“ segir hún.
Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni hér.