Bára Huld Beck

Íslendingar búnir að fá nóg af sjálftöku elítunnar

Alvarlegt ástand er nú komið upp í íslensku efnahagslífi. Mörg hundruð milljarða króna tap í ríkisrekstri er fyrirséð, tugir þúsunda verða án atvinnu að öllu leyti eða að hluta og þúsundir fyrirtækja standa frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau lifi eða deyi. Kjarninn talaði við fulltrúa í stjórnarandstöðunni til þess að kanna hvernig þeir sæju framtíðina fyrir sér – og hvaða leiðir væru bestar út úr þessu ástandi. Að þessu sinni er rætt við formann Flokks fólksins, Ingu Sæland.

Ég held að sjávarútvegsmálin verði eitt af stóru kosningamálunum á næsta ári – og þessi spilling og það sem við þurfum að horfa upp á daginn út og inn, þessi lítilsvirðing við borgarana og þessi sjálftaka elítunnar. Við erum búin að fá nóg af þessu og ég trúi því að við eigum eftir að láta í okkur heyra.“

Þetta segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, um pólitískar áherslur næsta árs og það sem hún telur að muni skipta almenning máli á næstu misserum.  

Þannig hafi svokallað Samherjamál og „síðasta sumargjöfin“ – en þar vísar Inga í yfirfærslu eignarhalds á Samherja hf. eigenda til barna sinn – ekki verið að gera sig og telur hún að Íslendingar muni í framhaldinu taka á sínum málum. Næsta kosningabarátta muni í rauninni draga þessi atriði fram. „Ég vona að hún dragi sjálftökuvæðinguna beinustu leið fram í dagsljósið,“ segir hún. 

Auglýsing

Misjafnar skoðanir eru á aðgerðum ríkisstjórnarinnar í COVID-19 faraldri eins og gengur og segir Inga það vera lágmarkskröfu að stjórnvöld taki utan um fjölskyldurnar og fátækt fólk í landinu á tímum sem þessum – á sama hátt og þau bjarga fyrirtækjunum. 


„Að ætla að halda því fram að fyrirtæki sem hafa verið að greiða sér milljarða í arð hafi þurft á því að halda að stinga fötunni strax undir ríkiskranann og eiga ekki krónu í eigið fé til þess að takast á við holskefluna og þessa brekku. Auðvitað hefðu þau átt að klifra sína brekku og nota sitt eigið fé og sýna að minnsta kosti smá reisn og virðingu við þjóðina sína. Við erum að henda björgunarhringum og við vonuðumst til fyrirtæki tækju við þeim sem þyrftu á að halda. En að hinir færu ekki að misnota þessa björgun.“


Ingu finnst aðrar aðgerðir ríkisstjórnarinnar þó algjörlega lífsnauðsynlegar fyrir samfélagið, fyrirtækin og vinnandi fólk í landinu. „Það kom þó að því að sem mér fannst aðgerðirnar gjörsamlega hafa misst mark en það var þegar ríkisstjórnin ákvað að greiða fyrirtækjum fyrir að segja upp starfsmönnum sínum.“

Inga Sæland steig fyrstu skref sín sem þingmaður árið 2017.
Bára Huld Beck

Markmiðið með hlutabótaleiðinni var að halda ráðningasambandi milli vinnuveitenda og launþegans og finnst Ingu það hafa verið mikilvæg aðferð. „Og okkur þótti það virkilega vel gert og það tókst vel. Svo allt í einu hrópa fyrirtækin hærra um að þau eigi svo óskaplega bágt og hafi ekki einu sinni efni á að reka fólkið og borga þeim laun í uppsagnarfresti – og þá ákveður ríkisstjórnin að gera það. Að borga laun í uppsagnarfresti burtséð frá því hvort fyrirtækið hafi efni á því eða ekki. Þannig að þarna er opnaður ákveðinn krani – krani íslenskra skattgreiðenda og það flæða bara peningarnir út til þess að greiða laun í uppsagnarfresti. Þannig að það er nánast öllum meira eða minna sagt upp í stað þess að reyna að halda fólki í störfunum.“


Ríkisstjórnin tók þessa umdeildu ákvörðun um að greiða uppsagnarfrestinn og telur Inga að þegar fyrirtækin ætli að ráða fólkið aftur – þegar og ef allt gengur betur – þá verði það ekki gert í gegnum sama ráðningasamband og hafi verið til staðar fyrir uppsögn. 


„Og eins og ASÍ bendir á þá munu þessir einstaklingar missa öll áunnin réttindi miðað við að hafa unnið ákveðið mörg ár. Þess vegna verður fleiri sagt upp en hugsanlega þurfti að gera. Vissulega er ekki hægt að svipta fólki áunnum réttindum sem tiltekin eru í kjarasamningum en eins og við vitum eru lægstu launin mjög lág og þangað vill enginn fara, sérstaklega ef viðkomandi hefur unnið sig upp hjá sínum vinnuveitanda og verið kominn með auka greiðslur á lægstu taxta.“

Mammon er alltaf nálægur

Inga segir að hún hefði viljað sjá gripið til aðgerða aðeins fyrr í sambandi við að hamla komu ferðamanna til landsins. „Ég vil meina að þá hefðum við sparað okkur marga tugi milljarða vegna þess að það botnfraus í ferðaþjónustunni – og það hefði alltaf gerst, sem og í afleiddum störfum. En við hefðum getað losnað við lokunarstyrki og ýmislegt annað. Við hefðum losnað við það að banna heimsóknir til ömmu og afa á hjúkrunarheimili og að mega ekki fara í ræktina og sund og verið í alls konar nálgunartakmörkunum og í samkomubanni ef við hefðum viðurkennt ástandið aðeins fyrr.“

Ingi segir að mammon sé alltaf nálægur og að sumir forðist að viðurkenna vandann sem þjóðir heimsins þurftu að takast á við. Íslendingar hefðu átt að taka mark á þessum vanda fyrr.

Hún segir aftur á móti að eftir að Íslendingar hafi farið að taka til hendinni og vinna í þessum þáttum þá hafi þeim tekist dásamlega vel til. „Það er alveg æðislegt hvað þjóðin okkar er samstíga og hvað við gerðum þetta öll saman. Hvað allir hlýddu Víði vel, hvernig við tilbáðum þríeykið og við gerðum allt sem þau sögðu okkur að gera. Það er þess vegna sem við náum þessum frábæra árangri.“

Hefur áhyggjur af fölsku öryggi

Landið var opnað þann 15. júní síðastliðinn og bendir Inga á að nú þurfi Íslendingar líklegast að fara að takast á við annað COVID-19 verkefni. Hún segist hafa áhyggjur af því falska öryggi sem fylgi skimun við komuna til landsins. „Það er engin spurning um það að aðrir hagsmunir ráða hér för – en auðvitað þarf einnig að huga að heildarhagsmunum okkar.“ Hún segir þessa heildarhagsmuni lúta að efnahagslífinu og atvinnu fólks. „Það er hræðilegt að tugir þúsunda Íslendinga séu atvinnulausir og er þetta náttúrulega algjört heimsmet á Íslandi á lýðveldistíma.“

Auglýsing

Varðandi það sem vantað hefur upp á aðgerðir ríkisstjórnarinnar að mati Ingu þá finnst henni að fólkið í landinu hafi verið skilið eftir. „Heimilin eru ótrygg. Það er ekki búið að setja þak á verðtryggingu. Það hefur ekkert verið gert til að tryggja það að við lendum í því sama og gerðist hér eftir efnahagshrunið 2008. Ekki neitt. Þeir segja bara fjármálaráðherra og seðlabankastjóri að við séum á frábærum stað í dag, þetta sé allt öðruvísi en árið 2008 og að enginn þurfi að hafa áhyggjur af því.“

Inga segir að þrátt fyrir að aðstæður séu mjög ólíkar nú og fyrir 12 árum í hruninu þá geti hún ekki annað en spurt hvað sé að því „að setja öryggisventil fyrir heimilin í landinu sem séu skelfingu lostin. Hvað er að því að setja belti og axlabönd á fjölskyldurnar í landinu? Við erum komin með 17 prósent fall krónunnar frá áramótum og meðan gengið fellur svona þá segir það sig sjálft að það sé uppskrift að því að verðbólgan fari af stað. Þá er náttúrulega ekki að spyrja að verðtryggðum lánum heimilanna.“

Mikilvægt að afnema verðtrygginguna

Hún segir að mikill fókus sé hjá Flokki fólksins að afnema verðtrygginguna. „Við vorum til dæmis með frumvarp um að afnema verðtrygginguna á neytendalán en það fór því miður í ruslatunnuna eins og margt annað. Við ætlum aftur á móti að koma aftur með það.

Ríkisstjórnin er búin að berjast og berjast fyrir því að veita milljörðum á milljarða ofan í stuðningslán og lokunarstyrki og nefndu það bara en ég fékk 25 milljónir króna fyrir hjálparsamtök sem gefa svöngu fólki að borða. Ég fékk 30 milljónir fyrir SÁÁ sem er búið að missa allt sjálfsaflaféð sitt núna – 150 milljóna króna sjálfsaflafé þeirra er líklega komið út um gluggann en álfasalan er algjörlega farin. Þetta var samþykkt í þinginu í maí en heldur þú að þetta fólk sé búið að fá krónu? Nei, þessi samtök eru ekki enn búin að fá eina einustu krónu,“ segir Inga.

Þessar aðgerðir ganga því allt of hægt fyrir sig, að hennar mati.

Inga Sæland
Bára Huld Beck

„Frá því ég kom inn á þing þá hefur mér ekki fundist þessi ríkisstjórn hugsa um hag hins almenna borgara, fátæks fólks og fíkla. Það eru fordómar gagnvart fíklum og mér finnst alveg óskaplega dapurt – og það tekur mig sárt að horfa upp á þetta. Ég hélt að við gætum öll verið sammála um að það eru ákveðin grundvallaratriði í samfélaginu sem við eigum að sammælast um að virða. Það er nú minnsta kosti að hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi, það hlýtur að vera lágmark,“ segir hún.

Inga segir að íslensk stjórnvöld eigi það til að hafa öll eggin í sömu körfunni og að treysta á ákveðnar stoðir í samfélaginu. „Við ætlum greinilega að halda því áfram og treysta á ferðamennsku,“ segir hún en bætir því við að hún sé einstaklega ánægð með áherslu ríkisstjórnarinnar á nýsköpunina en auðvitað mætti gera enn betur. 

„Það verður að efla nýsköpun og virkja hugvitið okkar og virkilega reyna að dreifa eggjunum á fleiri körfur. Þegar eitt eggið brotnar þá séum við samt sem áður á nokkuð góðum stað. Við eigum svo mikla snillinga í hugviti,“ segir hún.  

Hópur fólks hefur gleymst

Ríkisstjórnin hefur einnig verið gagnrýnd vegna aðgerða eða réttara sagt aðgerðaleysis er varðar námsmenn. Inga segir að stór hluti þeirra hafi gleymst. „Námsmenn eru gjörsamlega að lenda hér á milli skips og bryggju. Ríkisstjórnin er einnig að gleyma foreldrum sem hafa þurft að fara heim og vera með börnunum sínum þar út af samkomubanni – fötluðum börnum sem eru með miklar stuðningsþarfir og sem þurfa algjöra sólarhringsumönnun. Þetta eru ekki margir foreldrar og væri þetta ekki slík upphæð að það sé verjandi að taka ekki utan um þennan hóp og setja hann á sömu laun í sóttkví eins og aðrir hafa fengið.

Það eru þúsundir námsmanna sem munu ekki fá atvinnuleysisbætur og engin störf í sumar. Þetta eru námsmenn sem eru jafnvel fjölskyldufólk og hafa stólað á það að vinna á sumrin. Þau eiga að éta það sem úti frýs í sumar. Þetta er óverjandi í rauninni.“

Lendum alltaf standandi

Varðandi framtíðina þá telur Inga að Íslendingar komi alltaf niður standandi. „Það er bara mín sannfæring. Við lendum standandi og það fer bara eftir því hversu erfitt það verður fyrir íslenskan almenning og skattgreiðendur að takast á við þetta mikla efnahagshrun.“

Hún segir að Íslendingar þurfi á smá heppni að halda núna og meðbyr. Vandamálin séu risavaxin en hún sé þó vongóð.

Inga segir enn fremur að afleiðingarnar eigi eftir að koma í ljós, sérstaklega fyrir þá sem eru vanir því að geta haft ofan í sig og á. Sem hafa getað staðið sína plikt og borgað afborganir af lánum sínum. Þarna sé um að ræða fólk sem hefur tekið á sig miklar fjárhagslegar skuldbindingar í trausti þess að það sé í góðri vinnu og geti staðið við sitt. Hún bendir á að það sé mikill skellur að fara á strípaðar atvinnuleysisbætur.

„Þá tekur ískaldur raunveruleikinn við – að detta niður á atvinnuleysisbætur ef lukkan hefur ekki þegar snúist þannig að hægt sé að halda áfram og fá starfið sitt aftur. Þá er náttúrulega allur botninn dottinn úr þeirri ábyrgð sem fólk hefur tekið á sig gagnvart lánum og greiðslu og lífsstandard sem það hefur vanist. Það þarf allt í einu að detta niður í það sem við öryrkjar þekkjum svo rosalega vel.

Fátækt fólk hefur þurft að búa þannig lengi. Ef maður getur sagt það svoleiðis þá væri það auðveldara fyrir fátækan að fara allt í einu úr því að vera með ágætar tekjur og detta niður í vesöldina en fyrir þann sem hefur haft mikið og dettur niður. Andlega hefur það ofboðslega neikvæð áhrif og verður það erfitt félagslega fyrir viðkomandi,“ segir hún.

Auglýsing

Andfélagsleg fjölskyldustefna rekin á Íslandi

Inga telur að íslenskur almenningur eigi eftir að sjá þessar aðstæður í haust. „En þangað til viljum við sól og sumar, við grillum veiruna og höldum ótrauð áfram. Þetta er bara verkefni sem við ætlum ekki að skorast undan að takast á við. En við verðum að gera það saman og mér þykir leiðinlegt hvernig er alltaf ákveðinn kjarni sem hefur hátt og er ljótur í orðfari og andstyggilegur og ég held að við séum öll að gera okkar besta. Jafnvel ríkisstjórnin þrátt fyrir að ég sé ekki sátt við allt sem hún hefur verið að gera.

Og auðvitað mun þetta allt saman kosta okkur mikla peninga en mér finnst ekki þurfa alltaf að skamma allt og alla. Ég hefði gert hlutina að sumu leyti eins og öðru leyti öðruvísi.“

Inga segist leggja mikla áherslu á að í svona ástandi eigi að passa upp á þá sem minnst mega sín – enda sýni rannsóknir að það sé fólkið sem fari verst út úr svona krísum. „Það verður að byrja að taka utan um þann hóp og bjarga honum. Mér finnst alveg óþolandi, vegna þess að ég er með þetta alveg í púlstöðinni og þekki af eigin raun, að börn líði skort.“

Ástandið hafi versnað frá því hún kom á þing fyrir tæpum þremur árum. „Hvernig getum við horft í spegil með ástandið svona? Og þetta var fyrir COVID-19 og við þurfum að horfast í augu við það að stjórnvöld hafi vísvitandi haldið litlum börnum í fátækt. Gefa þeim ekki kost á að vera með í íþróttum, gefa þeim ekki kost á að eiga áhugamál, gefa þeim ekki kost á að eiga nóg að borða eða eiga föt. Þetta er algjörlega uppskriftin af því að þessir litlu einstaklingar verða frekar útsettir fyrir einelti, stríðni og er ennþá meiri vanlíðan sett á þau heldur en þau þurfa að búa við hvort sem er. Hugsaðu þér!“

Inga telur jafnframt að sú fjölskyldustefna sem rekin sé á Íslandi sé andfélagsleg og ekki góð. „Mér finnst hún vond og hún er gjörólík því sem þekkist víða. Fátækustu börnin eru börn öryrkja og það segir sig sjálf.“

Einhvern tímann verða Íslendingar að horfast í augu við raunveruleikann

Varðandi framtíðina þá telur Inga að margt sé á huldu varðandi hana. „Eins og ég sagði áðan þá veit ég að við Íslendingar munum lenda standandi en ég veit ekki hversu lengi við verðum að rétta úr kútnum eða ná okkur. Það fer augljóslega eftir aðgerðunum og vonandi smá heppni – og hversu vel okkur gengur.“

Svo sé margt annað sem Íslendingar þurfi að takast á við en COVID-19 faraldurinn sé þó stór hjalli til að fara yfir.

„Mun allt botnfrjósa aftur og við lenda á byrjunarreit? Einhvern tímann verðum við að opna landið og einhvern tímann verðum við að horfast í augu við raunveruleikann – og við erum að gera það núna. Ég hefði að vísu vilja bíða aðeins lengur og horfa aðeins lengur í kringum okkur, þó það væri ekki nema í tvær vikur í viðbót. En svona er þetta og ég virði það bara.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal