Bára Huld Beck

Það þarf að hlusta á ákall um breytingar – og ekki „tipla á tánum í kringum þetta gamla“

Alvarlegt ástand er nú komið upp í íslensku efnahagslífi. Mörg hundruð milljarða króna tap í ríkisrekstri er fyrirséð, tugir þúsunda verða án atvinnu að öllu leyti eða að hluta og þúsundir fyrirtækja standa frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau lifi eða deyi. Kjarninn talaði við fulltrúa í stjórnarandstöðunni til þess að kanna hvernig þeir sæju framtíðina fyrir sér – og hvaða leiðir væru bestar út úr þessu ástandi. Næstur er formaður Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Ákallið frá sam­fé­lag­inu fellst í því að breyta raun­veru­lega vinnu­brögð­unum sem við­höfð eru á Alþingi. Það er sama hvaðan gott kem­ur. Ég bind vonir við einmitt þetta; að við skor­umst ekki lengur undan því að fylgja því sem þarf að breyta inni á þingi og í þessum stóru mik­il­vægu kerfum okkur sem hafa áhrif á þjóð­arsál­ina. Því fólkið hefur skoðun á því að það þurfi meira rétt­læti, sann­girni og gagn­sæi í öll þessi kerfi okk­ar; land­bún­að­inn, sjáv­ar­út­veg­inn og mennta­kerf­ið.“ 

Þetta segir Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, for­maður Við­reisn­ar, um þær áherslur sem henni finnst mik­il­vægt að ein­blína á á næstu miss­erum og árum. 

Hún seg­ist skynja þetta ákall frá sam­fé­lag­inu – sem sé hvatn­ing fyrir fólk í stjórn­málum að sýna meira hug­rekki gagn­vart sér­hags­munum og fleira – að það verði eitt­hvað til þess að breyt­ast og að það verði breyt­ing á næst­unn­i. 

Auglýsing

Þor­gerður Katrín segir að meg­in­þungi næsta kjör­tíma­bils verði að takast á við efna­hags­mál­in, sam­hliða þeim verk­efnum sem fylgja COVID-19. Hún segir að margt þurfi að laga þegar þessu kór­ónu­veiru­tíma­bili verður lok­ið. „Við megum ekki skor­ast undan stórum áskor­un­um,“ segir hún og bendir á að núna sé meg­in­verk­efnið að kom­ast í gegnum veiruna en eftir það verði hægt að ræða almenna hug­mynda­fræði um upp­bygg­ingu efna­hags­kerf­is­ins.

Þegar hún er spurð út í aðgerðir rík­is­stjórn­ar­innar vegna far­ald­urs­ins segir hún að á heild­ina litið hafi þær verið skyn­samar en að í aðstæðum sem þessum megi þó alltaf gera ráð fyrir mis­tök­um. „Og mis­tökin geta ein­kennst af yfir­sjón ann­ars vegar og hins vegar að menn eru kannski að láta sína eigin flokks­bundnu hug­mynda­fræði þvæl­ast fyr­ir. Þannig að þetta er sam­bland af tvennu; ann­ars vegar mann­leg yfir­sjón sem í miklu harki og hraða og spennu og álagi og óvissu sem ger­ist alltaf. Hins vegar hefði verið hægt að koma í veg fyrir slíkt með því að hafa meira sam­starf – en það var bara póli­tísk ákvörð­un,“ segir hún.

Hún gagn­rýnir það að rík­is­stjórnin hafi ákveðið að hafa ekk­ert sam­starf en víða ann­ars staðar í heim­inum hafi þessu verið öðru­vísi far­ið.

„Það sem er svo mik­ill lyk­ill í svona krísum er að reyna að ná raun­veru­legu sam­starfi, ekki bara yfir­borðs­legri sam­stöðu heldur raun­veru­legri til þess að koma í veg fyrir óþreyju og reiði – því reiðin er þarna handan við hornið ef við gætum ekki ekki að því að þegar atvinnu­leysi fer enn meira af stað þá verður óvissan mikil fyrir stóran hóp af fólki sem er ekki að fá nægi­lega skýr svör.“

Þorgerður Katrín var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra árið 2017 í ríkisstjórn Viðreisnar, Sjálfstæðisflokksins og Bjartrar framtíðar.
Birgir Þór Harðarson

Þor­gerður Katrín bendir á að þrátt fyrir að rík­is­stjórnin hafi byrjað sam­starf sitt með fögur fyr­ir­heit um það að efla þingið og sam­starfið þá hafi ekk­ert orðið úr því. Hún seg­ist við­ur­kenna það að hún hafi búist við meiru af rík­is­stjórn­inni er varðar þessi mál. Þor­gerður Katrín seg­ist þó alls ekki vilja dvelja við þá gagn­rýni eða velta sér of mikið upp úr því.

Einka­fram­takið verður að vera hluti af lausn­inni

Þess vegna skipti það máli að það séu sem flestir á sömu blað­síð­unni – og ekki síst á hinu póli­tíska lit­rófi. „Þess vegna höfum við í Við­reisn lagt mikla áherslu á það að nálg­ast þetta með því að segja: Ok, gott og bless­að. Við ætlum að gera það sem við getum gert og við höfum hugsað það þannig: Hvernig getum við orðið að liði?

Síðan sé það alveg ljóst að hug­mynda­fræði­leg nálgun flokk­anna með mis­mun­andi póli­tískan bak­grunn á verk­efnið hefur líka leitt til mis­taka.“

Sem dæmi tekur hún sam­skipti Svan­dísar Svav­ars­dóttur heil­brigð­is­ráð­herra og Kára Stef­áns­sonar for­stjóra Íslenskrar erfða­grein­ing­ar. „Þarna er póli­tíkin komin með málið í fang­ið. Alma, Þórólfur og Víðir kveðja okkur á mánu­deg­inum og tveimur dögum seinna er rík­is­stjórnin komin með málið og ætlar að sýna fram á að Íslend­ingar geti gert þetta sem best – en það bara klikk­ar. Grund­völl­ur­inn af því er meðal ann­ars andúð Vinstri grænna á öllu því sem heitir einka­fram­tak og þau vilja helst ekki ræða þau mál. Ég held aftur á móti að einka­fram­takið hafi skilað sínu í þessu og gott bet­ur. Einka­fram­takið verður að vera hluti af lausn­inn­i.“

Hug­mynda­fræðin má ekki þvæl­ast fyrir

Þor­gerður Katrín bendir á að nú séu farnir að mynd­ast langir biðlistar í heil­brigð­is­kerf­inu og á Land­spít­al­an­um. „Það þarf með ein­hverjum hætti að létta á álag­inu og það verður ekki gert nema í sam­vinnu við einka­að­ila. Og til þess að fólk fái líka lausn við sínum þján­ing­um, hvort sem það er í lið­skipta­að­gerðum eða í rann­sóknum og eft­ir­liti. Þarna má hug­mynda­fræðin ekki þvæl­ast fyrir því að fólk fái svör.“

Að hennar mati er þetta eitt­hvað sem hefði mátt gera ráð fyr­ir. „En í heild­ina tel ég að margt hafi verið mjög vel gert. Ég hefði samt viljað sjá meira. Við í Við­reisn vildum fara ein­fald­ari leið­ir. Við vildum nýta þau tæki sem voru fyrir eins og til dæmis að lækka skatta tíma­bund­ið. Að lækka trygg­ing­ar­gjald tíma­bund­ið. Við hefðum farið strax í að stór­efla sjóð­ina og svo viljum við sjá mun meiri fram­kvæmd­ir.“

Hún bendir á að nið­ur­sveifla hafi þegar verið hafin fyrir COVID-19 far­ald­ur­inn og segir hún að rík­is­sjóður hafi verið orð­inn ósjálf­bær fyrir veiruna. Hún telur enn fremur að rík­is­stjórnin hafi ekki verið reiðu­búin þegar áfallið skall á. „Það kom mér á óvart að þau skildu ekki vera til­búin í ljósi þess að nið­ur­sveiflan var haf­in. Þau máttu gera sér grein fyrir því.

Við í Við­reisn bentum líka á að rík­is­stjórnin væri að eyða um efni fram. Hag­vöxt­ur­inn var ekki í sam­ræmi við útgjalda­þenslu rík­is­sjóðs og við erum ekki lengur með þrotabú föllnu bank­anna sem borga allt. Það var stóri lottó­vinn­ing­ur­inn eftir að við fengum og gátum greitt svona hratt niður rík­is­skuld­ir. Af því að þar komu þessar risa­greiðslur inn til okk­ar, í gegnum þrota­bú­in.“

Spenn­andi að vera í póli­tík núna

Þor­gerður Katrín segir þetta jafn­framt vera ótrú­lega áhuga­verða tíma sem við lifum nú. „Það er spenn­andi að vera í póli­tík núna – og ég spái því ekki síst í haust að þá muni hug­mynda­fræði­legar póli­tískar línur skerp­ast.

Ég held að þegar fram líður á árið þá munum við sem elskum stjórn­mál og höfum áhuga á þeim sjá hversu áhuga­verðir tímar séu framund­an. Og það er mjög stutt í ákveðna kontrasta í sam­fé­lag­inu sem við megum ekki hunsa eða líta fram hjá. Því þeir munu líka vera veg­vísar inn í fram­tíð­ina – það er hvernig fram­tíð við ætlum að skapa og móta eftir veiruna.“

Þessa kontrasta má meðal ann­ars sjá í sjáv­ar­út­vegs­mál­um, að sögn Þor­gerðar Katrín­ar. Hún bendir á að ekki fyrir svo mörgum árum hafi lang­flestir verið sam­mála um svo­kall­aða samn­ings­leið en hún bygg­ir á því að ríkið geri samn­inga við nú­ver­andi hand­hafa fisk­veiði­heim­ilda um veiði­heim­ild­ir gegn gjaldi.

Þorgerður Katrín með Ingibjörgu H. Bjarnason sem var fyrsta konan sem tók sæti á Alþingi.
Bára Huld Beck

„Samn­ings­leiðin er lyk­il­at­riði til þess að rétta af þetta órétt­læti sem við höfum nú – það er að við gerum tíma­bundna samn­inga.“ Þor­gerður Katrín telur að auð­linda­at­kvæðið sem Katrín Jak­obs­dóttir for­sæt­is­ráð­herra ætlar að setja í stjórn­ar­skrá sé hand­ó­nýtt vegna þess að rík­is­stjórnin sé tvisvar búin að fella á þessu kjör­tíma­bili tilllögur um tíma­bundna samn­inga. „Þar er eng­inn vilji fyrir tíma­bundna samn­inga og þess vegna þarf að skrifa þetta beint inn í stjórn­ar­skrána. Sáttin sem for­sæt­is­ráð­herra vill ná um þetta auð­linda­á­kvæði er sátt við Sjálf­stæð­is­flokk­inn, er sátt við Fram­sókn­ar­flokk­inn og er sátt við Mið­flokk­inn – en það er ekki sátt við þjóð­ina eða þing­ið.“

Þurfum ekki að koll­varpa sam­fé­lag­inu – en við þurfum að upp­færa

Þor­gerður Katrín telur lausn þessa mál vera eitt skref í átt­ina að því að fara „sátt­ari inn í nýtt sam­fé­lag sem við þurfum að upp­færa. Við þurfum ekki að koll­varpa því en við þurfum að upp­færa það – og þá þarf póli­tískan kjark en ekki stjórn­mála­fólk sem dansar í kringum gömlu sér­hags­mun­ina og láti þá alltaf lifa af og verða óbreytta frá kyn­slóð til kyn­slóð­ar.“

Auglýsing

Að hennar mati þarf næstu miss­eri og ár fólk í póli­tík sem er algjör­lega frjálst. „Við þurfum fólk sem raun­veru­lega meinar það þegar það talar um gagn­sæi og um að miðla upp­lýs­ingum og situr ekki á skýrslum rétt fyrir kosn­ing­ar. Þess vegna þarf að vera þungi og alvara af okkar hálfu sem erum í stjórn­málum því við getum breytt hlut­un­um. Það þýðir ekki að tipla á tánum í kringum þetta gamla. Það gamla varð til út af ákveð­inni ástæðu og allt í góðu með það en í dag er annar tími sem gerir kröfur og setur ábyrgð á herðar okkar sem eru í stjórn­málum að breyta – og upp­færa.“

Þarf að gera miklu meira í nýsköpun en nú er gert

Þor­gerður Katrín dregur talið að nýsköp­un­inni en hún hefur verið áber­andi í umræð­unni í og eftir far­ald­ur­inn. „Ný­sköpun er algjört lyk­il­at­riði til þess að við lendum ekki í djúpri nið­ur­sveiflu þegar næst verður kreppa, því hún mun koma. Það þarf að gera miklu meira en nú er gert. Og það þarf að ganga þvert yfir ráðu­neyt­in. Hvað geta ráðu­neytin öll gert til að taka þátt svo nýsköp­unin geti lifað og dafn­að?“ spyr hún.

Hún telur enn fremur að Íslend­ingar þurfi að efla hug­vitið miklu meira og það sé gert til dæmis með því að upp­færa rann­sókn­ar- og mennta­kerfið og sam­eina háskóla.

„Af því að við erum ekki eina landið sem dettur það í hug að fara að veðja meira á hug­vit­ið. En það þarf að gera eitt­hvað meira en eitt­hvað mél­kisu­legt og setja millj­ónir hér og millj­ónir þar. Það þarf að fara í upp­stokkun – og þessa upp­færslu á kerf­inu. Vegna þess að grunn­stoð­irnar eru þarna en það þarf aðeins að ýta við þeim svo aftur komi líf í þetta.“

Eigum ekki að ótt­ast skiptar skoð­anir

Þor­gerður Katrín seg­ist vera sann­færð um að með enn öfl­ugri háskólum þá nái Ísland, með allt þetta land­svæði og land­búnað – þar sem stór­kost­leg tæki­færi séu – að kom­ast á góðan stað. Þá þurfi að taka út milli­lið­ina og ein­blína á bændur og neyt­endur á grunni umhverf­is- og nýsköp­un­ar­sjón­ar­miða. Ekki á þeim grunni að milli­lið­irnir vaxi og dafni.

Þá þurfi enn fremur að tengja nýsköp­un­ina við allt annað og segir hún að það muni kosta póli­tíska umræðu og ágrein­ing. „Ég held að við eigum ekki að ótt­ast skiptar skoð­an­ir, alls ekki. Við eigum frekar að hvetja til umræðu og ég fagna því að póli­tískar línur fari að skerp­ast.“

Hún segir að ákveðin öfl á Íslandi vilji nýta tæki­færið og loka land­inu enn meira – og jafn­vel herða „á ákveð­inni umgjörð“. Á hinn bóg­inn kalli allur heim­ur­inn á meira sam­starf og sam­vinnu. „Við verðum þess vegna að þora að vera fram­sækin og láta í okkur heyra,“ segir hún.

Breyt­ingar til fram­búðar

Varð­andi ástandið sem nú er uppi vegna COVID-19 far­ald­urs­ins þá telur Þor­gerður Katrín að við munum sjá ákveðnar breyt­ingar til fram­búð­ar.

„Tækni­legar breyt­ingar eru og verða mikl­ar. Við erum að taka risa­skref í þróun innan vinnu­mark­að­ar­ins út frá tækni og ég fagna því sér­stak­lega,“ segir hún.

Hvað við­kemur mann­legum gildum þá telur hún að sam­skipti verði dýr­mæt­ari og muni fólk kunna að meta þessi sam­skipti, nánd með öðrum hætti en áður. „Bara það að fá að vera í kringum fólk það gerir okkur að mann­eskj­um. Að geta verið við með fólk­inu okkar – og þráin eftir að umgang­ast fólk gerir mann þakk­látan að fá að vera innan um aðra. Að fá að snerta, knús­ast og kyss­ast.“

Þor­gerður Katrín sér fyrir sér enn fleiri breyt­ingar á næstu árum og þá sér­stak­lega í umhverf­is- og lofts­lags­mál­um. Þá bendir hún á að fólk almennt sé mikið meira með­vitað um umhverfið og þessi grænu skref sem hægt sé að taka í póli­tík.

„Mér finnst við enn hafa allt of metn­að­ar­laus mark­mið í lofts­lags­málum miðað við til dæmis Evr­ópu­sam­bandið og aðrar þjóð­ir. Getum við kannski náð þeim mark­miðum sem stjórn­völd settu fyrir 2030 fimm árum fyrr? Getum við sam­ein­ast um það að ýta okkur enn frekar inn í þær breyt­ingar sem við þurfum á að halda í umhverf­is­mál­u­m?“ spyr hún í fram­hald­inu.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Bára Huld Beck

Það er stjórn­mál­anna að breyta hlut­unum

Þor­gerður Katrín hvetur stjórn­völd að taka skref til móts við ákallið úti í sam­fé­lag­inu varð­andi hinar ýmsu breyt­ingar á kerf­un­um.

„Reynið að sýna ein­hverja ábyrgð. Við getum tekið póli­tískar rök­ræður og það er mik­il­vægt að gera það einmitt. Það er stjórn­mál­anna að breyta hlut­unum og leyfa sér að vera laus undan oki hags­muna­tengsla. Þess vegna þarf gagn­sæi en aðgangur að upp­lýs­ingum eykur traust.“

Þor­gerður Katrín segir að fram­tíð­ar­sýn hennar sé ein­föld og skýr. „Ein mesta áskor­unin verður innan stjórn­mál­anna og við ætlum ekki að skor­ast undan henni. Þess vegna munum við ein­blína á þessi mál sem ég hef þegar nefnt og alþjóða­sam­starfið sem við munum leggja gríð­ar­lega áherslu á – sem og nýsköp­un.“

Hún bendir á að ferða­þjón­ustan sé gríð­ar­lega mik­il­vægt fyrir íslenskt sam­fé­lag og að hún muni koma aft­ur. „Hún hjálp­aði okkur að kom­ast í gegnum síð­ustu ár en við gleymdum nýsköp­un­inni. Við klikk­uðum á henni síð­ustu 10 árin.“

Nú vakni rík­is­stjórnin upp við vondan draum í COVID-19. „Við munum þurfa á sterkri ferða­þjón­ustu að halda í fram­tíð­inni, það er ekki spurn­ing og við munum þurfa að efla þjón­ustu­geir­ann aftur en þá verður alþjóða­geir­inn líka að fylgja með. Þar munum við líka þurfa að halda áfram að tala um krón­una; stöð­ug­leika og fyr­ir­sjá­an­leika. Hætta þess­ari rús­sí­ban­areið sem við erum í.“

Þor­gerður Katrín seg­ist vera bjart­sýn á fram­haldið – að það hafi rofað til í stjórn­mál­unum og ekki síður úti í sam­fé­lag­inu. Fólk hafi gert sér grein fyrir því að suma hluti sé hægt að gera sem áður þóttu ómögu­leg­ir. „Þetta þarf ekki að vera svona flók­ið, eins og það að leggja áherslu á nýsköp­un, menn­ingu og list­ir. En líka að taka risa­skref í umhverf­is­mál­um. Þetta er ekk­ert flók­ið,“ segir hún að lok­um. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal