Bára Huld Beck

Alvarlegt ef Íslendingar ætla að „ræsa vélina óbreytta“

Alvarlegt ástand er nú komið upp í íslensku efnahagslífi. Mörg hundruð milljarða króna tap í ríkisrekstri er fyrirséð, tugir þúsunda verða án atvinnu að öllu leyti eða að hluta og þúsundir fyrirtækja standa frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau lifi eða deyi. Kjarninn talaði við fulltrúa í stjórnarandstöðunni til þess að kanna hvernig þeir sæju framtíðina fyrir sér – og hvaða leiðir væru bestar út úr þessu ástandi. Næstur er formaður Samfylkingarinnar, Logi Einarsson.

Ég held að við séum ein­fald­lega of lítið sam­fé­lag til þess að við getum unað við fátækt í sama mæli og kannski stór­þjóðir geta þar sem hægt er að loka aug­unum fyrir svo­leið­is. Við þekkjum öll fólk sem er í vanda – þetta er svo nálægt okkur og ég held að við séum það ríkt land, bæði af mannauði en líka af nátt­úru­auð­lind­um, að ef við skiptum þessu á milli okkar þá gætum við hrein­lega verið fyrsta landið til þess að útrýma því sem að heitir fátækt á Ísland­i.“

Þetta segir Logi Ein­ars­son, for­maður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, um hug­myndir hans er varða Ísland fram­tíð­ar­innar en nú stendur þjóðin frammi fyrir miklum áskor­unum vegna COVID-19 far­ald­urs­ins.

Hann bendir á að 8.000 börn búi við fátækt á Íslandi og að það snerti alla – því allir þekki fjöl­skyldur sem glíma við þessar aðstæð­ur. Það er hins vegar algjör óþarfi, að hans mati.

Hluta­bóta­leiðin reynst mik­il­væg­ust

Aðgerðir stjórn­valda vegna far­ald­urs­ins voru í fyrstu ekki mjög umdeildar og studdu stjórn­ar­and­stöðu­flokk­arnir frum­vörp rík­is­stjórn­ar­innar til að byrja með – þó með breyttu sniði eins og geng­ur. Þegar Logi er spurður út í skoðun hans á þessum aðgerðum þá segir hann að það væri ósann­gjarnt að ætl­ast til þess að allar aðgerðir við svona óvæntar hremm­ingar væru endi­lega eins og þær gætu bestar orð­ið. „Í því ljósi lýstum við, og í sjálfu sér allir stjórn­ar­and­stöðu­flokk­arn­ir, því yfir að við myndum leggj­ast á árar með rík­is­stjórn­inn­i.“

Auglýsing

Logi segir að fyrsta aðgerð­in, sem í raun byggði á aðgerð í hrun­inu, svokölluð hluta­bóta­leið hafi reynst mik­il­væg­ust. „Síðan hafa auð­vitað komið aðgerðir sem hafa verið til bóta. Hins vegar er synd að það hafi ekki verið hlustað mikið á okkar breyt­ing­ar­til­lögur og við ekki höfð með í ráð­um. Því við gerðum ráð fyrir sterk­ari við­spyrnu strax – meiri fjár­fest­ing­um, ekki síst í nýsköpun sem þarf að vera lyk­ill­inn að okkar dyrum inn til nýrrar fram­tíð­ar.“

Komið að vatna­skilum

Logi segir að nú sé komið að vatna­skilum hjá Íslend­ing­um. Á síð­ustu vikum voru lögð fram tvö frum­vörp, sem sagt end­ur­bætt útgáfa af hluta­bóta­leið­inni og hins vegar laun fyrir fólk í upp­sagn­ar­fresti, og sam­þykkt. „Á manna­máli er verið að aðstoða fyr­ir­tæki að reka fólk. Hug­myndin á bak við það er skilj­an­leg að því leyti að fyr­ir­tækin þurfa hugs­an­lega að taka á sig nýja mynd og stramma sig síðan aðeins niður til þess að eiga ein­hverja lífs­von og við­spyrnu þegar þessu lík­ur. Vanda­málið hins vegar er að eins og hluta­bæt­urnar eru útfærðar núna þá er bein­línis hvati til þess að fara frekar þá leið að segja upp fólki heldur en að halda ráðn­inga­sam­bandi við það.“

Nú sé að renna upp tími þar sem ein­hver von er um rekstur með komu inn­lendra og erlendra ferða­manna. Þá sé miklu áskjós­an­legra að segja fólki upp og láta það vinna 100 pró­sent afköst á þriggja mán­aða upp­sagn­ar­fresti, frekar en að fara hluta­bóta­leið­ina þar sem fólk má ekki vinna meira en því sem nemur því hlut­falli sem launa­greið­andi borg­ar.

„Við höfum sagt að þessi frum­vörp virki mjög illa saman og ég hefði frekar vilja sá að við hefðum haldið okkur við hluta­bóta­leið­ina, jafn­vel víkkað hana út – og jafn­vel borga 100 pró­sent af launum starfs­manna. En þá hefðum við að minnsta kosti haldið þessu ráðn­inga­sam­bandi og kannski ekki þurft að horfast í augu við það í lok sum­ars að ef ein­hver verði ráð­inn aftur inn á launa­skrá að þeir verði ráðnir inn á nýjum og verri kjör­um.

Þetta var fyrsta stóra COVID-­málið sem við gátum ekki stutt,“ segir hann.

Logi Einarsson
Birgir Þór Harðarson

Viss um að sam­ráðs­leysið verði seinna gagn­rýnt

Eins og áður segir gefur Logi stjórn­völdum ákveðið rými vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru. „Já, rík­is­stjórn verður alltaf að hafa meira oln­boga­rými í svona utan­að­kom­andi áföll­um. Síðan fer það eftir hverjum og einum þjóð­ar­leið­tog­anum hversu vel hann fer með það oln­boga­rým­i.“

Hann telur að rík­is­stjórnin hefði stækkað og aukið trú­verð­ug­leika sinn ef hún hefði strax í upp­hafi, eins og víða hafi verið gert ann­ars staðar í heim­in­um, kallað stjórn­ar­and­stöð­una í aukið sam­ráð. „Þetta er í raun enn alvar­legra því á þessum tíma þá var líka þrengt að starf­semi Alþing­is, vegna þess að veiran setti okkur tak­mörk, og ef við hefðum ekki þrátt fyrir allt – tja, hvað á ég að segja – almenni­legt fólk sem situr í ráð­herra­stól­unum þá held ég að það hefðu heyrst hærri radd­ir. Ég er viss um að seinna meir verði þetta gagn­rýnt.“Þegar Logi er spurður út í það hvers vegna þverpóli­tískt sam­starf sé mik­il­vægt segir hann að Íslend­ingar sigli nú ekki inn í kreppu sem eigi sér stað vegna þess að rík­is­stjórnin hafi vert mis­tök í sjálfu sér. „Auð­vitað var efna­hags­lífið farið að kólna og það var margt sem þessi rík­is­stjórn, og ekki síst þessar síðustu, gerðu rangt í aðdrag­anda – því það lá fyrir að það myndi halla undan fæti. En þau sann­ar­lega bera ekki ábyrgð á kór­ónu­veirunni.

Í því ljósi þegar verið er að aftengja alla venju­lega hag­stjórn – þegar hag­fræð­ingar hafa engin svör hvað ger­ist þegar fram­boð og eft­ir­spurn fellur á sama tíma – þá þarf frum­legar og djarfar lausnir og það þarf ekki síst sam­stöðu hjá þjóð­inni um þær aðgerðir – eins og til dæmis var um aðgerðir heil­brigðisteym­is­ins. Og þess vegna held ég að það hefði verið heppi­legra fyrir þjóð­arsál­ina og fyrir rík­is­stjórn­ina líka, því við munum líka eðli­lega, ef við erum ekki höfð með í ráðum, benda á þau mis­tök sem þau gera á leið­inni sem við hefðum viljað gera öðru­vísi.“

Póli­tísk umræða gæti orðið býsna harka­leg

Logi gerir ráð fyrir því þegar líða fer á haustið og við mörgum blasir harður vet­ur. Þegar atvinnu­leysi og ójöfn­uður hefur aukist, þá gæti póli­tísk umræða orðið býsna harka­leg. „Og ég held að hún verði að vera það. Þrátt fyrir allt þá er þetta réttur tími til að ræða grund­vall­ar­gildi og spyrja: Hvers konar sam­fé­lag viljum við hafa?

Ég held að við getum verið sam­mála um það allir þing­menn að við erum ekki að reka sjoppu, við erum að reka sam­fé­lag þar sem leik­regl­urnar verða að vera skýrar – eðli­lega. Og gagn­sæjar og lýð­ræð­is­leg­ar. Og í raun þarf fram­tíð­ar­sýnin að miða að því að við skilum næstu kyn­slóð meiri gæðum heldur en við bjuggum við – eða að minnsta kosti ekki verri.“

Um þær leiðir er síður en svo sátt á milli stjórn­mála­flokk­anna, að sögn Loga. Það er það sem geri núver­andi stjórn­ar­sam­starf áhuga­vert. „Af því að um leið og við þurfum að takast á við þessar grund­vall­ar­spurn­ingar og að við vitum að við erum á kross­göt­um, þá er ekki gott að hafa rík­is­stjórn sem deilir ekki sýn á fram­tíð­ina. Sem deilir ekki einu sinni sýn á grund­vall­ar­hluti eins og til­gang og eðli skatt­kerf­is­ins. Þau virð­ast hafa getað sam­ein­ast um að við­halda ein­hverjum mein­göll­uðum kerfum í sjáv­ar­út­vegi til dæm­is. En annað ekki.“

Logi Einarsson
Bára Huld Beck

Verðum að taka mjög alvar­lega umræðu um skatt­kerfið

Hver er þá fram­tíð­ar­sýn Loga og þeirra í Sam­fylk­ing­unni? „Í fyrsta lagi verðum við að fara að taka mjög alvar­lega umræðu um skatt­kerfið og þora að ræða um það. Er til­gangur þess að afla ein­ungis tekna til þess að standa undir lág­marks­þjón­ustu eða er til­gang­ur­inn að afla tekna til þess að standa undir góðri þjón­ustu – og um leið jafna kjör­in? Við þurfum að gera það.“

Þá bendir hann á þann lofts­lags­vanda sem mann­kynið stendur frammi fyrir og telur hann að mik­il­vægt sé að takast á við þann vanda. „Við erum að sigla inn í mjög spenn­andi umhverfi tækni­breyt­inga sem mun gjör­bylta öllum okkar lifn­að­ar­hátt­um. Og spurn­ingin er: Viljum við nýta okkur þær til þess að ráð­ast gegn ójöfn­uði, ráð­ast gegn lofts­lags­breyt­ingum og jafna kjörin eða ætlum við að byggja áfram ein­ungis á auð­lindum okkar með mjög frum­stæðum hætt­i?“ spyr Logi.

Hann telur enn fremur að Íslend­ingar hafi of fáar stoðir í atvinnu­líf­inu. „Við höfum leyft einni stoð­inni, ferða­þjón­ust­unni, að vaxa algjör­lega stjórn­laust án þess að gera nokkrar til­raunir til þess að marka okkur ein­hverja stefnu. Greinin skipti auð­vitað gríð­ar­legu máli í við­spyrn­unni eftir fjár­mála­hrunið og renndi stoðum undir störf og verð­mæta­sköpun um allt land. En við hefðum á sínum tíma alveg örugg­lega þurft að stuðla að fjöl­breytt­ara atvinnu­lífi, styðja til dæmis betur við vaxta­brodda tengda nýsköpun eða tækni­þróun og reyna að stjórna vexti ferða­þjón­ust­unn­ar, til að mynda með því að taka gjöld af ferða­mönn­um. Í stað­inn byggðum við upp eina risa­stóra stoð, svo stóra að ef hún félli eða svign­aði þá værum við í stór­kost­legum vanda – og ekki síst þess vegna erum við í meiri vanda en margar nágranna­þjóðir okk­ar.“

Auglýsing

Nú virð­ist allir vera sam­mála um að þörf sé á að styrkja nýsköpun – en að mati Loga er ekki nóg að tala um það, það þurfi að vera ein­hver vilji til þess – og Íslend­ingar þurfi að hafa lang­lund­ar­geð því upp­bygg­ing slíkra fyr­ir­tækja skili ekki ávöxt fyrr en eftir ára­tug, tvo eða þrjá.

Ekki nóg að setja fal­leg orð niður á blað

Logi segir að skap­andi störf og þessi tækni­bylt­ing sem Íslend­ingar séu að sigla inn í sé ákjós­an­leg fyrir land og þjóð. „Ís­land er stórt land með fáar hendur og mjög langt frá öðrum löndum og mörk­uð­um. Þannig að það að við veiðum mik­inn fisk helg­ast af því að hvað hægt sé að draga mikið úr sjó og hversu mikið sé hægt að vinna. Það á við um öll þessi hefð­bundnu störf sem við höfum byggt afkomu okkar á. Þessi staf­ræna vara lýtur bara auð­vitað allt öðrum lög­mál­um. Við getum með hug­vit­inu búið til enda­laust magn af staf­rænni vöru sem hægt er að koma á markað í fjar­lægum heims­álfum á nokkrum sek­úndum án þess að það kosti nokkra pen­inga eða vist­spor. Þannig að þessi tækni­bylt­ing gæti í raun­inni jafnað lífs­kjör okk­ar. Hún gæti aukið fram­leiðni sem er gríð­ar­lega mik­il­vægt núna þegar fleiri og fleiri eru að verða eldri sem hlut­fall af þjóð­inni. Og hún gæti líka minnkað vist­spor okkar alveg hell­ing. Þetta er ákjós­an­leg leið að veðja á fyrir lítið land.“

Hann telur að Íslend­ingar verði enn fremur að ná sam­an, það er öfl í stjórn­málum sem vilja fara þessa leið og vinna sam­an. „Ég tek undir með for­sæt­is­ráð­herr­anum okkar í grein sem hún birti í Progressive International þar sem hún segir að það sé bein­línis skylda okkar að vinna sam­an, ekki síst á þessum tímum og að byggja upp félags­legt rétt­læti og efna­hags­lega vel­sæld. En það er ekki nóg að setja fal­leg orð niður á blað, það er algjör­lega til­gangs­laust nema þú fram­fylgir því með því að mynda þannig stjórn. Við erum ekki með þannig stjórn í augna­blik­inu en ég ætla svo sann­ar­lega að vona að þessi grein verði ekki gleymd eftir næstu kosn­ing­ar.“

Lyk­ill­inn að nýsköpun er menntun

Varð­andi nýsköp­un­ina þá segir Logi að lyk­ill­inn að henni sé mennt­un. „Og auð­vitað mennta­kerfi sem byggir á for­sendu nem­and­ans en ekki ein­hvers til­tek­innar gerð af atvinnu­lífi. Ég held að við þurfum að efla þessa sígildu hluti eins og rann­sókn­ar­styrki og styrkja fyr­ir­tæki sem eru í mjög áhættu­sömum rekstri sem við vitum ekki hvað verður um en sem þurfa – eins og það heitir á fínu efna­hags­máli – þol­in­mótt fjár­magn.

En ég held hins vegar að lyk­ill­inn sé alltaf mennt­un, eins og ég sagði áður, og við gerum allt of lítið úr því hér á Íslandi að efna sköp­un­ar­gleði í skólum – og þarna er ég ekki bara að tala um háskóla heldur einnig grunn­skóla. Mjög lengi hefur verið litið þannig á að list­greinar og hand­verks­greinar séu auka­fög, svona til að fylla upp í svo skóla­dag­ur­inn verði ekki mjög leið­in­leg­ur. En störf eins og end­ur­skoð­andi, list­málari, tölv­un­ar­fræð­ingur eða versl­un­ar­maður byggja á því að þú sért skap­andi og að þú getir fram­leitt það óvænta. Gert mikil verð­mæti úr litlu. Það er ekki nóg að sulla niður á hverjum ein­asta stað á land­inu flottum fabla­b-ver­um. Við þurfum líka fólk með þekk­ingu sem getur kennt okkur hvernig hægt sé að ná miklum verð­mætum úr litlu.“

Hann leggur áherslu á að fram­tíðin verði að byggja á því að Íslend­ingar búi til meiri verð­mæti úr því sem þeir hafa, og jafn­vel minna en því sem þeir hafa í dag, vegna þess að lík­leg­ast verði ekki hægt að ganga eins mikið á umhverfið og nátt­úr­una eins og gert hefur verið hingað til.

Stoð­irnar í atvinnu­líf­inu verða að vera fleiri og fjöl­breytt­ari

Nokkuð hefur verið rætt um það að eftir far­ald­ur­inn verði til breytt sam­fé­lag; hvernig við störfum og höfum sam­skipti okkar á milli. Logi segir að hægt sé að líta á þetta ástand sem tæki­færi og að það verði að byggja á fjöl­mörgu.

„Það verður að byggja á fram­tíð­ar­sýn í atvinnu­líf­inu sem gerir stoð­irnar fleiri og fjöl­breytt­ari. En ekki síður þarf að byggja á því að við förum að ein­beita okkur að gildum sam­fé­lags­ins: Sam­hjálp, heið­ar­leika og sam­vinnu. Þegar við getum sæst á slík gildi, sem ég held að flestir Íslend­ingar geti, þá er veg­ur­inn að sann­gjörnu skatt­kerfi og upp­bygg­ingu ókeypis heil­brigð­is­kerfi og mennta­þjón­ustu miklu greið­fær­ari. Þannig held ég að upp geti sprottið miklu betra sam­fé­lag,“ segir hann.

Þá telur Logi að alvar­legt yrði „ef við ætl­uðum að ræsa vél­ina óbreytta eins og hún stopp­aði fyrir nokkrum mán­uð­um, og segja bara: Við ætlum að ná hér jafn­mörgum ferða­mönnum og við gerðum áður. Við ætlum að gera allt eins og áður. 

Ferða­þjón­ustan verður áfram gríð­ar­lega mik­il­væg fyrir Ísland en við þurfum að byggja á meiri gæð­um, skerpa sér­stöðu okkar þannig að við getum aflað jafn mik­illa tekna þótt ferða­mönnum fækki. En þar skortir ekki síst á að hið opin­bera standi fyrir metn­að­ar­fyllri inn­viða­upp­bygg­ing­u.“

Hann segir í fram­hald­inu að Íslend­ingar þurfi að end­ur­hugsa hlut­ina og byggja upp ferða­þjón­ust­una í miklu meiri sátt við nátt­úr­una og í miklu meiri gæðum – jafn­vel þótt umfangið yrði minna. „Við þurfum að fara að snúa okkur að því að sam­þykkja auð­linda­á­kvæði sem tíma­bindur nýt­ing­ar­heim­ildir sem nota þær. Þetta krefst þess að við fáum eðli­legt afgjald af auð­lind­inni svo við getum byggt um sam­fé­lag sem við viljum svo öll hafa.“

Breyt­ingar geta tekið langan tíma

Logi seg­ist vera bjart­sýnn að eðl­is­fari og því líti hann fram­tíð­ina björtum aug­um. „Mann­kyn­inu hefur þrátt fyrir allt miðað áfram, kannski of hægt, en því miðar áfram. Ég er líka sós­í­alde­mókrati og í því felst að ég sætti mig við að breyt­ingar þurfi og geti tekið langan tíma. Það hefst ekki endi­lega með umbylt­ingu en í mark­vissum skref­um. Ég tel það líka vera raun­hæf­ari leið.

Sjálfur þurfti ég til dæmis nokkrar atrennur að því að hætta að reykja en ef maður gerir það nægi­lega oft, þá á end­anum tekst það. Það sama er að segja með þetta. Við munum örugg­lega ekki sjá sam­fé­lag spretta upp sem er full­komið – og við munum örugg­lega aldrei ná full­komnu sam­fé­lagi. En við erum í færi til þess að gera betra sam­fé­lag.“

Hann hefur þá trú og von að það séu meiri líkur á því að slíkt sam­fé­lag verði til ef umbóta­flokk­arnir og vinstri flokkar í sam­fé­lag­inu nái völdum eftir næstu kosn­ing­ar.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal