Bára Huld Beck

Alvarlegt ef Íslendingar ætla að „ræsa vélina óbreytta“

Alvarlegt ástand er nú komið upp í íslensku efnahagslífi. Mörg hundruð milljarða króna tap í ríkisrekstri er fyrirséð, tugir þúsunda verða án atvinnu að öllu leyti eða að hluta og þúsundir fyrirtækja standa frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau lifi eða deyi. Kjarninn talaði við fulltrúa í stjórnarandstöðunni til þess að kanna hvernig þeir sæju framtíðina fyrir sér – og hvaða leiðir væru bestar út úr þessu ástandi. Næstur er formaður Samfylkingarinnar, Logi Einarsson.

Ég held að við séum einfaldlega of lítið samfélag til þess að við getum unað við fátækt í sama mæli og kannski stórþjóðir geta þar sem hægt er að loka augunum fyrir svoleiðis. Við þekkjum öll fólk sem er í vanda – þetta er svo nálægt okkur og ég held að við séum það ríkt land, bæði af mannauði en líka af náttúruauðlindum, að ef við skiptum þessu á milli okkar þá gætum við hreinlega verið fyrsta landið til þess að útrýma því sem að heitir fátækt á Íslandi.“

Þetta segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, um hugmyndir hans er varða Ísland framtíðarinnar en nú stendur þjóðin frammi fyrir miklum áskorunum vegna COVID-19 faraldursins.

Hann bendir á að 8.000 börn búi við fátækt á Íslandi og að það snerti alla – því allir þekki fjölskyldur sem glíma við þessar aðstæður. Það er hins vegar algjör óþarfi, að hans mati.

Hlutabótaleiðin reynst mikilvægust

Aðgerðir stjórnvalda vegna faraldursins voru í fyrstu ekki mjög umdeildar og studdu stjórnarandstöðuflokkarnir frumvörp ríkisstjórnarinnar til að byrja með – þó með breyttu sniði eins og gengur. Þegar Logi er spurður út í skoðun hans á þessum aðgerðum þá segir hann að það væri ósanngjarnt að ætlast til þess að allar aðgerðir við svona óvæntar hremmingar væru endilega eins og þær gætu bestar orðið. „Í því ljósi lýstum við, og í sjálfu sér allir stjórnarandstöðuflokkarnir, því yfir að við myndum leggjast á árar með ríkisstjórninni.“

Auglýsing

Logi segir að fyrsta aðgerðin, sem í raun byggði á aðgerð í hruninu, svokölluð hlutabótaleið hafi reynst mikilvægust. „Síðan hafa auðvitað komið aðgerðir sem hafa verið til bóta. Hins vegar er synd að það hafi ekki verið hlustað mikið á okkar breytingartillögur og við ekki höfð með í ráðum. Því við gerðum ráð fyrir sterkari viðspyrnu strax – meiri fjárfestingum, ekki síst í nýsköpun sem þarf að vera lykillinn að okkar dyrum inn til nýrrar framtíðar.“

Komið að vatnaskilum

Logi segir að nú sé komið að vatnaskilum hjá Íslendingum. Á síðustu vikum voru lögð fram tvö frumvörp, sem sagt endurbætt útgáfa af hlutabótaleiðinni og hins vegar laun fyrir fólk í uppsagnarfresti, og samþykkt. „Á mannamáli er verið að aðstoða fyrirtæki að reka fólk. Hugmyndin á bak við það er skiljanleg að því leyti að fyrirtækin þurfa hugsanlega að taka á sig nýja mynd og stramma sig síðan aðeins niður til þess að eiga einhverja lífsvon og viðspyrnu þegar þessu líkur. Vandamálið hins vegar er að eins og hlutabæturnar eru útfærðar núna þá er beinlínis hvati til þess að fara frekar þá leið að segja upp fólki heldur en að halda ráðningasambandi við það.“

Nú sé að renna upp tími þar sem einhver von er um rekstur með komu innlendra og erlendra ferðamanna. Þá sé miklu áskjósanlegra að segja fólki upp og láta það vinna 100 prósent afköst á þriggja mánaða uppsagnarfresti, frekar en að fara hlutabótaleiðina þar sem fólk má ekki vinna meira en því sem nemur því hlutfalli sem launagreiðandi borgar.

„Við höfum sagt að þessi frumvörp virki mjög illa saman og ég hefði frekar vilja sá að við hefðum haldið okkur við hlutabótaleiðina, jafnvel víkkað hana út – og jafnvel borga 100 prósent af launum starfsmanna. En þá hefðum við að minnsta kosti haldið þessu ráðningasambandi og kannski ekki þurft að horfast í augu við það í lok sumars að ef einhver verði ráðinn aftur inn á launaskrá að þeir verði ráðnir inn á nýjum og verri kjörum.

Þetta var fyrsta stóra COVID-málið sem við gátum ekki stutt,“ segir hann.

Logi Einarsson
Birgir Þór Harðarson

Viss um að samráðsleysið verði seinna gagnrýnt

Eins og áður segir gefur Logi stjórnvöldum ákveðið rými vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru. „Já, ríkisstjórn verður alltaf að hafa meira olnbogarými í svona utanaðkomandi áföllum. Síðan fer það eftir hverjum og einum þjóðarleiðtoganum hversu vel hann fer með það olnbogarými.“

Hann telur að ríkisstjórnin hefði stækkað og aukið trúverðugleika sinn ef hún hefði strax í upphafi, eins og víða hafi verið gert annars staðar í heiminum, kallað stjórnarandstöðuna í aukið samráð. „Þetta er í raun enn alvarlegra því á þessum tíma þá var líka þrengt að starfsemi Alþingis, vegna þess að veiran setti okkur takmörk, og ef við hefðum ekki þrátt fyrir allt – tja, hvað á ég að segja – almennilegt fólk sem situr í ráðherrastólunum þá held ég að það hefðu heyrst hærri raddir. Ég er viss um að seinna meir verði þetta gagnrýnt.“


Þegar Logi er spurður út í það hvers vegna þverpólitískt samstarf sé mikilvægt segir hann að Íslendingar sigli nú ekki inn í kreppu sem eigi sér stað vegna þess að ríkisstjórnin hafi vert mistök í sjálfu sér. „Auðvitað var efnahagslífið farið að kólna og það var margt sem þessi ríkisstjórn, og ekki síst þessar síðustu, gerðu rangt í aðdraganda – því það lá fyrir að það myndi halla undan fæti. En þau sannarlega bera ekki ábyrgð á kórónuveirunni.

Í því ljósi þegar verið er að aftengja alla venjulega hagstjórn – þegar hagfræðingar hafa engin svör hvað gerist þegar framboð og eftirspurn fellur á sama tíma – þá þarf frumlegar og djarfar lausnir og það þarf ekki síst samstöðu hjá þjóðinni um þær aðgerðir – eins og til dæmis var um aðgerðir heilbrigðisteymisins. Og þess vegna held ég að það hefði verið heppilegra fyrir þjóðarsálina og fyrir ríkisstjórnina líka, því við munum líka eðlilega, ef við erum ekki höfð með í ráðum, benda á þau mistök sem þau gera á leiðinni sem við hefðum viljað gera öðruvísi.“

Pólitísk umræða gæti orðið býsna harkaleg

Logi gerir ráð fyrir því þegar líða fer á haustið og við mörgum blasir harður vetur. Þegar atvinnuleysi og ójöfnuður hefur aukist, þá gæti pólitísk umræða orðið býsna harkaleg. „Og ég held að hún verði að vera það. Þrátt fyrir allt þá er þetta réttur tími til að ræða grundvallargildi og spyrja: Hvers konar samfélag viljum við hafa?

Ég held að við getum verið sammála um það allir þingmenn að við erum ekki að reka sjoppu, við erum að reka samfélag þar sem leikreglurnar verða að vera skýrar – eðlilega. Og gagnsæjar og lýðræðislegar. Og í raun þarf framtíðarsýnin að miða að því að við skilum næstu kynslóð meiri gæðum heldur en við bjuggum við – eða að minnsta kosti ekki verri.“

Um þær leiðir er síður en svo sátt á milli stjórnmálaflokkanna, að sögn Loga. Það er það sem geri núverandi stjórnarsamstarf áhugavert. „Af því að um leið og við þurfum að takast á við þessar grundvallarspurningar og að við vitum að við erum á krossgötum, þá er ekki gott að hafa ríkisstjórn sem deilir ekki sýn á framtíðina. Sem deilir ekki einu sinni sýn á grundvallarhluti eins og tilgang og eðli skattkerfisins. Þau virðast hafa getað sameinast um að viðhalda einhverjum meingölluðum kerfum í sjávarútvegi til dæmis. En annað ekki.“

Logi Einarsson
Bára Huld Beck

Verðum að taka mjög alvarlega umræðu um skattkerfið

Hver er þá framtíðarsýn Loga og þeirra í Samfylkingunni? „Í fyrsta lagi verðum við að fara að taka mjög alvarlega umræðu um skattkerfið og þora að ræða um það. Er tilgangur þess að afla einungis tekna til þess að standa undir lágmarksþjónustu eða er tilgangurinn að afla tekna til þess að standa undir góðri þjónustu – og um leið jafna kjörin? Við þurfum að gera það.“

Þá bendir hann á þann loftslagsvanda sem mannkynið stendur frammi fyrir og telur hann að mikilvægt sé að takast á við þann vanda. „Við erum að sigla inn í mjög spennandi umhverfi tæknibreytinga sem mun gjörbylta öllum okkar lifnaðarháttum. Og spurningin er: Viljum við nýta okkur þær til þess að ráðast gegn ójöfnuði, ráðast gegn loftslagsbreytingum og jafna kjörin eða ætlum við að byggja áfram einungis á auðlindum okkar með mjög frumstæðum hætti?“ spyr Logi.

Hann telur enn fremur að Íslendingar hafi of fáar stoðir í atvinnulífinu. „Við höfum leyft einni stoðinni, ferðaþjónustunni, að vaxa algjörlega stjórnlaust án þess að gera nokkrar tilraunir til þess að marka okkur einhverja stefnu. Greinin skipti auðvitað gríðarlegu máli í viðspyrnunni eftir fjármálahrunið og renndi stoðum undir störf og verðmætasköpun um allt land. En við hefðum á sínum tíma alveg örugglega þurft að stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi, styðja til dæmis betur við vaxtabrodda tengda nýsköpun eða tækniþróun og reyna að stjórna vexti ferðaþjónustunnar, til að mynda með því að taka gjöld af ferðamönnum. Í staðinn byggðum við upp eina risastóra stoð, svo stóra að ef hún félli eða svignaði þá værum við í stórkostlegum vanda – og ekki síst þess vegna erum við í meiri vanda en margar nágrannaþjóðir okkar.“

Auglýsing

Nú virðist allir vera sammála um að þörf sé á að styrkja nýsköpun – en að mati Loga er ekki nóg að tala um það, það þurfi að vera einhver vilji til þess – og Íslendingar þurfi að hafa langlundargeð því uppbygging slíkra fyrirtækja skili ekki ávöxt fyrr en eftir áratug, tvo eða þrjá.

Ekki nóg að setja falleg orð niður á blað

Logi segir að skapandi störf og þessi tæknibylting sem Íslendingar séu að sigla inn í sé ákjósanleg fyrir land og þjóð. „Ísland er stórt land með fáar hendur og mjög langt frá öðrum löndum og mörkuðum. Þannig að það að við veiðum mikinn fisk helgast af því að hvað hægt sé að draga mikið úr sjó og hversu mikið sé hægt að vinna. Það á við um öll þessi hefðbundnu störf sem við höfum byggt afkomu okkar á. Þessi stafræna vara lýtur bara auðvitað allt öðrum lögmálum. Við getum með hugvitinu búið til endalaust magn af stafrænni vöru sem hægt er að koma á markað í fjarlægum heimsálfum á nokkrum sekúndum án þess að það kosti nokkra peninga eða vistspor. Þannig að þessi tæknibylting gæti í rauninni jafnað lífskjör okkar. Hún gæti aukið framleiðni sem er gríðarlega mikilvægt núna þegar fleiri og fleiri eru að verða eldri sem hlutfall af þjóðinni. Og hún gæti líka minnkað vistspor okkar alveg helling. Þetta er ákjósanleg leið að veðja á fyrir lítið land.“

Hann telur að Íslendingar verði enn fremur að ná saman, það er öfl í stjórnmálum sem vilja fara þessa leið og vinna saman. „Ég tek undir með forsætisráðherranum okkar í grein sem hún birti í Progressive International þar sem hún segir að það sé beinlínis skylda okkar að vinna saman, ekki síst á þessum tímum og að byggja upp félagslegt réttlæti og efnahagslega velsæld. En það er ekki nóg að setja falleg orð niður á blað, það er algjörlega tilgangslaust nema þú framfylgir því með því að mynda þannig stjórn. Við erum ekki með þannig stjórn í augnablikinu en ég ætla svo sannarlega að vona að þessi grein verði ekki gleymd eftir næstu kosningar.“

Lykillinn að nýsköpun er menntun

Varðandi nýsköpunina þá segir Logi að lykillinn að henni sé menntun. „Og auðvitað menntakerfi sem byggir á forsendu nemandans en ekki einhvers tiltekinnar gerð af atvinnulífi. Ég held að við þurfum að efla þessa sígildu hluti eins og rannsóknarstyrki og styrkja fyrirtæki sem eru í mjög áhættusömum rekstri sem við vitum ekki hvað verður um en sem þurfa – eins og það heitir á fínu efnahagsmáli – þolinmótt fjármagn.

En ég held hins vegar að lykillinn sé alltaf menntun, eins og ég sagði áður, og við gerum allt of lítið úr því hér á Íslandi að efna sköpunargleði í skólum – og þarna er ég ekki bara að tala um háskóla heldur einnig grunnskóla. Mjög lengi hefur verið litið þannig á að listgreinar og handverksgreinar séu aukafög, svona til að fylla upp í svo skóladagurinn verði ekki mjög leiðinlegur. En störf eins og endurskoðandi, listmálari, tölvunarfræðingur eða verslunarmaður byggja á því að þú sért skapandi og að þú getir framleitt það óvænta. Gert mikil verðmæti úr litlu. Það er ekki nóg að sulla niður á hverjum einasta stað á landinu flottum fablab-verum. Við þurfum líka fólk með þekkingu sem getur kennt okkur hvernig hægt sé að ná miklum verðmætum úr litlu.“

Hann leggur áherslu á að framtíðin verði að byggja á því að Íslendingar búi til meiri verðmæti úr því sem þeir hafa, og jafnvel minna en því sem þeir hafa í dag, vegna þess að líklegast verði ekki hægt að ganga eins mikið á umhverfið og náttúruna eins og gert hefur verið hingað til.

Stoðirnar í atvinnulífinu verða að vera fleiri og fjölbreyttari

Nokkuð hefur verið rætt um það að eftir faraldurinn verði til breytt samfélag; hvernig við störfum og höfum samskipti okkar á milli. Logi segir að hægt sé að líta á þetta ástand sem tækifæri og að það verði að byggja á fjölmörgu.

„Það verður að byggja á framtíðarsýn í atvinnulífinu sem gerir stoðirnar fleiri og fjölbreyttari. En ekki síður þarf að byggja á því að við förum að einbeita okkur að gildum samfélagsins: Samhjálp, heiðarleika og samvinnu. Þegar við getum sæst á slík gildi, sem ég held að flestir Íslendingar geti, þá er vegurinn að sanngjörnu skattkerfi og uppbyggingu ókeypis heilbrigðiskerfi og menntaþjónustu miklu greiðfærari. Þannig held ég að upp geti sprottið miklu betra samfélag,“ segir hann.

Þá telur Logi að alvarlegt yrði „ef við ætluðum að ræsa vélina óbreytta eins og hún stoppaði fyrir nokkrum mánuðum, og segja bara: Við ætlum að ná hér jafnmörgum ferðamönnum og við gerðum áður. Við ætlum að gera allt eins og áður. 

Ferðaþjónustan verður áfram gríðarlega mikilvæg fyrir Ísland en við þurfum að byggja á meiri gæðum, skerpa sérstöðu okkar þannig að við getum aflað jafn mikilla tekna þótt ferðamönnum fækki. En þar skortir ekki síst á að hið opinbera standi fyrir metnaðarfyllri innviðauppbyggingu.“

Hann segir í framhaldinu að Íslendingar þurfi að endurhugsa hlutina og byggja upp ferðaþjónustuna í miklu meiri sátt við náttúruna og í miklu meiri gæðum – jafnvel þótt umfangið yrði minna. „Við þurfum að fara að snúa okkur að því að samþykkja auðlindaákvæði sem tímabindur nýtingarheimildir sem nota þær. Þetta krefst þess að við fáum eðlilegt afgjald af auðlindinni svo við getum byggt um samfélag sem við viljum svo öll hafa.“

Breytingar geta tekið langan tíma

Logi segist vera bjartsýnn að eðlisfari og því líti hann framtíðina björtum augum. „Mannkyninu hefur þrátt fyrir allt miðað áfram, kannski of hægt, en því miðar áfram. Ég er líka sósíaldemókrati og í því felst að ég sætti mig við að breytingar þurfi og geti tekið langan tíma. Það hefst ekki endilega með umbyltingu en í markvissum skrefum. Ég tel það líka vera raunhæfari leið.

Sjálfur þurfti ég til dæmis nokkrar atrennur að því að hætta að reykja en ef maður gerir það nægilega oft, þá á endanum tekst það. Það sama er að segja með þetta. Við munum örugglega ekki sjá samfélag spretta upp sem er fullkomið – og við munum örugglega aldrei ná fullkomnu samfélagi. En við erum í færi til þess að gera betra samfélag.“

Hann hefur þá trú og von að það séu meiri líkur á því að slíkt samfélag verði til ef umbótaflokkarnir og vinstri flokkar í samfélaginu nái völdum eftir næstu kosningar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal