Tvö tilfelli hafa nú verið staðfest innanlands af COVID-19, samkvæmt tilkynningu frá Almannavörnum. Annað þeirra er upprunnið erlendis og greindist í gær en hitt var greint í morgun og er þar um að ræða innanlandssmit.
Það er í fyrsta sinn sem slíkt smit, sem verður innan landamæra Íslands, er greint frá því um miðjan maímánuð.
Almannavarnir segja að áætlað sé að yfir 200 manns þurfi að fara í sóttkví vegna smitanna. Unnið er að smitrakningu og er málið meðhöndlað sem hugsanleg hópsýking á höfuðborgarsvæðinu.
Í gær var sagt frá því að íslensk knattspyrnukona, sem leikur með Breiðablik í efstu deild, hefði greinst með jákvætt sýni í COVID-19 sýnatöku. Hún kom til landsins 17. júní og reyndist sýnataka á landamærum neikvæð. Síðar kom í ljós að hún hafði verið í nánd við smitaðan einstakling erlendis og fór því aftur í sýnatöku. Sú sýnataka reyndist jákvæð.
Í tilkynningu frá Almannavörnum sem birt var í gær sagði að knattspyrnukonun væri sem stendur einkennalaus. „Allir sem hafa verið útsettir fyrir smiti í samskiptum við hana síðastliðna tvo sólarhringa þurfa að fara í sóttkví í 14 daga. Smitrakning er í gangi en ljóst er að margir þurfa að fara í sóttkví.“
RÚV greindi frá því í gærkvöldi að allir leikmenn Breiðabliks og þjálfarateymi liðsins verða í sóttkví í 14 daga. Breiðablik mætti KR í deildinni í vikunni og leikmannahópur KR mun einnig fara í sóttkví. Frekari smitrakning er í gangi.
Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) greindi frá því í dag að alls fimm leikjum hafi verið frestað vegna málsins. Þeir eru:
30. júní kl. 19.15 Þróttur R – Breiðablik
1. júlí kl. 19.15 KR – FH
6. júlí kl. 18.00 Breiðablik – Þór/KA
6. júlí kl. 19.15 Selfoss - KR
26. júní kl. 19:15 Augnablik - Völsungur