Tæplega 10.140 sýni höfðu í gær verið tekin í skimunum vegna kórónuveirunnar á landamærum Íslands. Á vefsíðunni Covid.is, sem uppfærð er daglega kl. 13, má sjá að ellefu virk smit eru nú hér á landi sem þýðir að fólkið sem greinst hefur með þau getur smitað aðra. 379 eru nú í sóttkví en í fyrradag var fjöldinn 180.
Í gær greindust tveir með veiruna í landamæraskimun og tveir til viðbótar hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Frá því skimun við landamærin hófst 15. júní hafa tuttugu greinst með smit en aðeins fjórir með virk smit.
Fyrr í vikunni var greint frá því að leikmaður Breiðabliks hefði greinst með kórónuveiruna. Sá hafði komið til landsins frá Bandaríkjunum 17. Júní en fengið neikvæða niðurstöðu út úr sýnatökunni þá. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, staðfesti við RÚV í morgun að smit leikmanns Stjörnunnar megi rekja til leikmanns Breiðabliks.
Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður smitrakningarteymisins og aðstoðaryfirlögregluþjónn, sagði í samtali við Kjarnann í morgun að ekki væri með óhyggjandi hætti hægt að fullyrða að leikmaður Breiðabliks hefði smitast erlendis. Hann kann að hafa smitast hér á landi. „Hver smitar hvern“ sé ekki alltaf á hreinu.
Í leiðbeiningum yfirvalda varðandi landamæraskimun kemur fram að ef fólk mælist ekki með veiruna á prófinu sé samt „æskilegt“ að fara varlega fyrstu fjórtán dagana „því niðurstöður prófsins eru ekki alveg óyggjandi“.
Einnig segir: „Allir ferðamenn eru hvattir til að gera varúðarráðstafanir til að vernda sjálfa sig og aðra, s.s. tíðan handþvott, notkun sótthreinsiefna, tveggja metra nándarregluna og að virða þær heilbrigðis- og öryggisreglur sem í gildi eru.“
Eftir því hefur verið tekið síðustu daga að á fótboltaleikjum eru leikmenn liða að fagna mörkum með faðmlögum. „Ég held að eina fólkið sem ekki tekur þátt í því [inni á vellinum] séu dómararnir, þeir passa sig,“ segir Ævar.
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, sagði við Kjarnann í morgun að leiðbeiningar um hvernig aðildarfélög skuli bera sig að vegna COVID-19 hafi verið vel kynntar en í þeim segir til dæmis að ekki eigi að fagna mörkum með snertingu.