Nýjustu smitin „mjög harkaleg áminning“

Ekki er útilokað að leikmaður Breiðabliks hafi smitast af veirunni hér á landi þótt líklegra sé að það hafi gerst í Bandaríkjunum, segir yfirmaður smitrakningarteymisins. Samkvæmt leiðbeiningum KSÍ skulu leikmenn ekki fagna mörkum með snertingu.

Kórónuveiran smitast við snertingu. Handþvottur og nándarmörk eru bestu aðferðirnar við að hindra útbreiðsluna
Kórónuveiran smitast við snertingu. Handþvottur og nándarmörk eru bestu aðferðirnar við að hindra útbreiðsluna
Auglýsing

„Það er talið að hún hafi komið með smitið frá Bandaríkjunum en það er ekki hægt að útiloka að hún hafi smitast af einhverjum öðrum í fjölmennum fótboltaleikjum og útskriftarveislu sem hún sótti.“

Þetta segir Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður smitrakningarteymisins og aðstoðaryfirlögregluþjónn, um smit sem greindist hjá konu í knattspyrnuliði Breiðabliks fyrr í vikunni. Tvö innanlandssmit hafa greinst í kjölfarið. „En hver smitaði hvern er aldrei hundrað prósent öruggt.“

Konan kom til Íslands frá Bandaríkjunum 17. júní. Niðurstaða úr landamæraskimun fyrir veirunni var neikvæð. Nokkrum dögum eftir heimkomuna fékk hún fregnir af því að herbergisfélagi hennar ytra hefði greinst með veiruna. Hún fór þá sjálf í sóttkví og fékk svo niðurstöðu úr annarri skimun og reyndist hún jákvæð. Í millitíðinni hafði hún hins vegar leikið tvo fótboltaleiki og farið í útskriftarveislu.

Auglýsing

Í gærkvöldi voru 210 manns komnir í sóttkví vegna þessa eina smits. Sá fjöldi kann að breytast, hann getur að sögn Ævars átt eftir að minnka en einnig er mögulegt að hann aukist. Hópurinn sem kominn er í sóttkví er á nokkuð breiðu aldursbili þó að kjarninn sé ungt fólk. Um umfangsmestu smitrakningu frá upphafi er að ræða. Að sögn Ævars var hún nokkuð flókin og leggjast þurfti  í talsverða greiningar- og rannsóknarvinnu til að hafa uppi á fólki.

Í smitrakningarteyminu eru nú þrír starfsmenn að staðaldri en í gær var kallað inn fólk til aðstoðar og átta unnu því að rakningunni.

Það er orðið nokkuð síðan að Íslendingar áttu von á símtölum frá rakningarteyminu um að það þurfi að fara í sóttkví. „Fólk tekur þessum símtölum almennt ágætlega,“ segir Ævar, „og áttar sig á alvarleika málsins og er í rauninni þakklátt að við náum til þess svona fljótt.“

Ævar Pálmi Pálmason, fer fyrir smitrakningarteyminu. Mynd: Lögreglan

 Ævar segir varasamt að tala um að ákveðinn einstaklingur sé að smita aðra og verða til þess að fjöldi manns fari  í sóttkví. „Því það er alltaf erfitt að fullyrða hver smitaði hvern. Sá sem að fer fyrstur í sýnatöku og greinist fyrstur er ekki endilega sá sem smitaði þann sem næstur fer.“

Hann gagnrýnir, af þessum sökum, að nafn konunnar hafi verið birt í fjölmiðlum. Hann ítrekar að þó að það sé líklegt að hún hafi smitast erlendis sé ekki hægt að útiloka að hún hafi smitast eftir að hún kom til landsins. Það margir dagar liðu frá landamæraskimuninni.

„Af því að ég er nú rannsóknarlögreglumaður að upplagi þá er þetta næstum því sambærilegt við það að einhver myndi ganga inn til okkar og játa á sig glæp. En það verður alltaf að skoða alla hina möguleikana.“

Æskilegt að fara varlega í tvær vikur

Í leiðbeiningum yfirvalda varðandi landamæraskimun kemur fram að ef fólk mælist ekki með veiruna á prófinu sé samt „æskilegt“ að fara varlega fyrstu fjórtán dagana „því niðurstöður prófsins eru ekki alveg óyggjandi“.

Einnig segir: „Allir ferðamenn eru hvattir til að gera varúðarráðstafanir til að vernda sjálfa sig og aðra, s.s. tíðan handþvott, notkun sótthreinsiefna, tveggja metra nándarregluna og að virða þær heilbrigðis- og öryggisreglur sem í gildi eru.“

Eftir því hefur verið tekið síðustu daga að á fótboltaleikjum eru leikmenn liða að fagna mörkum með faðmlögum. „Ég held að eina fólkið sem ekki tekur þátt í því [inni á vellinum] séu dómararnir, þeir passa sig,“ segir Ævar.

Auglýsing

Hann segir það tilfinningu flestra sem talað hefur verið við vegna þessarar smitrakningar að landsmenn hafi sofnað á verðinum og séu orðnir kærulausir. Sprittbrúsar sjáist ekki í sumum verslunum og merkingar á gólfum um tveggja metra regluna hafi verið fjarlægðar. „Svo heyrir maður sögur af því að það sé rokið á fólk og það faðmað og tekið í hendina á því áður en það veit af. Fólk er óöruggt um hvað á að gera, hvort það eigi að viðhalda þessum reglum eða ekki.“

 Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur hins vegar hamrað áfram á því að fólk þurfi að gæta að sóttvörnum – veiran sé enn á sveimi. „Þessi smit sem eru að koma upp núna eru mjög harkaleg áminning um það að við þurfum að halda því áfram.“

Beðið upplýsinga áður en ákvarðanir teknar

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, sagði í samtali við Kjarnann í morgun að sambandið væri í biðstöðu á meðan sóttvarnayfirvöld færu yfir málin sem upp eru komin vegna smita meðal leikmanna knattspyrnuliðanna. Í gærkvöldi kom fram í fréttum að leikmaður í karlaliði Stjörnunnar hefði greinst með veiruna og staðfestir Klara það. „Núna erum við að bíða frekari upplýsinga, bæði um hvort og þá hversu margir leikmenn Stjörnunnar þurfa að fara í sóttkví. Síðan tökum við ákvörðun um framhaldið.“

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ.

Í morgun sagði hún sambandið því ekki enn hafa forsendur til þess að ákveða hvort að einhverjum leikjum verði frestað eða aflýst vegna smitanna. Spurð hvort að ein sviðsmyndin sé sú að slá því sem eftir er af leiktíðinni á frest segir hún: „Við erum langt frá því að vera þar. Eins og staðan er núna erum við að glíma við einangruð tilfelli. Okkar allra vegna bindum við vonir við að það verði niðurstaðan. Þetta snýst um miklu meira heldur en fótboltann.“

Spurð hvort starfsmönnum KSÍ sé brugðið vegna fregna af smitum innan hreyfingarinnar bendir hún  á að talað sé um hópsmit „og að sjálfsögðu tökum við þessum fréttum mjög alvarlega og gerum hvað við getum til að vinna þetta eins vel og við getum“.

Það hefur vakið athygli að leikmenn eru að fagna inni á vellinum með faðmlögum og þar fram eftir götunum, eru til einhverjar reglur um þetta hjá KSÍ?

Klara segir að á heimasíðu KSÍ séu leiðbeiningar til félaga vegna COVID-19 sem séu uppfærðar reglulega. Hún segir þær hafa verið kynntar mjög vel. Í þeim segir m.a.: „Leikmenn og starfsmenn fagna mörkum án snertingar.“

„En ég held að fótboltinn sé ekkert frábrugðinn öðru í þjóðfélaginu að þessu leyti,“ bendir Klara á. „Ég og þú vitum það alveg að það eru allir byrjaðir að slaka á.“

Hún segir stjórnendur KSÍ hafa haft áhyggjur af því undanfarið að fólk sé farið að slaka á sóttvörnum. Spurð hvort KSÍ hafi þá gert athugasemdir við þá nánd sem leikmenn hafa sýnt inni á vellinum segir  hún svo ekki vera. En strax í gær hafi varúðarorð verið ítrekuð. „Þetta eru leiðbeiningar og tilmæli. Þetta eru ekki reglur. Við höfum enga lögsögu í slíkum málum [varðandi sóttvarnarsvæði og annað].“


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiInnlent