Rúmlega 11.100 sýni höfðu í gær verið tekin í skimunum vegna kórónuveirunnar á landamærum Íslands. Á vefsíðunni Covid.is, sem uppfærð er daglega kl. 13, má sjá að enn eru ellefu virk smit nú hér á landi sem þýðir að fólkið sem greinst hefur með þau getur smitað aðra. Nokkuð hefur fækkað í sóttkví á milli daga eða úr 379 í 344.
Í gær greindust tveir með veiruna í landamæraskimun. Hvorugur þeirra reyndist smitandi. Frá því skimun við landamærin hófst 15. júní hafa 22 greinst með smit en aðeins fjórir með virk smit.
Í síðustu viku var greint frá því að leikmaður Breiðabliks hefði greinst með kórónuveiruna. Sá hafði komið til landsins frá Bandaríkjunum 17. Júní en fengið neikvæða niðurstöðu út úr sýnatökunni þá. Leikmaðurinn fór svo aftur í sýnatöku nokkrum dögum síðar og greindist þá með veiruna.
Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður smitrakningarteymisins og aðstoðaryfirlögregluþjónn, sagði í samtali við Kjarnann í gærmorgun að ekki væri með óhyggjandi hætti hægt að fullyrða að leikmaður Breiðabliks hefði smitast erlendis. Hann kann að hafa smitast hér á landi. „Hver smitar hvern“ sé ekki alltaf á hreinu.
Í sama streng tók Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, í kvöldfréttum RÚV í gær. Sagði hann að uppruni hópsmitsins, sem hefur valdið því að hundruð manna eru nú í sóttkví, kunni að vera allt annar en talið var. Starfsfólk Íslenskrar erfðagreiningar vinnur nú að því tað komast að hinu sanna.