Icelandair hefur ekki náð samkomulagi við leigusala, Boeing og færsluhirði eins og staðan er í dag, en uppgefinn frestur sem félagið hafði gefið sér til að ljúka slíkum við hagaðila rennur út í dag, 29. júní.
Í tilkynningu sem send hefur verið til Kauphallar Íslands kemur fram að Icelandair muni reyna áfram að ná samkomulagi við þá hagaðila sem eftir á að semja við í júlímánuði og stefnir nú að því að ætlað hlutafjárútboð, sem átti upphaflega að hefjast í dag, fari nú fram í ágústmánuði.
í tilkynningu Icelandair til Kauphallar Íslands í morgun kemur fram að ef viðræður sem nú standa yfir við lánadrottna, leigusala, Boeing og aðra hagaðila skili ekki árangri muni félagið þurfa að feta aðra slóð og án aðkomu stjórnvalda. Slíkt gæti tekið allt að tólf mánuði og Icelandair myndi þurfa að óska eftir greiðslustöðvun á meðan að á því stæði.
Í tilkynningunni segir félagið vinni nú með íslenskum stjórnvöldum, Íslandsbanka og Landsbankanum, sem báðir eru í eigu íslenska ríkisins og eru stærstu innlendu kröfuhafar flugfélagsins, við útfærslu ríkisábyrgðar á láni til félagsins. „Lánafyrirgreiðsla íslenskra stjórnvalda verður þó meðal annars háð samkomulagi við kröfuhafa og að félagið nái markmiðum sínum um öflun nýs hlutafjár.“
Þar segir að samningaviðræður við hagaðila hafi þokast áfram á undanförnum vikum og gætu skilað niðurstöðu á næstu dögum haldi viðræðurnar áfram á uppbyggilegum nótum. „Með því að ljúka samkomulagi við fyrrnefnda aðila í júlímánuði mun Icelandair Group hefja hlutafjárútboð í ágúst. Fari svo að samningaviðræður skili ekki tilætluðum árangri, mun félagið þurfa að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu án aðkomu íslenskra stjórnvalda. Slíkt ferli gæti tekið allt að tólf mánuði og á meðan á því stæði þyrfti félagið að fresta öllum greiðslum til fjármögnunaraðila félagsins.“
Fresturinn rennur út í dag
Kjarninn greindi frá því í morgun að Icelandair Group þyrfti að vera búið að ná samkomulagi við íslenska ríkið, lánveitendur, leigusala og aðra hagaðila fyrir lok dags í dag, 29. júní, um fjárhagslega endurskipulagningu, samkvæmt tilkynningu sem félagið sendi frá sér 15. júní síðastliðinn.
Sú tilkynning var send í þeim tilgangi að upplýsa um að fyrri áætlanir, settar fram á hlutahafafundi Icelandair 22. maí síðastliðinn, um að ljúka gerð þeirra samninga 15. júní hefði frestast um tvær vikur. Þau eru forsenda þess að Icelandair geti ráðist í hlutafjárútboð til að safna vel á þriðja tug milljarða króna, en samkvæmt upphaflegri áætlun félagsins átti það útboð að hefjast í dag.
Í tilkynningunni 15. júní tilgreindi Icelandair að greint yrði frá nýrri tímalínu atburða þegar viðræður við hagaðila um endurskipulagningu væru á lokametrunum.
Engin slík tímalína hafði verið birt í tilkynningakerfi Kauphallar Íslands á síðastliðnum tveimur vikum. Að óbreyttu hefði Icelandair því þurft að handsala samkomulag við alla ofangreinda hagaðila í dag, eða fresta enn frekar áformum sínum um að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu með hlutafjárútboði.
Tilkynning um breytta tímalínu var svo send til Kauphallar Íslands klukkan 8:45 í morgun.
Kapphlaup við tímann
Það nær algjöra stopp sem varð á flugumferð í heiminum samhliða útbreiðslu COVID-19 og sú mikla óvissa sem er uppi um ferðaþjónustu vegna þessa hefur haft gríðarleg áhrif á Icelandair. Félagið hefur notið fjölmargra úrræða stjórnvalda eins og hlutabótaleiðarinnar og styrkja til að segja fólki upp í mæra mæli en nokkurt annað fyrirtæki.
Samt hefur blasað við lengi að Icelandair þarf að ná sér í nýtt fé til að lifa af. Og það ætlar fyrirtækið að gera í hlutafjárútboði sem á að hefjast í lok mánaðar. Þar ætlar það sér að sækja allt að 200 milljónir dali, um 28 milljarða króna á gengi dagsins í dag.
Lykilbreyta í því að geta sótt það fé var að semja upp á nýtt lykilstarfsfólk. Samningar þeirra þóttu óhagstæðir í augum fjárfesta og draga úr samkeppnishæfni Icelandair.
Þar hefur náðst árangur. Aðfaranótt síðastliðins föstudags var skrifað undir nýjan langtímasamning við Flugfreyjufélag Íslands (FFÍ). Félagsmenn FFÍ eiga þó enn eftir að samþykkja samninginn.
Flugmenn og flugvirkjar Icelandair voru þegar búnir að semja um langtímakjarasamninga. Því stóðu flugfreyjur og -þjónar fyrirtækisins einir eftir af lykilstéttum sem þurfti að ná nýju samkomulagi við, sem gæti liðkað fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu Icelandair.
Eiga eftir að semja við lánveitendur, leigusala, ríkið og Boeing
Á hluthafafundi Icelandair þann 22. maí síðastliðinn, þar sem veitt var heimild til að auka hlutafé félagsins svo mikið að núverandi hluthafar gætu þynnst niður í 15,3 prósent eignarhlut, var kynnt áætlun um hvernig hin fjárhagslega endurskipulagning myndi fara fram. Samkvæmt henni átti að undirrita samkomulag við alla hagaðila 15. júní, birta átti lýsingu á hlutafjárútboðinu og kynningu til væntanlegra hluthafa 16-22. júní og útboðið sjálft átti svo að hefjast 29. júní, eða í dag, og standa fram á fimmtudag. Sú tímalína hefur ekki staðist og 15. júní síðastliðinn var greint frá því að samkomulag við hagaðila væri ekki í höfn. Ný tímalína gerði ráð fyrir að það myndi klárast fyrir lok dags 29. júní. Öll önnur skref frestast í samræmi við það. Tilkynningin sem send var út í dag segir svo að ljúka þurfi samkomulagi við hagaðila í júlí svo að hægt sé að ráðast í hlutafjárútboðið í ágúst. Engar nákvæmari dagsetningar eru tilgreindar.
Til að hlutafjárútboðið fari fram og geti mögulega skilað tilætluðum árangri þarf margt að gerast. Í fyrsta lagi þarf að semja við lánveitendur, færsluhirði og leigusala.
Stærstu lánveitendur Icelandair eru ríkisbankarnir tveir, Íslandsbanki og Landsbankinn, og bandaríski bankinn CIT Bank.
Viðmælendur Kjarnans telja borðleggjandi að þessir kröfuhafar þurfi að breyta kröfum í hlutafé til að hægt verði að ná í nýtt hlutafé í reksturinn. Ekki sé tilhlýðilegt að kröfuhafar sitji einir eftir með að fá allt sitt, þegar allir aðrir sem tengjast Icelandair þurfa að taka á sig aðlögun vegna aðstæðna. Hið minnsta þurfi að veita félaginu langt greiðsluhlé og breyta ýmsum skilmálum í lánasamningum, mögulega á þann veg að um verði að ræða breytilega samninga sem verði einfaldlega breytt í hlutafé náist ekki ákveðinn árangur í rekstrarviðsnúningi.
Gangi allt ofangreint eftir er því verkefni ólokið að semja við flugvélaframleiðandann Boeing um að losna undan kaupsamningum á þeim Boeing 737 Max vélum sem Icelandair hefur enn ekki fengið afhendar, og um frekari skaðabætur vegna þeirra sem félagið hefur þegar keypt en getur ekki notað vegna kyrrsetningar á vélunum. Þær viðræður hafa verið skilgreindar „í gangi“ af Icelandair. Í tilkynningunni í dag segir að niðurstaða í þeim viðræðum gæti legið fyrir á næstu dögum „haldi viðræðurnar áfram á uppbyggilegum nótum.“ Sömu sögu sé að segja um viðræður við flugvélaleigusala og færsluhirði.
Klárist þetta allt saman þarf að sannfæra fjárfesta um að setja tugi milljarða króna inn í Icelandair í hlutafjárútboði sem nú er áætlað að fari fram í ágúst.
Þar er helst horft til íslenskra lífeyrissjóða.