Í lok mars tóku mörg hótel á Íslandi þá ákvörðun að loka tímabundið og voru 47 hótel lokuð í maí en 75 hótel voru lokuð í apríl. Framboð gistirýmis minnkaði um 26,5 prósent frá maí 2019, mælt í fjölda hótelherbergja, sem skýrist af lokunum hótela. Herbergjanýting á hótelum í maí 2020 var 8,9 prósent og dróst saman um 46,8 prósentustig frá fyrra ári.
Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar í dag.
Þá segir að heildarfjöldi greiddra gistinátta í maí síðastliðnum hafi dregist saman um 89 prósent samanborið við maí 2019. Þar af hafi gistinóttum fækkað á hótelum um 88 prósent og um 86 prósent á gistiheimilum. Þá hafi 84 prósent fækkun verið á öðrum tegundum gististaða á borð við farfuglaheimili og orlofshús.
Ekki var hægt að áætla erlendar gistinætur á stöðum sem miðla gistingu í gegnum Airbnb og svipaðar síður, að því er fram kemur hjá Hagstofunni.
Greiddar gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum voru um 76.000 í maí en þær voru um 660.000 í sama mánuði árið áður. Um 87 prósent gistinátta voru skráðar á Íslendinga, eða um 66.000, en um 13 prósent á erlenda gesti eða um 10.000 nætur. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 51.300, þar af 37.100 á hótelum. Gistinætur á öðrum tegundum gististaða voru um 24.000.
Gistinætur á hótelum í maí síðastliðnum voru 37.100 sem er fækkun um 88 prósent frá sama mánuði árið áður, samkvæmt Hagstofunni. Um 8 prósent gistinátta á hótelum voru skráð á erlenda ferðamenn, eða 3.000, en gistinætur Íslendinga voru 34.100 eða 92 prósent.
Á 12 mánaða tímabili, frá júní 2019 til maí 2020, var heildarfjöldi gistinátta á hótelum um 3.788.000 sem er 15 prósent fækkun miðað við sama tímabil árið áður.