Sigríður Dagný Sigurbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri Birtings útgáfufélags ehf., hefur samið um kaup á öllu hlutafé í fyrirtækinu, samkvæmt frétt sem birtist á vefnum Mannlif.is í dag. Útgáfufélagið, sem gefur út tímaritin Vikuna, Gestgjafann og Hús og híbýli. Síðustu þrjú árin hefur það einnig gefið út fríblaðið Mannlíf og haldið úti vefnum mannlif.is. Kaupin hafa verið tilkynnt til fjölmiðlanefndar.
Birtingur hafði frá árinu 2017 verið í eigu Fjárfestingafélagsins Dalurinn ehf. Upphaflega var það félag í eigu Árna Harðarson, Róberts Wessman og þriggja annarra manna. Síðustu misseri hefur Halldór Kristmannsson, framkvæmdastjóra hjá Alvogen og náins samstarfsmanns Róberts Wessman og Árna Harðarsonar til margra ára, verið einn skráður eigandi félagsins.
Samhliða sölunni á öllu hlutafé í Birtingu verður gerður samstarfssamningur um rekstur vefsvæðis þar sem birtast efni um lífsstíl, tísku, heimili, hönnun og mat fyrir vörumerki Birtings. „Þar mun útgáfufélagið einnig selja áskriftir tímarita og bjóða upp á stafræna útgáfu Mannlífs. Birtingur fær sérstaklega greitt fyrir framleiðslu og notkunarrétt á umræddu efni,“ segir í frétt á vef Mannlífs.
Vefsvæðið verður í eigu og umsjón Halldórs Kristmannssonar, fyrrverandi eiganda Birtings , sem verður áfram útgefandi Mannlífs. Allur ritstjórnarkostnaður vegna vinnslu fréttaefnis fyrir Mannlíf ásamt rekstri og þróun vefsvæðisins mun falla undir umræddan samstarfssamning. Stefnt er að því að samstarfið hefjist 1. ágúst næstkomandi.