Mynd: BTB.is

Huldumaðurinn á bakvið DV reyndist vera ríkasti Íslendingurinn

Komið hefur í ljós að ríkasti Íslendingurinn, og einn ríkasti maður heims, lánaði að minnsta kosti 745 milljónir króna til að hægt væri að kaupa DV og tengda miðla og reka þá í miklu tapi í rúm tvö ár. Um er að ræða Björgólf Thor Björgólfsson, sem hefur ekki viljað að það væri opinbert að hann væri bakhjarl útgáfunnar.

Samkeppniseftirlitið opinberaði á fimmtudag að Novator, fjárfestingafélag ríkasta manns Íslands, Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefði fjármagnað kaup á DV og tengdum fjölmiðlum haustið 2017 og gríðarlegan taprekstur þeirra alla tíð síðan. 

Það gerði Novator með því að lána eigenda útgáfufélags fjölmiðlanna að minnsta kosti 745 milljónir króna vaxtalaust.

Lengi hefur verið orðrómur um að Björgólfur Thor væri sá sem stæði á bakvið DV, en skráður eigandi hefur ætið verið lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson. Sá orðrómur byggði meðal annars á því að með kaupunum á miðlunum, í september 2017, hafi hann náð að gera gömlum fjandmönnum sínum, Róberti Wessman og Árna Harðarsyni, skráveifu. 

Kjarninn hefur sent fyrirspurnir um málið á talsmann Björgólfs Thors, en ætið fengið þau svör að orðrómurinn væri ekki sannur. Heimildir Kjarnans herma að fjölmiðlanefnd hafi líka kallað eftir upplýsingum um það til að meta raunveruleg yfirráð yfir einu stærsta fjölmiðlafyrirtæki á Íslandi en því hafi einfaldlega verið neitað. 

Nefndin taldi sig ekki hafa nein lögmæt tól til að grípa til aðgerða vegna þessa og því fékk leyndin að lifa. 

Auglýsing

Niðurstaðan var sú að hér var rekið stórt fjölmiðlafyrirtæki fyrir peninga huldumanns árum saman án þess að gerð væri opinber grein fyrir aðkomu hans. Í millitíðinni var meðal annars farið í tæknilega uppstokkun á vefmiðlum fjölmiðlasamstæðunnar sem leiddi til þess að gamlar fréttir af DV, frá árunum eftir bankahrun, urðu ekki lengur aðgengilegar. 

Á endanum brast þó þolinmæðin gagnvart taprekstri útgáfunnar  og henni var rennt inn í Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins og fleiri miðla, fyrr á þessu ári. Það var við skoðun á þeim samruna sem Samkeppniseftirlitið krafðist þess að fá upplýsingar um hver hefði fjármagnað DV. 

Hér að neðan verður þessi saga öll rakin. 

Björn Ingi Hrafnsson smíðar fjölmiðlaveldi

Mikil dramatík var á fjölmiðlamarkaði á árinu 2017. Mest var hún í kringum Pressusamstæðu Björns Inga Hrafnssonar, sem hafði árin á undan farið mikinn og sankað að sér allskyns fjölmiðlum oft með skuldsettum yfirtökum. Síðasta yfirtakan var á tímaritaútgáfunni Birtingi í lok árs 2016 og eftir hana voru tæplega 30 miðlar í Pressusamstæðunni. Þeirra þekkt­astir voru DV, DV.is, Eyj­an, Pressan, sjón­varps­stöðin ÍNN og tíma­ritin Vikan, Gest­gjaf­inn, Nýtt líf og Hús og híbýli.

Í apríl 2017 var tilkynnt um að hlutafé Pressunnar yrði aukið um 300 milljónir króna og að samhliða myndi Björn Ingi stíga til hliðar. Sá aðili sem ætlaði að koma með mest fé inn í reksturinn var Fjárfestingafélagið Dalurinn, félag í eigu Róberts Wessman, Árna Harðarsonar og þriggja annarra manna, sem höfðu áður lánað Birni Inga. Með þeim var hópur annarra fjárfesta og svo virtist sem Pressusamstæðunni væri borgið.

Björn Ingi Hrafnsson var um skeið einn helsti fjölmiðlamógul þjóðarinnar. Hann nánast ryksugaði upp miðla fyrir fjármagn sem ekki var gerð sérstaklega grein fyrir hvaðan kæmi. Í dag rekur hann vefmiðilinn Viljann.
Mynd: Skjáskot

Þessi hópur hefur eldað grátt silfur saman við Björgólf Thor Björgólfsson árum saman, eða frá því að Róbert og Árni störfuðu hjá Actavis þegar Björgólfur Thor átti það félag að mestu. Birtingarmyndir þess hafa verið margskonar. 

Björgólfur Thor hefur ætið haldið því fram að hann hafi rek­ið Ró­bert fyrir að setja félagið á hlið­ina en Róbert hefur hafnað því. Björgólf­ur T­hor hefur meðal ann­ars stefnt bæði Róberti og Árna til greiðslu skaða­bóta ­fyrir mein­tan fjár­drátt og báðir aðilar hafa atyrt hinn á opin­berum vett­vang­i við hvert tæki­færi árum saman. Deil­urnar náðu síðan nýjum hæðum í haustið 2015 þegar í ljós kom að um 60 pró­sent þeirra hluta­bréfa sem var að baki hóp­mál­sókn fyrrverandi hlut­hafa Lands­bank­ans gegn Björgólfi Thor voru í eigu félags­ ­sem Árni Harð­ar­son á. Björgólfur Thor sagði á heima­síðu sinni að „fingraför þessarra kump­ána [Ró­berts og Árna] hafa verið á mál­inu frá upp­hafi“.

Þeir kumpánar, sem hafa undanfarin ár einbeitt sér að uppbyggingu samheitalyfjafyrirtækisins Alvogen, voru þarna, á árinu 2017, komnir á fullt í fjölmiðlageirann. 

DV og tengdir miðlar seldir fyrir huldufé

Þeir komust þó fljótt að því að mun meira vantaði til þess að rétta af reksturinn en þeir höfðu talið áður. Um miðjan maí voru þeir hættir við aukna fjárfestingu en áttu þó enn meirihluta hlutafjár í samstæðunni. Á sama tíma var kaupum Pressunnar á Birtingi rift og Dalurinn keypti í kjölfarið allt hlutafé þess fyrirtækis. 

Róbert Wessman og Björgólfur Thor Björgólfsson hafa átt í útistöðum í á annan áratug. Þátttaka þeirra í fjölmiðlarekstri ber keim af því að vera hluti af þeim deilum.
Mynd: Aðsend

Dramatíkinni var þó hvergi nærri lokið. Í byrjun september var tilkynnt að Sig­­urður G. Guð­jóns­­son hæsta­rétt­­ar­lög­maður hef­ði ásamt hópi fjár­­­festa keypt flesta lykilmiðla Pressusamstæðunnar með hlutafjáraukningu. Um var að ræða DV, DV.is, Pressuna, Eyjuna, Bleikt, ÍNN og tengda vefi. Eftir í gamla eignarhaldsfélaginu voru skildir héraðsfréttamiðlar. Forsvarsmenn Dalsins sögðu að þeir hefðu ekki vitað um þennan gjörning fyrr en hann var afstaðinn. Verið væri að selja undan þeim eignir sem þeir ættu með réttu.

Í tilkynningu frá Birni Inga sem send var út vegna þessa sagði að kaupverðið væri „vel á sjötta hundrað milljónir króna og er greitt með reiðufé og yfirtöku skulda.“

Ekki var gerð grein fyrir því hvernig kaupin voru fjármögnuð.

Reyndi að greiða fyrir hlutafé með steikum

Eigendur Dalsins kærðu Björn Inga í kjölfarið fyrir fjársvik og sögðu hann hafa haft í hót­unum við sig per­sónu­lega. Í yfirlýsingu sem Árni Harðarson sendi frá sér í febrúar 2018 sagði að markmið þeirra hót­ana hafi verið að kom­ast hjá „skoðun opin­berra aðila á bók­haldi og fjár­reiðum Press­unar og tengdra miðla.“ Þá sagði Árni að Björn Ingi hafi reynt að greiða fá að greiða fyrir hlutafé í Press­unni með steikum frá veit­inga­hús­inu Argent­ínu, að Björn Ingi hafi fengið per­sónu­lega greiddar 80 milj­ónir króna þegar hann seldi allar eignir DV og Pressunnar og að í smá­skila­boðum sem hann hafi sent Árna á kjör­degi í fyrra hafi Björn Ingi sagt: „Er núna að klastra saman rík­is­stjórn og langar að koma á friði okkar í mill­u­m“. 

Auglýsing

Þar sagði enn fremur að hótanir hefðu borist þegar Dalurinn „vildi ekki láta hann per­sónu­lega fá meiri pening[...]þegar hann sá að Dal­ur­inn vildi ekki setja meiri pen­ing í að bjarga illa reknum einka­banka hans í formi Pressunnar og[...]þegar Dal­ur­inn vildi ekki láta hann fá hlutafé sitt í Press­unni eftir að hann seldi allar eigur þess.“

Í febrúar 2020 gerði Héraðsdómur Vesturlands Birni Inga að greiða þrotabúi Pressunnar milljónirnar 80, sem hann fékk greiddar eftir að Frjáls fjölmiðlun keypti fjölmiðla úr veldi hans, vegna þess að ekkert hafi bent til þess að Pressan hafi í raun skuldað honum peninganna. Um „örlætisgjörning“ hafi verið að ræða. 

Það breytti því ekki að flestir miðlar fjölmiðlaveldis hans höfðu verið seldir til Frjálsrar fjölmiðlar. Eftir í eignarsafni Dalsins var einungis útgáfufélagið Birtingur, sem gaf út Mannlíf og nokkur tímarit. 

Ljóst var að nýir eigendur fjölmiðlanna sem seldir voru í september 2017 vildu núa Dalsmönnum því um nasir. Skýrasta birtingarmynd þess var að eignarhaldsfélagið utan um útgáfufélagið Frjálsa fjölmiðlum var nefnt Dalsdalur. 

Skuldir upp á 759 milljónir króna

Birtingur er enn í eigu Dalsins. Það félag er nú skráð í eigu Halldórs Kristmannssonar, framkvæmdastjóra hjá Alvogen og náins samstarfsmanns Róberts Wessman og Árna Harðarsonar til margra ára. Í mars 2020 dæmdi Landsréttur að Frjáls fjölmiðlun ætti að greiða Dalnum 15 milljónir króna auk vaxta vegna samnings sem gerður var í tengslum við kaupin á miðlunum í september 2017. 

Taprekstur DV og tengdra miðla hefur verið gríðarlegur síðustu ár.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Birtingur tapaði samtals 317 milljónum króna á árunum 2017 og 2018. Ársreikningur fyrir árið 2019 hefur ekki verið birtur. Það tap hefur að öllu leyti verið greitt af Dalnum.

Frjáls fjölmiðlun hefur gengið enn verr. Kjarninn greindi frá því í lok október í fyrra að Dalsdalur, eigandi útgáfufélagsins, hefði skuldað tæplega 759 milljónir króna í lok árs 2018. Uppistaða skuldarinnar var vaxtalaust langtímalán upp á alls 745 milljónir króna sem átti að greiðast síðar en 2022. Skuldirnar jukust um 270 milljónir króna á árinu 2018. 

Sigurður G. Guðjónsson, skráður eigandi Dalsdals, hefur aldrei viljað upplýsa um við hvern þessi vaxtalausa skuld var. 

Rennt inn í Torg

Sigurður hafði ráðið Karl Garðarsson, fyrrverandi þingmann Framsóknarflokksins sem stofnaði fríblaðið Blaðið með Sigurði árið 2005, sem framkvæmdastjóra Frjálsrar fjölmiðlunar strax eftir kaupin á DV og tengdum miðlum haustið 2017. Karl sótti um stöðu útvarpsstjóra RÚV fyrr á þessu ári en var ekki ráðinn. 

Auglýsing

Reksturinn gekk hins vegar hörmulega og tapið var mikið. Á fyrstu fjórum mán­uðum starf­­­sem­innar tap­aði félagið 43,6 millj­­­ónum króna. Á árinu 2018 jókst tapið umtals­vert og var um 240 millj­­­ónir króna. Sam­tals tap­aði fjöl­miðla­­­sam­­­stæðan því 283,6 millj­­­ónum króna á 16 mán­uð­u­m. Ekki liggur fyrir hversu mikið tapið var 2019 em ljóst að það var umtals­vert. Sig­­­urður sagði við RÚV í des­em­ber  að „rekst­­­ur­inn er mjög erfiður[...]þetta er búið að vera rekið með tapi frá árinu 2017.“

Þann 12. des­em­ber 2019 greindi Kjarn­inn frá því að Torg, útgáfu­­­fé­lag Frétta­­­blaðs­ins, væri að kaupa DV og tengda miðla af Frjálsri fjöl­mið­l­un. Útgáfu­­­fé­lögin stað­­­festu svo kaupin dag­inn eft­­­ir. Ástæðan fyrir kaup­unum var sögð vera erfitt rekstr­­ar­um­hverfi.

Helgi Magnússon er aðaleigandi Torgs.
Mynd: Torg.is

Með kaup­unum á DV og tengdum miðlum var Torg, sem hafði nokkrum mánuðum áður tekið yfir sjónvarpsstöðina Hringbraut, orðið að einu stærsta einka­rekna fjöl­miðla­­fyr­ir­tæki lands­ins. Stærsti eigandi Torgs er Helgi Magnússon fjárfestir, sem á 82 prósent í samstæðunni.  

Samkeppniseftirlitið blessaði kaupin í mars síðastliðnum án þess að það teldi ástæðu til að aðhafast. 

Samkeppniseftirlitið stígur inn

Á fimmtudag birtist ákvörðun Samkeppniseftirlitsins vegna samrunans á vef þess. Þar kom meðal annars fram að DV og tengdir miðlar hefðu átt í rekstrarerfiðleikum sem m.a. birtist í fækkun útgáfudaga og gríðarlegum taprekstri, sem væri aflvaki samrunans. Í samrunaskránni rökstuddu aðilar málsins hann með því að benda á að „Morgunblaðið sé rekið ár eftir ár með mörg hundruð milljóna tapi á ári og tap Birtíngs sem gefi út Mannlíf og tímarit sé rekið með tapi upp á annað hundrað milljónir á liðnu ári. Fljótt á litið virðist sem innlendir einkareknir fjölmiðlar hafi á árinu 2018 tapað í kringum eitt þúsund milljónum og uppsafnað tap innlendra miðla á liðnum árum sé nokkur þúsund milljónir[...]Yfirvöld í landinu verði að fara að gera sér grein fyrir því að það sé engan veginn sjálfgefið í þessum veruleika að innlendir fjölmiðlar muni starfa áfram. Einn daginn gæti staðan verið sú, ef fram fer sem horfir að í landinu verði ein ríkisrekin fréttastofa.“

Samkeppniseftirlitið óskaði eftir umsögnum frá samkeppnisaðilum fjölmiðlafyrirtækjanna tveggja. Í álitinu segir að þrír umsagnaraðilar hafi tjáð sig um samrunann og töldu fyrirhugaðan samruna ekki koma til með að hafa teljandi áhrif á samkeppni á þeim mörkuðum sem um væri að ræða. „Einn af þeim óskaði þó eftir því að Samkeppniseftirlitið setti það sem skilyrði fyrir samrunanum að upplýst yrði um raunverulega eigendur Frjálsrar fjölmiðlunar. Leyndin yfir því hver raunverulegur eigandi þess sé valdi öðrum fjölmiðlafyrirtækjum miklum skaða og bjagi markaðsstöðu óhjákvæmilega.“

Samkeppniseftirlitið ákvað að taka tillit til þessa og krafðist þess að upplýst yrði hver það væri sem fjármagnaði rekstur Frjálsrar fjölmiðlunar. Þann 14. janúar 2020 barst svar. í því kom „fram að félagið Novator ehf. hefur verið eini lán­veit­andi Dals­dals og Frjálsrar fjöl­miðl­unar og helsti bak­hjarl fjöl­mið­ils­ins frá eig­enda­skiptum árið 2017.“

Einn ríkasti maður heims

Novator er aðallega í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, sem hefur lengi verið einn ríkasti Íslendingurinn. Hann efnaðist á því að selja bjór­verk­smiðju í Rúss­landi, fjár­festi svo mikið í lyfja- og fjar­skipta­iðn­að­inum auk þess að kaupa ráð­andi hlut í Lands­banka Íslands ásamt föður sínum og við­skipta­fé­laga þeirra. Fjármálahrunið 2008 setti veldi hans í hættu. 

Auglýsing

Í ágúst 2014 var til­­­­kynnt að skulda­­­­upp­­­­­­­gjöri Björg­­­­ólfs Thors væri lokið og að hann hefði greitt kröf­u­höfum sín­um, að mestu stórum alþjóð­­­­legum bönk­­­­um, sam­tals um 1.200 millj­­­­arða króna. Það upp­­­­­­­gjör tryggði honum mik­inn auð þar sem hann, og Novator, fengu að halda góðum eign­­­­ar­hluta í Actavis að því loknu, sem hefur síðan verið seld­ur. Sá eign­­­­ar­hluti hefur gert Björgólf Thor og aðra eig­endur Nota­vor mjög efn­aða á ný. ­Björgólfur Thor gaf árið 2015  út bók um fall sitt og end­­­­ur­komu. Kjarn­inn birti umfjöllun um bók­ina skömmu eftir að hún kom út.

Björgólfur Thor, og sam­starfs­menn hans í Novator, þeir Birgir Már Ragn­ars­son og Andri Sveins­son, hafa farið mik­inn í fjár­fest­ingum síð­ast­lið­inn rúman ára­tug, að mestu ann­ars staðar en á Íslandi. Novator er þó enn með umsvif hér­lend­is, og er meðal ann­ars stór hlut­hafi í fjar­skipta­fyr­ir­tæk­inu Nova. Þá tók Björgólfur Thor þátt í skulda­bréfa­út­boði WOW air í sept­em­ber 2018, nokkrum mán­uðum áður en að flug­fé­lagið fór í þrot, en í gegnum eigin félag. Og nú liggur fyrir að Novator fjármagnaði líka mikinn taprekstur DV og tengdra miðla árum saman.

Í mars í fyrra var sagt frá því að Björgólfur Thor sæti í 1.116 sæti á lista Forbes yfir millj­arða­mær­inga heims­ins og að auður hans væri met­inn á 2,1 millj­arð Banda­ríkja­dali. 

Tveimur mán­uðum síð­ar, í maí 2019, var Björgólfur Thor í 91. sæti yfir rík­­­ustu menn Bret­lands sam­­kvæmt lista The Sunday Times.

Sterkur orðrómur hafði verið um það frá upphafi að Novator eða Björgólfur Thor persónulega væru að fjármagna rekstur Frjálsrar fjölmiðlunar. Þegar Kjarninn hefur leitað eftir svörum hjá félaginu um hvort það væri sagt var því ætið neitað. 

Áhyggjur af fjársterkum aðilum og markmiðum þeirra

Samkeppniseftirlitið hefur látið sig fjölmiðlamarkaðinn varða á fleiri vegu undanfarnar vikur. Í janúar skilaði það inn umsögn um fjölmiðlafrumvarp Lilju D. Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem átti að koma upp styrkjakerfi fyrir einkarekna fjölmiðla á Íslandi, að sambærilegu meiði og er til staðar á öðrum Norðurlöndum. Þar sagði eftirlitið að það teldi brýnt að stuðn­ingur við fjöl­miðla af almannafé hafi það að meg­in­mark­miði að styðja við fjöl­ræði og fjöl­breytni. „Í þessu sam­bandi hefur Sam­keppn­is­eft­ir­litið í huga að eign­ar­hald stærri einka­rek­inna fjöl­miðla hefur í vax­andi mæli þró­ast á þann veg að eign­ar­haldið hefur færst á hendur fjár­sterkra aðila sem standa fyrir til­tekna skil­greinda hags­muni í íslensku atvinnu­lífi. Í sumum til­vikum blasir við að ráð­stöfun þess­ara aðila á fjár­munum í fjöl­miðla­rekstur hefur það meg­in­mark­mið að Ijá hags­munum við­kom­andi aðila enn sterk­ari rödd og vinna þeim þannig frek­ari fram­gang.“

Umsögn Samkeppniseftirlitsins er dagsett 13. janúar. Daginn eftir fékk það upplýsingar um að ríkasti maður Íslandi hefði fjármagnað umtalsverðan taprekstur fjölmiðlafyrirtækis í lengri tíma án þess að gert væri nokkur opinber grein fyrir aðkomu hans. 

Í áliti eftirlitsins vegna kaupa Torgs á Frjálsri fjölmiðlun segir að þau „muni hafa í för með sér að fjölmiðlar Torgs verði í meirihlutaeigu eins manns, auk þriggja annarra sem fari með smærri hlut. Að því leytinu til feli fyrirhugaðar breytingar í sér samþjöppun á fjölmiðlamarkaði sem áhrif hafi á fjölræði á markaði.“ 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar