Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segist vera mjög bjartsýnn á framtíð íslensks samfélags og miklu bjartsýnni en hann var fyrir ekki svo löngu. „Ég hafði verulegar áhyggjur af því hvert stefndi fyrir nokkrum vikum síðan. Nú er ég miklu bjartsýnni en allt veltur á því að ákvarðanatakan verði í lagi því að ég hef tekið eftir því, þrátt fyrir allt þetta í sambandi við kerfið og að aðrir stjórni en stjórnmálamenn, að þegar stjórnmálamenn koma með stefnu og fylgja henni eftir þá er hægt að gera mjög stórar breytingar sem skipta máli. Þess vegna er niðurstaðan hjá mér í bili að ef við fylgjum skynsamlegri stefnu hér sé framtíðin mjög björt á Íslandi.“
Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali Kjarnans við Sigmund Davíð sem birtist um helgina en rætt var við alla formenn stjórnarandstöðuflokkanna um hvernig þeir sæju fyrir sér framtíð íslensks samfélags og efnahagslífs.
Hann segir jafnframt að auðvitað verði alltaf gerð einhver mistök en ef menn gera of mörg mistök við stjórn landsins eða eftirláta einhverjum öðrum en almenningi að stjórna þá geti hlutirnir farið mjög illa og góð staða hratt breyst til hins verra.
Þannig séu Íslendingar á mjög krítískum tíma. „Ákvarðanir skipta alltaf máli en þær skipta óvenjulega miklu máli núna.“
Kjósandi þarf að geta valið milli ólíkra stefna
Sigmundur Davíð endar á því að segja að hann sé mikill lýðræðissinni. „Ef maður trúir því raunverulega að almenningur sé best til þess fallinn að taka ákvarðanir um eigin framtíð og hvernig landinu sé stjórnað þá þarf að vera beint samband þarna á milli. Þú þarft, í kosningum, að finna að það skipti einhverju máli hvernig atkvæði þínu er varið og þú þarft að hafa val um ólíka stefnu en ekki einhverja ólíka karaktera sem komast í gegnum kjörtímabilið án þess að verða of umdeildir,“ segir hann.
„Þá lendir þú í því að við þarna hinum megin,“ segir hann og bendir á Alþingishúsið, „séum stöðugt með skítkast út í hvort annað í staðinn fyrir að deila um grundvallaratriði og kjósendur geti síðan valið á milli.“
Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni hér.