Greina má ómeðvitaða vörumörkun í utanríkisþjónustu Íslands í gegnum jafnréttismál sem birtist einna helst sem rík áhersla á málaflokkinn í allri vinnu utanríkisþjónustunnar, innanlands sem erlendis. Sértækari vörumörkun á sér einnig stað í formi þess að færa jafnréttisumræðuna til karla.
Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem sagt er frá í greininni „Vörumerkið jafnrétti í utanríkisstefnu Íslands“ og birtist í tímaritinu Stjórnmál & stjórnsýsla í vikunni. Höfundar greinarinnar eru Kristín Sandra Karlsdóttir, MPA frá stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, og Silja Bára Ómarsdóttir, dósent við sömu deild.
Tekin voru viðtöl við fimm fyrrverandi og núverandi starfsmenn utanríkisþjónustu Íslands og orðræðugreiningu beitt á þau. Samkvæmt höfundum er vörumörkun hugtak sem hefur yfirleitt verið tengt við markaðsfræði. Í greininni segir að á síðustu áratugum hafi hugmyndir um vörumörkun ríkja rutt sér til rúms en í hugtakinu felist meðal annars sú hugsun að ríki skapi sér sérstöðu til að koma sér á framfæri í alþjóðasamfélaginu.
„Segja má að vörumörkun geti einkum nýst smáríkjum vel til að láta rödd sína heyrast hærra á meðal annarra stærri og valdameiri ríkja, en smáríkjafræðin halda því fram að sú ímynd sem alþjóðasamfélagið hefur af tilteknu ríki hafi áhrif á möguleika þess til að koma skoðun sinni á framfæri. Eitt af því sem skapar Íslandi sérstöðu í alþjóðasamfélaginu er góð staða jafnréttismála innan ríkisins en góður árangur innanlands hefur haft áhrif á ímynd ríkisins erlendis,“ segir í greininni.
Ísland beitir þremur meginaðferðum við vörumörkun, en þær eru: kynjasamþætting, að taka sér dagskrárvald í málaflokknum og alþjóðleg samvinna. Framboð og eftirspurn virðast helsti áhrifavaldurinn fyrir því að jafnréttismál urðu fyrir valinu sem vörumerki Íslands, að því er fram kemur í greininni.
Þá segir að Ísland hafi mikið fram að færa í málaflokknum, hafi skipað sér í framvarðarsveit í jafnréttismálum og vakið athygli alþjóðasamfélagsins fyrir vinnu sína. Sú athygli hafi hvetjandi áhrif á áframhaldandi vinnu ríkisins innan málaflokksins. Engu að síður sé nauðsynlegt að vera meðvituð um það hvers vegna íslenska ríkið telur þessa stöðu eftirsóknaverða og í hvaða tilgangi hennar er leitað.
Ekki meðvituð skýr stefna
Höfundar draga þá ályktun að vörumörkun eigi sér stað af hálfu Íslands á sviði jafnréttismála. Fyrsta rannsóknarspurningin sem lagt var upp með var hvernig hún birtist í utanríkisþjónustu Íslands. Svarið er samkvæmt Kristínu Söndru og Silju Báru að hún virðist vera ómeðvituð afleiðing þess að Ísland einbeitir sér að málaflokknum með því að taka sér dagskrárvald, beita kynjasamþættingu og alþjóðlegri samvinnu. Ísland hafi þannig ekki meðvitað sett fram skýra stefnu um að jafnrétti skuli vera sérhæfing eða vörumerki landsins.
„Með beitingu kenningaramma rannsóknarinnar má hins vegar lesa það út úr aðgerðum og áherslum innan utanríkisþjónustunnar og út á við að vörumörkun á sér stað. Upphaf þessa vörumörkunarferlis er innan íslenskrar stjórnsýslu þar sem áhersla er lögð á að jafnréttismál séu höfð að leiðarljósi á sérhverjum vettvangi innan utanríkisþjónustunnar. Þessi áhersla hefur ekki aðeins áhrif á stefnumótun innan ráðuneytisins heldur einnig á það hvernig starfsfólk utanríkisþjónustunnar vinnur sína vinnu og hvernig það kemur fyrir sem fulltrúar Íslands á alþjóðavettvangi,“ segir í greininni.
Þá telja höfundar að sértækari vörumörkun eigi sér einnig stað af hálfu Íslands í formi þess að færa jafnréttisumræðuna inn á karllæga vettvanga eða jafnvel með því að skipa karlmenn sem fulltrúa Íslands í nefndum þar sem konur eru yfirleitt í miklum meirihluta. „Greina mætti þetta sem sérstakt einkenni á vinnu Íslands þegar kemur að jafnréttismálum, sem tekur þá til stöðu Íslands innan málaflokksins og aðgreinir ríkið frá öðrum sem leggja einnig áherslu á jafnréttismál, líkt og hin Norðurlöndin. Alþjóðleg viðurkenning á brautryðjendastarfi Íslands í þágu jafnréttis kynjanna rennir stoðum undir þessa greiningu.“
Vörumerkið lýsir „sál“ ríkisins
Í greininni kemur enn fremur fram að orðstír hafi mikil áhrif á hvers kyns vörumerki ríki hafi tök á að móta en þar skipti máli að vörumerkið lýsi „sál“ ríkisins. Færa megi rök fyrir því að jafnréttismál séu hluti af sjálfsmynd Íslands þar sem málaflokkurinn virðist skipta máli innan íslensks samfélags. Það lýsi sér einna helst í tilkomu Kvennalistans, kjöri Vigdísar Finnbogadóttur, valdatíð Jóhönnu Sigurðardóttur og Katrínar Jakobsdóttur, og stefnum á borð við feðraorlof og jafnlaunavottun. „Þá virðist almennt ríkja þverpólitísk samstaða um mikilvægi jafnréttismála, þótt nýlegir atburðir á borð við Klaustursmálið skyggi á það innanlands. Saman mynda þessir hlutir heildarímynd Íslands á alþjóðavettvangi en samkvæmt kenningum um vörumörkun ríkja tekur sú ímynd til pólitíska, efnahagslega og menningarlega sviðsins.
Að endingu segja höfundar að femínískt ákall virðist eiga sér stað frá alþjóðasamfélaginu um breytingar á hina karllæga umhverfi utanríkismála, þar á meðal í formi ýmissa vitundarvakninga og samfélagsbyltinga. Framboð og eftirspurn spili stórt hlutverk í vörumörkun jafnréttismála en leitað sé til Íslands sem ákveðins frumkvöðulsviðmiðs í málaflokknum. Viðbrögð alþjóðasamfélagsins virðist hafa mótandi áhrif á stefnu Íslands í jafnréttismálum. Þegar ríkið fái aukin jákvæð viðbrögð frá alþjóðasamfélaginu fyrir áherslu sína á jafnréttismál virðist það hafa hvetjandi áhrif á áframhaldandi vinnu Íslands í málaflokknum.
„Ísland er ekki eitt um að hafa jákvæða ímynd á sviði jafnréttismála og því væri fróðlegt að vinna frekari rannsóknir á þessu sviði, t.d. með því að bera Ísland saman við hin Norðurlöndin sem hafa svipaða ásýnd í alþjóðakerfinu,“ segir að lokum í greininni.
Hægt er að lesa greinina í heild sinni hér.