Auglýsing um reglugerðarbreytinguna var birt í Stjórnartíðindum 1. júlí.
Þar segir einnig að þrátt fyrir ofangreint ákvæði þá komi það „ekki í veg fyrir frávísun eða brottvísun þeirra sem voru í ólögmætri dvöl fyrir 20. mars 2020 eða frávísun eða brottvísun á öðrum grundvelli samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga.“
Útlendingastofnun bárust alls 243 umsóknir um vernd hérlendis á fyrstu fimm mánuðum ársins 2020. Þær hafa verið afar fáar frá því að COVID-19 faraldurinn skall á, alls fimm í apríl og fjórar í maí.
Alls hefur ákvörðun verið tekin um 388 mál þar sem óskað var eftir vernd á árinu 2020. Af þeim hafa 222 fengið veitta vernd, 67 hefur verið synjað, 31 hafa verið endursend til annars Evrópulands á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar, 35 hafa þegar verið með vernd í öðru ríki og 33 mál hafa hlotið „önnur lok“.
Í apríl og maí, á meðal að landamæri flestra ríkja Evrópu og Bandaríkjanna voru lokuð, áttu sér stað sex ákvarðanir um endursendingar á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar, en samkvæmt henni er hælisleitendum gert að sækja um vernd í því Evrópulandi sem þeir lenda fyrst í. Í maímánuði voru teknar tvær ákvarðanir um endursendingar á hælisleitendum á grundvelli reglugerðarinnar.