Stuðningur við ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur lækkar um þrjú prósentustig milli kannanna Gallup og mælist nú 56,8 prósent. Hann mældist 61,3 prósent í könnun fyrirtækisins sem gerð var í apríl, þegar aðgerðir vegna COVID-19 faraldursins stóðu sem hæst, og hafði þá ekki mælst svo hár frá því að hveitibrauðsdögum ríkisstjórnarinnar lauk, eða í febrúar 2018.
Litlar breytingar eru á fylgi einstakra flokka milli kannana Gallup. Sjálfstæðisflokkurinn er sem fyrr stærsti flokkur landsins með 24 prósent fylgi. Hann mælist því enn undir kjörfylgi, en Sjálfstæðisflokkurinn fékk 25,3 prósent þegar talið var upp úr kjörkössunum haustið 2017.
Hinir ríkisstjórnarflokkarnir, Vinstri græn og Framsóknarflokkur, eru líka töluvert undir kjörfylgi. Vinstri græn myndu fá 13,6 prósent ef kosið yrði í dag, um fimmtungi minna fylgi en í síðustu kosningum, og Framsóknarflokkurinn mælist með stuðning 8,6 prósent landsmanna, sem yrði það lægsta sem flokkurinn hefur nokkru sinni fengið ef um væri að ræða niðurstöðu kosninga.
Þrír andstöðuflokkar yfir kjörfylgi
Samfylkingin yrði næst stærsti flokkur landsins ef kosið yrði í dag með 14,9 prósent fylgi, sem er mjög sambærilegt og flokkurinn hefur verið að mælast með í undanförnum könnunum Gallup.
Píratar mælast með 10,7 prósent fylgi og Viðreisn með 10,5 prósent. Allir þessir þrír flokkar myndu fá meira upp úr kjörkössunum ef kosið yrði nú en í októberlok 2017. Þá fengu þeir 28 prósent atkvæða samanlagt en nú mælast þeir með 36,1 prósent stuðning og hafa bætt við sig 8,1 prósentustigi.
Miðflokkurinn er ekki langt frá kjörfylgi sínu – hann fékk 10,9 prósent atkvæða 2017 – um þessar mundir en 10,2 prósent landsmanna segjast styðja flokkinn.
Flokkur fólksins virðist þó ólíklegur til að ná inn á þing eins og sakir standa því að hann mælist með einungis 3,6 prósent fylgi. Það er minna en Sósíalistaflokkur Íslands, sem nýtur stuðnings 3,8 prósent landsmanna.
Alls nefndu tæp 80 prósent aðspurðra í könnuninni flokk sem þeir myndu kjósa. Um tíu prósent sögðust ætla að skila auða eða ekki kjósa og önnur tíu prósent tóku ekki afstöðu eða neituðu að svara.
Könnunin var netkönnun sem Gallup gerði dagana 2. til 30. júní 2020. Heildarúrtaksstærð var 10.274 og þátttökuhlutfall var 51,7 prósent. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.