Algengustu brot í ferðaþjónustu eru að fólk sé að fá vangreidd laun miðað við ákvæði kjarasamninga um skipulag vakta og álagsgreiðslna í vaktavinnu eða skiptingu launa í dagvinnu og eftirvinnu. Þetta kemur fram í skýrslu Rannsóknamiðstöðvar ferðamála.
Höfundar skýrslunnar tóku viðtöl við starfsfólk stéttarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins og einnig við erlent starfsfólk í ferðaþjónustu víða um landið.
Talað var um jafnaðarlaun og tvískiptar vaktir sem sérstakt vandamál í ferðaþjónustu, sem fæli í sér brot á kjarasamningum.
Þá segir í skýrslunni að starfsfólk sé látið vinna á tvískiptum vöktum á álagstímum að morgni eða í hádegi, fara síðan í nokkra tíma pásu án launa og mæta aftur til vinnu í kringum kvöldmat, þar sem það henti starfseminni. Í einu viðtali var sagt að sumir atvinnurekendur segðu að erlent starfsfólk vildi nýta þennan tíma um miðjan dag í að skoða landið:
„Helstu mál snúa oft að vaktavinnu, þessar tvískiptu vaktir sem að við samþykkjum ekki. Þá er kannski verið að setja fólk á vakt tíu til tvö og aftur frá sex til tíu. Eru að skipuleggja þetta svona og láta fólkið stimpla sig út. Borga ekki á milli. Skýringar atvinnurekenda eru oft: „Fólkið vill þetta. Langar svo mikið að skoða sig um.“ Er bara svo kjánalegt. Svo er fólk ekki einu sinni með bíl.“
„Sulla saman dagvinnu og vaktavinnu“
Fyrir utan tvískiptar vaktir voru tiltekin önnur dæmi í skýrslunni um annmarka á skipulagi vakta, auk þess sem að útreikningur á vaktaálagi virtist vefjast fyrir mörgum, þ.e. 33 prósent álag á kvöldin, 45 prósent álag um nætur og helgar og 90 prósent stórhátíðaálag. Einnig væru sumir atvinnurekendur að „sulla saman dagvinnu og vaktavinnu“, til dæmis með því að greiða dagvinnu á milli klukkan sjö og átta á morgnana hjá vaktavinnufólki sem ætti að vera með 45 prósent álag á þeim tíma.
Starfsfólk ætti einnig rétt á að fá vaktaplan með ákveðnum fyrirvara þar sem fram kæmi bæði upphaf og endir vakta, sem greitt væri fyrir. Það skipulag þyrfti líka að virða reglur um hvíldartíma og yfirvinnugreiðslur.
Greiðsla jafnaðarlauna, í stað þess að skilja á milli launa fyrir dagvinnu og yfirvinnu eins og kjarasamningar kveða á um, kom oft upp sem vandamál í viðtölunum, að því er fram kemur í skýrslunni. Var það bæði tengt við tilraunir atvinnurekenda til að einfalda launaútreikninga og sem leið til að halda niðri launakostnaði:
„Þumalputtareglan er sú að ef að fyrirtækið býður upp á jafnaðarlaun þá er það vegna þess að þeir eru að halda niðri launakostnaði […].Það er þægilegra að reikna það út.“
Þegar greitt sé jafnaðarkaup búi atvinnurekandinn til sinn eigin taxta sem sé hærri en dagvinnulaun, en langt undir yfirvinnutaxta. Greitt sé eftir þessum heimatilbúna taxta, óháð heildarvinnutíma yfir mánuðinn og hvenær sólarhringsins vinnan er unnin. Þegar starfsfólk er farið að vinna eitthvað að ráði yfir 173 tíma á mánuði sé það yfirleitt að fá undirborgað „svo vinna menn ekki undir 173 tíma heldur 250-60 tíma á mánuði alltaf á sama kaupinu þá eru þeir komnir í mínus“.
Sami viðmælandi taldi meiri tilhneigingu til að ráða erlent starfsfólk sem stoppaði stutt við á háannatíma í ferðaþjónustu á jafnaðarkaup, á meðan aðrir nefndu að íslensk ungmenni væru oft fljót að samþykkja jafnaðarkaup. Í báðum tilvikum væri starfsfólkið ekki að kynna sér kjarasamninga vel áður en tekið væri tilboði um jafnaðarkaup.
Lenska að vera alltaf undirmönnuð
Í skýrslunni kemur enn fremur fram að í ofangreindum dæmum sé vísað til óhóflegs vinnutíma og séu brot á reglum um 11 tíma hvíldartíma og frídaga meðal mála sem oft tengist ferðaþjónustunni í frásögnum viðmælendunum. Brot á rétti fólks til að fá styttri eða lengri frí hafi meðal annars verið rakið til undirmönnunar:
„Ég held að það sé ein lenska og ekki síst í ferðaþjónustunni og það er að vera alltaf undirmönnuð. Að spara þar. En það segir bara að þeir sem eftir eru að þeir þurfi að hlaupa hraðar og vinna lengur.“
Það væri keyrt á sama fólkinu sem aldrei fengi frídag:
„Við erum búin að fá mörg dæmi um að fólk þurfi að vinna margar vikur í röð og það er ekki verið að virða þennan vikulega frídag eða sameina tvo hálfsmánaðarlega, sem er í kjarasamningi.“
Neitað um sumarfrí
Eitt dæmið var um par sem bjó á gistiheimili og þurfti að vera til taks allan sólarhringinn að þjónusta gesti. Þau fengu aldrei frídag, en skruppu frá í nokkra daga eftir fjóra mánuði og þá var það dregið af kaupinu þeirra. Í viðtali við eftirlitsfulltrúa sem fór um víðfeðmt svæði, Vestfirðina og suður í Hvalfjörð, var talað um að algengt væri að staðan væri þannig í smærri og afskekktari gistihúsum að fólk væri á föstum mánaðarlaunum með óskilgreindan vinnutíma og kæmist aldrei í frí „og sumir segja bara að þeir séu að vinna einhverja 16, 17 tíma á sólarhring og fá aldrei frí. Komast ekki burt af því þeir eru út í rassgati og hafa ekki aðgang að bíl og svo fá þeir bara einhver föst mánaðarlaun.“
Annað dæmi var nefnt um undirmannaða bílaleigu þar sem eiginmaður konu af erlendum uppruna bað um aðstoð verkalýðsfélagsins þegar að henni var neitað um sumarfrí:
„Hún er ekki að fá vikulegan frídag. Hún er bara látin vinna sjö daga vikunnar, alltaf. Hún var að biðja um sumarfrí, þá fékk hún það ekki.“
Vandamál tengd fríum
Yfir lágannatíma í ferðaþjónustu á sumum svæðum var talað um annars konar vandamál tengt fríum heilsársstarfsfólks. Þá væri starfsfólki sagt að það ætti að taka launalaust leyfi í desember og fram í janúar á meðan staðurinn er lokaður. Þar sem þeim er ekki sagt upp ættu þau ekki rétt á atvinnuleysisbótum í gegnum Vinnumálastofnun. Þau misstu einnig áunnin réttindi um greiðslu fyrir marga rauða daga á þessum tíma:
„Þetta er mjög algengt, bara sagt við erlenda starfsmenn „Nú verðið þið að taka ykkur frí, það er ekkert að gera í desember fram að 20. janúar … Þá tekur fyrirtækið af þeim rauðu dagana í leiðinni, sem eru náttúrlega áunnin réttindi eftir mánaðarstarf. Þá er verið að hlunnfara fólkið um þessa rauðu daga. Oft eru jólin þannig að það eru frídagar í einhverja 5-6 daga.“
Í skýrslunni segir að í núgildandi ferðaþjónustusamning hafi komið bókun sem leiðrétti þetta. Þar sé kveðið á um að starfsfólk sem hefur áunnið sér þau réttindi eigi að fá greitt dagvinnukaup fyrir rauða daga um jól og áramót, þó að það sé ekki í vinnu á þessum tíma.