Róbert Marshall hefur verið ráðinn ótímabundið í stöðu upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar, en þetta segir Róbert sjálfur í svari við fyrirspurn Kjarnans. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi um áframhaldandi ráðningu hans á ríkisstjórnarfundi í morgun.
Í þessa stöðu er skipað pólitískt og því þarf ekki að auglýsa hana, frekar en þegar ráðherrar velja sér aðstoðarmenn. Ríkisstjórnin tilkynnti um tímabundna ráðningu Róberts í mars síðastliðnum, en hún tók gildi 1. apríl.
Róbert á sjálfur nokkurn feril í pólitík, þó fyrir aðra flokka en þá sem nú sitja í ríkisstjórn. Hann er fyrrverandi alþingismaður fyrir bæði Bjarta Framtíð og Samfylkinguna og sat sömuleiðis utan flokka um skamma hríð eftir að hafa sagt sig úr þingflokki Samfylkingarinnar árið 2012, þegar hann var búinn að ákveða að bjóða fram undir merkjum Bjartrar Framtíðar í kosningunum 2013.
Hann var þingflokksformaður þess flokks frá 2013-2015 og sat óslitið á þingi frá 2009 til 2016. Hann sagði sig formlega úr Bjartri Framtíð í upphafi árs 2017.
Undanfarin ár hefur hann starfað við fjallaleiðsögn, þjálfun og útivist, en áður starfaði hann við fjölmiðla og var einnig aðstoðarmaður samgönguráðherra áður en hann settist fyrst á þing árið 2009.
Róbert er fyrrverandi formaður Blaðamannafélags Íslands og var um tíma forstöðumaður fréttasviðs 365. Hann stundaði fiskvinnslu, netagerð og sjómennsku í Vestmannaeyjum og er stúdent frá framhaldsskólanum þar.