Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur synjað Kjarnanum um aðgang að þeim lögfræðiálitum sem Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmála, aflaði í aðdraganda þess að hún ákvað að höfða mál á hendur Hafdísi Helgu Ólafsdóttur, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu, sem kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði nýverið að Lilja hefði brotið jafnréttislög með því að sniðganga í embætti ráðuneytisstjóra í ráðuneytinu.
Þegar greint var frá á RÚV þann 24. júní síðastliðinn að Lilja ætlaði að stefna Hafdísi Helgu, með það fyrir augum að fá úrskurð kærunefndarinnar ógildan, kom fram að sú ákvörðun hefði verið tekin eftir að ráðherrann hefði aflað sér lögfræðiálita sem bent hefðu á lagalega annmarka í úrskurði kærunefndarinnar. Úrskurðurinn byði upp á lagalega óvissu í tengslum við það ferli sem unnið sé eftir við skipan embættismanna. Þeirri lagaóvissu vilji Lilja eyða.
Kjarninn óskaði strax sama kvöld eftir því að fá umrædd lögfræðiálit afhent.
Svar við gagnabeiðninni barst í dag, 3. júlí, eða níu dögum eftir að gagnabeiðnin var send. Þar segir að Lilja hafi aflað lögfræðiálitanna vegna athugunar á því hvort að dómsmál skyldi höfðað. Í ljós þess vísaði ráðuneytið í þriðja tölulið sjöttu greinar upplýsingalaga þar sem segir að bréfaskipti við sérfróða aðila í tengslum við réttarágreining eða til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað séu undanþegin upplýsingalögum og synjaði á þeim grundvelli beiðni Kjarnans um aðgengi að gögnunum.
Kjarninn mun kæra þá niðurstöðu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál á næstu dögum.
Braut jafnréttislög
Greint var frá því í byrjun mánaðar að Lilja hefði brotið jafnréttislög við skipun Páls Magnússonar í embætti ráðuneytisstjóra í fyrra, samkvæmt úrskurði kærunefndar jafnréttismála. Hún hafi vanmetið Hafdísi Helgu í samanburði við Pál. Hæfisnefnd hafði ekki talið Hafdísi Helgu í hópi þeirra fjögurra sem hæfastir voru taldir í starfið.
Í kjölfar frétta um niðurstöðu kærunefndarinnar fjölluðu fjölmiðlar um formann hæfisnefndarinnar sem tók um ráðningu ráðuneytisstjórans. Formaður hennar er lögfræðingurinn Einar Hugi Bjarnason, sem Lilja hefur á tveggja og hálfs starfstíma sínum í ráðuneytinu, valið til margra trúnaðarstarfa. Ráðuneytið hefur á þeim tíma greitt Einari Huga alls 15,5 milljónir króna fyrir lögfræðiráðgjöf og nefndarsetu á vegum ráðuneytisins.
Í áðurnefndri frétt RÚV, frá 24. júní, var rakið að í lögum um kærunefnd jafnréttismála segi að úrskurðir hennar séu bindandi gagnvart málsaðilum, en þeim sé heimilt að bera úrskurði hennar undir dómstóla. Til þess þurfi ráðherrann, Lilja, að höfða mál á hendur kærandanum, Hafdísi Helgu.
Lögmaður Hafdísar Helgu, Áslaug Árnadóttir, sagði við RÚV að þessi ákvörðun ráðherrans hefði komið á óvart. „ Ég veit ekki til þess að þetta hafi verið gert áður, að ráðherra hafi höfðað mál persónulega gegn aðila sem kærir ákvörðun ráðherra til kærunefndarinnar.“
Vill ekki „kælingaráhrif“
Kjarninn beindi fyrirspurn um málið til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í vikunni og óskaði eftir afstöðu hennar til ákvörðunar Lilju um að stefna Hafdísi Helgu persónulega. „Það er auðvitað sérstakt að lögin geri ráð fyrir því að eina leiðin til að fá úrskurði hnekkt sé að fara í mál við einstaklinginn sem kærir,“ sagði í skriflegu svari forsætisráðherra.
Hún benti á að lögin geri ráð fyrir þessari heimild ráðherra og að kærandi hafi sama úrræði ef málið fer ekki á hans veg. Katrín taldi að full ástæða væri til að skoða þetta „því ekki viljum við að framkvæmd laganna með þessum hætti hafi kælingaráhrif, ef svo mætti segja, á vilja fólks til að leita réttar síns. Ferlið er einmitt hugsað til að tryggja rétt fólks sem telur á sér brotið.“
Forsætisráðherrann tók enn fremur undir það með Jafnréttisstofu að til framtíðar litið þurfi að skoða hvort ekki mætti útfæra þetta betur þannig að fólki yrði ekki stefnt fyrir að nýta rétt sinn en báðir aðilar geti áfram látið reyna á úrskurð kærunefndar fyrir dómstólum. „Það tel ég um að gera nú þegar endurskoðun á jafnréttislögum fer fram og ég er fullviss um að hægt er að breyta þessu fyrirkomulagi til betri vegar.“