Þrjár tilkynningar um hópuppsagnir bárust Vinnumálastofnun í júní þar sem sagt var upp 147 manns. Sú hrina hópuppsagna sem hófst í mars tengt COVID-19 faraldrinum virðist þar með hafa gengið niður, en alls hefur um 7.400 manns verið sagt upp í hópuppsögnum síðustu mánuði hjá um 110 fyrirtækjum.
Þetta kemur fram í skýrslu Vinnumálastofnunar um hópuppsagnir í júní.
Stærst þessara þriggja hópuppsagna nú í júní er uppsögn PCC á Bakka sem sagði upp nálægt 85 manns af þeim tæplega 150 manns sem starfa hjá fyrirtækinu. Þá sögðu tvö fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu tengd listum og ferðaþjónustu upp 31 starfsmanni hvort, að því er fram kemur hjá stofnuninni.
Stærstur hluti þeirra sem misst hafa vinnuna í hópuppsögnum á árinu 2020 kemur úr ferðaþjónustutengdum greinum; 29 prósent úr flugrekstri, 27 prósent úr gistiþjónustu, 5 prósent úr veitingarekstri og 28 prósent úr öðrum ferðaþjónustutengdum greinum, eða samtals um 89 prósent.
Samkvæmt Vinnumálastofnun er uppsagnarfrestur þeirra sem sagt var upp í hópuppsögnum júnímánaðar í flestum tilvikum á bilinu 1 til 3 mánuðir og koma því til framkvæmda á bilinu ágúst til október.
Þær uppsagnir sem bárust í mars til maí komu og koma til framkvæmda í maí og fram í september í flestum tilvikum. Sjá má á meðfylgjandi mynd að nærri 4.000 manns munu hafa lokið uppsagnarfresti í byrjun ágúst og um 1.300 að auki í september. Gera verður ráð fyrir að stór hluti þeirra muni sækja um atvinnuleysis- bætur þegar þar að kemur.