Samkvæmt nýrri starfaskráningu Hagstofu Íslands voru 198.700 störf mönnuð á öðrum ársfjórðungi þessa árs, en það eru 27.200 færri störf en mönnuð voru á sama tímabili í fyrra. Laus störf voru einnig mun færri, eða 2.600 á nýliðnum ársfjórðungi á móti 6.200 í fyrra.
Hlutfall lausra starfa á íslenskum vinnumarkaði á síðasta ársfjórðungi var því um 1,3 prósent, á móti 2,7 prósentum í fyrra.
Starfaskráning Hagstofunnar er ársfjórðungsleg úrtaksrannsókn sem gerð er hjá fyrirtækjum á íslenska vinnumarkaði sem hafa fleiri en einn starfsmann að meðaltali í vinnu á ársgrundvelli.
Rannsóknin var fyrst framkvæmd á fyrsta ársfjórðungi í fyrra. Því þarf ekki að koma á óvart að fjöldi starfa hefur aldrei verið jafn lágur í þessari mælingu, enda hefur staðan á íslenskum vinnumarkaði verið erfið vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins.
Erfiðir tímar á vinnumarkaði
Atvinnuleysi á Íslandi hefur aldrei verið jafn mikið og undanfarna mánuði og hafa tugþúsundir verið án vinnu eða í skertu starfshlutfalli. Heildaratvinnuleysi náði hæstu hæðum í apríl, þegar það mældist 17,8 prósent.
Samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar sem kom út í lok júní er búist við því að atvinnuleysi innan ársins verði að meðaltali 8,2 prósent, sem yrði það mesta í lýðveldissögunni.
Fyrra metið var sett árið 2010, í kjölfar banka- og efnahagshrunsins sem varð á árunum 2008 og 2009, þegar 7,6 prósent landsmanna voru án atvinnu að meðaltali.