Tíu ferðamenn sem farið hafa í skimun við landamæri Íslands frá 15. júní hafa reynst með virkt smit. 40 hafa hins vegar reynst með gamalt smit. Á síðustu þremur vikum hafa um 32 þúsund farþegar komið til landsins og sýni verið tekin frá um 24 þúsund. Ellefu innanlandssmit hafa verið staðfest á þessum tíma og eru þau öll rakin til ferðamanna – Íslendinga og útlendinga – sem hingað hafa komið. Á upplýsingafundi almannavarna í dag sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að ekkert innanlandssmit hefði greinst síðustu fimm sólarhringa. „Svo það lítur út fyrir að það hafi tekist að koma í veg fyrir frekara smit frá þessum ferðamönnum.“
En svo vék Þórólfur að máli málanna: Þeirri ákvörðun Íslenskrar erfðagreiningar að hætta þátttöku í landamæraskimun frá og með næsta þriðjudegi. Yfirlýsingin var nokkuð óvænt, sagði Þórólfur. Talað hefði verið um samstarf út júlí en enginn skriflegur samningur lá fyrir samvinnu ÍE og íslenskra yfirvalda vegna landamæraskimunarinnar.
Páll Þórhallsson, verkefnastjóri í forsætisráðuneytinu, var á fundinum spurður hvort slík vinnubrögð væru ásættanleg í ljósi alvarleika verkefnisins. Hann sagði munnlegan samning við þessar aðstæður óvenjulegan en að það hefði ekki verið í boði að gera skriflegan samning. Mikill þrýstingur hefði verið á „stjórnvöld að stíga skref í átt til opnunar landamæranna“ og að ÍE hefði boðið fram aðstoð sína.
Páll sagði að hugmyndin að skimun á landamærum hefði komið frá Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar. Stjórnvöld hefðu svo gert hana að sinni en að frá upphafi hefði verið ljóst að þau væru ekki í stakk búin til að framkvæma hana „í einum vettfangi“ þannig að Kári hefði boðist til að hlaupa undir bagga og hjálpa til að koma þessu á laggirnar.
Sóttvarnalæknir sagði að nauðsynlegt væri að halda áfram að skima við landamærin, að minnsta kosti út júlímánuð. Sagði hann að það væri veikleiki og brotalöm í okkar viðbúnaði að eina opinbera rannsóknarstofan hefði ekki meiri afkastagetu en raun ber vitni. Undir það tók Alma Möller landlæknir en benti á að vikum saman hefði verið í undirbúningi að efla greiningarhæfni veirufræðideildar Landspítalans en að löng bið væri eftir tækjabúnaði enda væri hann eftirsóttur um allan heim. Ekki væri von á honum fyrr en í október.
Úr 2.000 í 500?
Síðustu daga hafa verið tekin vel yfir þúsund sýni við landamærin daglega. Fyrir utan það hefur þurft að taka sýni af fólki hér innanlands. Íslensk erfðagreining hefur afkastasgetu upp á um 2.000 sýni á dag.
Veirufræðideildin getur ekki greint meira en um 500 sýni á dag. Þórólfur sagði að með ákveðnum breytingum á fyrirkomulagi, m.a. því að „keyra fleiri sýni saman“, jafnvel tíu í einu í greiningunni. Það er þó að hans sögn ekki jafn góð aðferð og nú er notuð. „Ef það er hægt þá er hægt að anna þessum fjölda sem hefur verið hægt að anna hingað til,“ sagði Þórólfur. Hann benti hins vegar á að Landspítalinn hefði ekki enn svarað því hvort mögulegt væri að auka afkastagetuna með þessum hætti. Það setti aðgerðinni ákveðnar skorður. Endurmeta þyrfti ýmsa hluti ef þetta tækist ekki, mögulega að biðja farþega að framvísa vottorðum við komuna þó að það væri síðri kostur. „En það getur verið að við þurfum að taka þetta upp.“
Þórólfur sagði á fundinum að Íslensk erfðagreining hefði staðið sig frábærlega í baráttunni við COVID-19. Þar hefði farið fram nánast öll skimun einkennalausra og auk þess hefði fyrirtækið hlaupið undir bagga þegar tæki á Landspítalanum hafa bilað. Þá hefðu vísindamenn fyrirtækisins rannsakað faraldurinn vel og komist að nýrri þekkingu sem hefði gagnast vel hér á landi sem og alþjóðlega.
Einnig hefur ÍE skimað um 40 þúsund Íslendinga fyrir mótefnum og munu þeir, væntanlega í dag og á morgun, geta nálgast niðurstöður úr þeirri mælingu á Heilsuvera.is.
„Íslenskt samfélag stendur í þakkarskuld við Íslenska erfðagreiningu en það hefur hins vegar verið ljóst núna undanfarið að Íslensk erfðagreining getur ekki haldið áfram að skima fyrir COVID-19, eðlilega liggja áherslur þeirra og skyldur annars staðar. Við þökkum þeim kærlega fyrir allt gott samstarf.“
Þórólfur ítrekaði að áfram þyrfti að skima við landamærin, að minnsta kosti út júlí. Þannig fengist þekking og vitneskja um það hvort að ferðamenn væru að bera veiruna hingað. Þessi vitneskja myndi svo verða til þess að mögulega væri hægt að breyta áherslum, t.d. að sleppa því að skima fólk frá ákveðnum svæðum þar sem lítil hætta er á ferðum.
ÍE lánað tæki
Í dag er hægt að skima um 2.000 ferðamenn fyrir kórónuveirunni á landamærunum. Íslensk erfðagreining hefur lánað húsnæði og tæki til rannsókna á sýnunum og þar hafa starfsmenn sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans fengið þjálfun í því ferli síðustu vikur.
„Við munum leita ýmissa leiða til að halda áfram skimun og við munum reyna að halda henni óbreyttri,“ sagði Þórólfur. Í Þýskalandi væru mörg sýni keyrð saman í einu við rannsóknina og það hefði gefið góða raun. „Verkefni okkar núna er að lágmarka áhættuna á að veiran komi hingað aftur og treysta hér innviði með einstaklingsbundnum sóttvörnum.“
Landlæknir, Alma Möller, sagði okkur heppin að fá smit hefðu greinst hér síðustu vikur. Víða annars staðar í heiminum væri staðan önnur, m.a. væru að koma upp hópsmit. „Þetta sýnir okkur að veiran er ekki að fara neitt og að við megum ekki slaka a árvekni okkar.“
Sagði hún að áfram yrði að einbeita sér að skimun við landamærin, ekki síst vegna þess að íslenskt heilbrigðiskerfi væri viðkvæmt margra hluta vegna. „Þetta er tilraun sem stöðugt þarf að endurmeta.“
Ef upp kæmu breyttar forsendur myndi allt vera gert til að koma í veg fyrir að veiran næði sér hér aftur á strik.