Fyrirtæki geta nú sótt um stuðningslán á vefnum ísland.is en þau eru hluti af viðspyrnuaðgerðum stjórnvalda. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. Lánunum er ætlað að styðja við smærri og meðalstór fyrirtæki sem orðið hafa fyrir miklu tekjufalli vegna kórónuveirufaraldursins.
Lánin geta að hámarki numið 40 milljónum króna. Þó geta þau ekki orðið hærri en sem nemur tíu prósentum af tekjum fyrirtækis á síðasta rekstrarári. Full ríkisábyrgð er veitt upp að 10 milljónum króna en 85 prósent umfram það.
Ýmis skilyrði eru sett fyrir veitingu stuðningsláns. Til að mynda þurfa tekjur lántaka að hafa dregist saman um að minnsta kosti 40 prósent á samfelldu 60 daga tímabili frá 1. mars til 30. september miðað við sama tímabil í fyrra. Þá þurfa lántakar að hafa haft tekjur á bilinu níu til 1.200 milljónir á síðasta rekstrarári. Þá þarf launakostnaður á síðasta ári að hafa numið tíu prósentum af rekstrarkostnaði.
Lántakandi stuðningsláns má ekki hafa greitt út arð eða óumsamda kaupauka, keypt eigin hlutabréf, greitt af víkjandi láni eða veitt nákomnum aðilum lán frá 1. mars 2020. Þá mega lántakendur ekki vera í vanskilum við lánastofnun sem hafa staðið lengur í 90 daga né í vanskilum með opinber gjöld.
Stjórnvöld hafa samið við Arion banka, Íslandsbanka, Kviku, Landsbankann og Sparisjóðina um framkvæmd lánanna. Í tilkynningunni kemur fram að umsóknir skulu berast inn á ísland.is en fyrirtækin fá lánin afgreidd hjá sínum viðskiptabanka. Lánastofnunum er heimilt að veita stuðningslán til ársloka 2020.