Þrjú aðildarfélög Kennarasambands Íslands (KÍ) skrifuðu undir kjarasamninga við samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga í nótt og í morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá KÍ.
Félag leikskólakennara hefur skrifað undir samning sem gildir til 31. desember 2021, að því er fram kemur hjá sambandinu. Í samningnum sé sérstök áhersla lögð á faglegt starf og undirbúning þess.
Félag stjórnenda leikskóla og Skólastjórafélag Íslands hafa skrifað undir jafnlanga samninga sem fela meðal annars í sér samræmingu á kjaramálum félaganna og nýtt mat á starfsreynslu.
Samningarnir verða kynntir félagsmönnum ofangreindra félaga á næstu dögum og atkvæðagreiðsla um gerða samninga fer fram 5. til 7. ágúst næstkomandi.
Félag grunnskólakennara og Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum endurnýjuðu viðræðuáætlanir sínar og taka upp viðræður að loknu sumarfríi.