Dagur B. Eggertsson borgarstjóri telur að horfa ætti til þess að flýta framkvæmdum við Borgarlínu og aðrar samgöngubætur. Við núverandi aðstæður í efnahagslífinu sé slíkt kjörið. Þetta kemur fram í viðtali í Morgunblaðinu í dag.
Mikill tími fór í það að ræða ýmis þingmál tengd samgöngum á Alþingi síðustu vikur þess í júní. Þingmenn Miðflokksins leiddu þá umræðu með málþófi og sáu þeir sérstaklega athugvert við fyrirhugaða Borgarlínu.
Þann 29. júní var þó samþykkt þingmál sem færir Borgarlínu nær því að verða að veruleika, en 46 þingmenn allra flokka nema Miðflokksins og Flokk fólksins samþykktu lög sem heimila stofnun opinbers hlutafélags um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu sem verður í sameign ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.
Borgarstjórinn segir í samtali við Morgunblaðið að með því að auka vægi almenningssamgangna í umferðinni þá rýmkist um aðra umferð á samgönguæðum höfuðborgarsvæðisins. Einkabíllinn fái meira rými, en einnig sé skapað svigrúm fyrir þá sem ganga, hlaupa eða fara leiða sinnar á reiðhjóli. Deilibílar eigi sömuleiðis að vera sjálfsagður samgöngukostur.
Í framtíðinni verði ferðavenjur flestra meiri blanda ólíkra kosta en nú. „Því er okkur nauðsynlegt að komast út úr þeim skotgrafahernaði að líta á að einhver einn ferðamáti skuli ráða,“ segir Dagur.
Borgarlínan er heiti á samstarfsverkefni sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um afkastamikið almenningssamgöngukerfi. Búið er að kortleggja helstu samgönguása á höfuðborgarsvæðinu þar sem þetta nýja samgöngukerfi mun liggja. Borgarlínan mun teygja sig í gegnum öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og vera allt að 57 kílómetrar að lengd. Ekki verða allir kílómetrarnir lagðir í einu heldur verður verkefnið áfangaskipt.