Samskiptum við heilsugæslu fjölgaði um 18 prósent frá byrjun mars til loka maí árið 2020 í samanburði við sama tímabil 2019. Mikil fjölgun varð á símtölum og rafrænum samskiptum en fjöldi viðtala dróst saman.
Á sama tíma fækkaði útskriftum af sjúkrahúsum að meðaltali um 11 prósent og komum á dag- og göngudeildir fækkaði að meðaltali um 30 prósent. Þá fækkaði samskiptum við sjálfstætt starfandi sérfræðinga um 25 prósent á þessu tímabili.
Þetta kemur fram í Talnabrunni, fréttabréfi landlæknis um heilbrigðisupplýsingar, sem birtist á síðu Embættis landlæknis í síðustu viku.
Bent er á að miklar takmarkanir hafi verið á starfsemi samfélagsins á þessum tíma sem höfðu víðtæk áhrif á allt daglegt líf, þar með talið atvinnulíf, skólastarf og heilbrigðisþjónustu.
Embætti landlæknis hefur eftirlit með starfsemi heilbrigðisþjónustu. Á meðan COVID-19 faraldurinn gekk yfir, frá lokum febrúarmánaðar 2020, var fylgst sérstaklega náið með starfsemi heilbrigðisþjónustunnar, að því er fram kemur í Talnabrunni.