„Brotthvarf Ingibjargar Sólrúnar og þriggja annarra yfirmanna hjá Lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu er enn ein viðvörunarbjallan um að vegið sé að almennum mannréttindum, fjölmiðlafrelsi og lýðræði víða um heim.“
Þetta skrifar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni í dag.
Greint var frá því í fjölmiðlum í gær að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrum utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, myndi láta af störfum sem forstjóri Lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE næstkomandi laugardag.
Þorgerður Katrín segir að nú eigi að grafa undan þeim alþjóðastofnunum „sem segja frá þegar lýðræðið er afbakað“. Barnið sem bendir á að keisarinn sé ekki í neinum fötum skuli strokað út úr sögunni.
„Af hálfu þeirra þjóða sem harðast ganga fram er ekki lengur verið að fara í felur með það. Í þessari tilteknu aðför eru það Tyrkland, Aserbaídsjan og Tadsekistan, líklega undir velvilja og vernd Rússa. Næst verða það aðrar þjóðir enda mörg merki uppi um að þessi kerfisbundna atlaga að mannréttindum og frelsi sé rétt að byrja. Nægir að nefna Lög og rétt í Póllandi, Orban i Ungverjalandi og Bolsonaro í Brasilíu. Og sumar stórþjóðir láta sér vel við líka eða setja kíkinn fyrir blinda augað,“ skrifar hún.
Valdboðsstjórnmál séu því víða að ryðja sér til rúms þar sem óþolinmæði leiðtoga gagnvart réttarríkinu, mannréttindum, fjölmiðlum og lýðræði sé sýnilega að aukast.
Tekur undir með ráðherra sem segir þetta vera aðför að stofnuninni
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagði í samtali við fréttastofu RÚV í gær það vera áhyggjuefni að Ingibjörg Sólrún og aðrir forstjórar hjá ÖSE láti af störfum eftir að nokkur aðildarríki lögðust gegn því að þau fengju að starfa áfram.
„Ég harma þessa niðurstöðu og hún er áhyggjuefni. Þetta er auðvitað ekki annað en aðför að stofnuninni. Hvað okkar fulltrúa varðar þá er ég ásamt miklum meirihluta aðildarríkja þeirrar skoðunar að hún hafi sinnt starfi sínu af heiðarleika og fagmennsku og í samræmi við umboð sitt,“ sagði hann.
Þorgerður Katrín tekur undir þetta og segir það vera rétt hjá utanríkisráðherra að þessar tilfæringar hjá ÖSE séu aðför að stofnuninni sem ætlað er að hafa eftirlit með grundvallarmannréttindum. „Þetta eru alvarleg hættumerki og kallar á að rödd Íslands og Norðurlandanna verður að vera háværari, markvissari og samstilltari á alþjóðavettvangi. Hvort sem er innan Evrópusamvinnunnar, Nató eða Sameinuðu þjóðanna.“
Brotthvarf Ingibjargar Sólrúnar og þriggja annarra yfirmanna hjá Lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu Öryggis- og...
Posted by Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir on Tuesday, July 14, 2020