„Inspired by Iceland býður fólki um allan heim að losa um uppsafnaða streitu vegna Covid-19 með því að láta öskur sitt hljóma á Íslandi.“
Á þessum orðum hefst fréttatilkynning frá Íslandsstofu sem send var út til fjölmiðla í morgun. Í henni kemur fram að hátölurum hafi verið komið fyrir víðs vegar um landið og að hægt sé að taka öskrin upp með aðstoð tölvu eða síma á vefsíðunni www.lookslikeyouneediceland.com næstu tvær vikur.
„Það verða sjö hátalarar sem koma öskrunum til skila á Íslandi og getur fólk valið um staðsetningu,“ segir ennfremur í tilkynningunni. Hátalararnir eru í Viðey í Reykjavík, Festarfjall við Grindavík, í nágrenni Skógarfoss, skammt utan við Djúpavog, við rætur Snæfellsjökuls, við Kálfshamarsvík og við Rauðasand á Vestfjörðum. „Notendur fá svo að lokum myndbandsupptöku af því þegar öskrið þeirra „glymur“ á Íslandi. Íslendingar þurfa þó ekki að óttast að gremjuöskur útlendinga skemmi sumarfrí þeirra þar sem hljóðstyrknum er stillt í hóf.“
Herferðin hefur hlotið nafnið „Let It Out“ eða „Losaðu þig við það“. Í tilkynningunni segir að hún sæki „innblástur til kenninga sálfræðinga um streitulosandi áhrif þess að öskra af öllum lífs og sálar kröftum“. Í könnun sem framkvæmd var á erlendum mörkuðum fyrir Inspired by Iceland í byrjun júní sögðust 40 prósent aðspurðra finna fyrir streitueinkennum vegna Covid-19, og 37 prósent svöruðu að ástandið hefði haft neikvæð áhrif á sálartetrið. „Langvinn innivera, einsemd, endalausir fjarfundir og röskun á daglegu lífi, auk takmarkana á ferðalögum milli landa, hafa aukið streitu fólks. Herferðinni er ætlað að draga fram kosti Íslands sem áfangastaðar.“
Í tilkynningunni er haft eftir Sigríði Dögg Guðmundsdóttur, fagstjóra ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu, að með herferðinni sé ætlunin að vekja athygli tilvonandi ferðamanna á því að það sé „tiltölulega öruggt að ferðast til Íslands og að hér er hægt að upplifa fallega náttúru í fámenni, en það er eitthvað sem við teljum að fólk muni sækjast eftir þegar áhugi fólks á að ferðast eykst á ný“.
Haft er eftir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra að það sé spennandi að geta boðið fólki að upplifa Ísland með þessum hætti. „Ég held að við þurfum öll að losa um streitu eftir undanfarna mánuði, og Ísland hefur allt til að bjóða fyrir fólk sem þarf á endurnærandi upplifun að halda. Hvort sem það er stafræn heimsókn til að losa um streitu eða raunveruleg heimsókn í afslappað frí“.