Hágæða ferðaþjónusta „sem á engan sinn líka“ þarf ekki í umhverfismat

Á jörðinni Heyklifi sunnan Stöðvarfjarðar er áformað að reisa hótel og heilsulind fyrir um 250 gesti. Framkvæmdaaðili hyggst reyna að raska „sérstæðri og tilkomumikilli“ náttúru svæðisins sem minnst en hún einkennist af klettakömbum og klettóttri strönd.

Bæjarhúsin að Heyklifi.
Bæjarhúsin að Heyklifi.
Auglýsing

Skipulagsstofnun hefur ákveðið að fyrirhuguð uppbygging 100 herbergja hótels og heilsulindar á jörðinni Heyklifi á Kambanesi sunnan Stöðvarfjarðar skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Stofnunin setur þó ýmis skilyrði í áliti sínu, m.a. að aðgangstakmarkanir verði settar á ákveðnum árstímum vegna fjölbreytts fuglalífs sem þarna er að finna. 

Jörðin eru í eigu CityLab ehf., og í frétt Austurfréttar í fyrra kom fram að eigandi fyrirtækisins væri Alexander Efanov, rússneskur arkitekt sem starfað hefur á Íslandi um árabil. Í mars í fyrra kom fram í grein í Morgunblaðinu að fjárfestingafélagið TP Investments, sem sagt er vera fjölskyldufyrirtæki frá Mónakó, hygðist reisa hótelið. Í áliti Skipulagsstofnunar, sem birt var nýverið, kemur fram að framkvæmdaaðili sé Jerome Bottari en hann er framkvæmdastjóri hjá TP Investments.

Auglýsing


Kambanes er ysti hluti fjallgarðsins sem skilur að Stöðvarfjörð og Breiðdal og því í sveitarfélaginu Fjarðabyggð. Á Kambanesi er jörðin Heyklif, gömul bújörð, en búskapur hefur lagst af. Á miðju nesinu er Kambahnúta, klettaborg sem rís um 81 metra yfir sjávarmál. Bæjarhúsin samanstanda af íbúðarhúsi, hlöðu og útihúsi, byggingar sem voru reistar á árunum 1940, 1953 og sú nýjasta 1999 í kjölfar þess að eldra íbúðarhús eyðilagðist í eldsvoða. Á nesinu er viti, Kambanesviti, sem var reistur árið 1922.


Á Kambanesi voru áður tvær bújarðir en þær hafa verið sameinaðar undir nafninu Heyklif. Þar stendur nú til að byggja upp ferðaþjónustu á 16 hektara svæði en deiliskipulagssvæðið í heild er 132 hektarar. Gert er ráð fyrir að reisa hótel með veitingastað, nokkur fjölskylduhús og gistihýsi með samanlagt um 100 herbergjum fyrir um 250 manns. Þá á einnig að reisa starfsmannahús.

Jörðin Heyklif er á Kambanesi sunnan Stöðvarfjarðar. Mynd: Úr matsáætlun


Í deiliskipulagstillögu framkvæmdaaðila, sem var kynnt nýverið, segir að á svæðinu sé fyrirhuguð hágæða ferðaþjónusta  „sem á engan sinn líkan“. Lögð verði áhersla á að byggingar, vegir, göngustígar og önnur mannvirki falli vel að „sérstæðri og tilkomumikilli náttúru svæðisins og raski sem minnst sérstöðu þess [.]“


Í tillögunni kemur fram að fyrirhuguð sé ýmis konar starfsemi, gert sé ráð fyrir brugghúsi með aðstöðu til að taka á móti gestum og veitingastað. Einnig sé gert ráð fyrir „hágæða hóteli með heilsulind“. Þá sé gert ráð fyrir „vönduðum og sérstæðum byggingum“ af nokkrum stærðum til útleigu fyrir ferðamenn.


Jörðin Heyklif afmarkast að mestu á þrjá vegu af sjó og til vesturs af þjóðvegi 1 og skilgreindum landamerkjum sem samþykkt voru 20. desember 2018.

Vilja skapa einstakan staðaranda


Landslag svæðisins rímar ágætlega við nafnið Kambanes, segir í deiliskipulagstillögunni. „Klettabrúnir eða klettakambar stallast í stöllum frá Þjóðvegi 1 að klettóttri sjávarströnd. Flatlendi er á nokkrum stöðum á milli stallanna, auk manngerðra túna og manngerðrar tjarnar.“


Megináherslur framkvæmdanna verða m.a.  að „skipuleggja hágæða ferðamannastað á Íslandi sem á sér engan líka“ og að skapa með því „einstakan staðaranda þar sem upplifun gesta verður einstök“.


Í tillögunni kemur einnig fram að gestafjöldi hafi verið áætlaður til ársins 2027. Þær áætlanir gerðu ráð fyrir að hótelþorpið yrði opnað á næsta ári og var það ár gert ráð fyrir 5.840 gestum. Árið 2027 var gert ráð fyrir 15.700 gestum.

Kambanesviti var reistur árið 1922.


Í gögnum frá Alta ráðgjöf, sem Skipulagsstofnun byggir álit sitt á, kemur fram að byggingar yrðu samanlagt að hámarki tæpir 11.000 fermetrar. Hótelið yrði 7.300 fermetrar, þar af yrðu 2.050 fermetrar neðanjarðar. Byggingin yrði á tveimur hæðum og yfir tíu metra há. Veitingastaður og starfsmannaaðstaða yrði þúsund fermetrar að stærð. Fjögur stór fjölskylduhús eru fyrirhuguð, hvert og eitt um 180 fermetrar að meðaltali. Til viðbótar yrði eitt stórt og stakt fjölskylduhús um 700 fermetrar að stærð. Gistihýsin yrðu átta. Fimm þeirra yrðu að meðaltali um 90 fermetrar en þrjú að meðaltali um 100 fermetrar. Þá er áformað að reisa 200 fermetra þjónustuhús á jörðinni og leggja bílastæði. Einnig er gert er ráð fyrir að núverandi íbúðar- og útihús  verði notuð áfram fyrir starfsemi staðarins.


Svæðið að mestu óraskað

Í áliti Skipulagsstofnunar er bent á að að uppbyggingin sé fyrirhuguð á svæði sem er að mestu leyti óraskað í dag og án mannvirkja. „Ljóst er að um er að ræða umfangsmikla uppbyggingu fyrir ferðamenn sem samanstendur af mörgum framkvæmdaþáttum.“  Stofnunin telur hins vegar að við val á staðsetningu fyrirhugaðra húsa og vegar hafi verið tekið tillit til gróðurfars svæðisins og fornleifa. Þannig verður ekki raskað vistgerðum með hátt eða mjög hátt verndargildi eða votlendi sem njóti verndar.


Talsvert fuglalíf er á Kambanesi og telur Skipulagsstofnun ljóst að fyrirhugaðar framkvæmdir komi til með að hafa neikvæð áhrif á fugla, bæði á framkvæmdatíma og á rekstartíma vegna aukinnar umferðar ferðafólks. Segir stofnunin því mikilvægt að framkvæmdum verði haldið í lágmarki yfir varptíma að höfðu samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands. Þá tekur hún undir umsögn Umhverfisstofnunar um að ástæða sé til þess að aðgangsstýring sé sett á ferðir gesta um svæðið til þess að lágmarka truflun fyrir fuglalíf, einkum á varptíma.

Í góðu samræmi við landslag


Skipulagsstofnun telur að ein helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verði vegna ásýndarbreytinga. En með því að leggja áhersla á að hönnun og umfang bygginga, húsagerð, form og litasamsetning verði í góðu samræmi við landslag og sérstöðu svæðisins, eins og framkvæmdaaðili fyrirhugar, megi draga úr þessum neikvæðu áhrifum.


Þá telur stofnunin jákvætt að sett hafi verið ákvæði um lýsingarhönnun í deiliskipulag til að milda áhrif byggðar á ásýnd en beinir þeim tilmælum til framkvæmdaaðila að huga einnig að áhrifum lýsingar á fuglalíf. „Í ljósi ofangreinds telur Skipulagsstofnun ólíklegt að framkvæmdin komi til með að hafa í för með sér veruleg óafturkræf umhverfisáhrif sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.“

Kambanes í Fjarðabyggð. Mynd: Úr áliti Skipulagsstofnunar

Það er því niðurstaða stofnunarinnar að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og því skuli hún ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Samkvæmt 14. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum má kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærufrestur er til 10. ágúst 2020.


Náttúrustofa Austurlands gerði að beiðni framkvæmdaaðila úttekt á gróðurfari og fuglalífi á Kambanesi sumarið 2019. Gengið var um svæðið, vistgerðir kortlagðar, gróðri lýst og tegundir skrásettar. Vistgerðir með mjög hátt eða hátt verndargildi þöktu um 40 prósent af athugunarsvæðinu og voru allt votlendisvistgerðir. Innan athugunarsvæðisins voru fimm votlendissvæði yfir 20.000 fermetrar að stærð og njóta því verndar samkvæmt lögum. Fyrirhuguð mannvirki verða einkum á svæðum þar sem er að finna vistgerðir sem skilgreindar eru með miðlungs eða lágt verndargildi.

Kambanes. Deiliskipulagssvæðið er 132 hektarar að stærð.


Lífríki svæðisins einkennist af nálægð við sjóinn. Fuglalíf er mest við ströndina og þá á varptíma á vorin. Sjófuglar eru algengastir en mó- og vaðfuglar ofar á nesinu. Æðarvarp er á sunnanverðu nesinu og er það nytjað. Þá er að finna varplendi fyrir endur, gæsir, kríu, ritu og fýl.


Fuglabyggðir voru einnig kortlagðar sem og varpdreifing með tilliti til fyrirhugaðrar mannvirkjagerðar. Alls voru greindar 23 tegundir varpfugla þar af tólf á válista fugla og níu er flokkast sem ábyrgðartegundir.

Skipulagsmálin vel á veg komin


Breyting á aðalskipulagi Fjarðabyggðar 2007-2027 var í kynningarferli nýverið sem og deiliskipulagstillaga jarðarinnar Heyklifs. Áður en framkvæmdaleyfi verður veitt þarf að liggja fyrir staðfest breyting á aðalskipulagi og samþykkt deiliskipulag.


Deiliskipulagið sem og aðalskipulagsbreytingin voru samþykktar í eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd Fjarðabyggðar í maí og vísað til bæjarstjórnar sem staðfesti ákvörðun nefndarinnar, með staðfestingu fundargerðar hennar, í lok maí.Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiInnlent