Áhrif vaxtalækkana hafa gert vart við sig á íbúðamarkaði en vextir á íbúðalánum hafa víðast hvar lækkað og eru orðnir mjög lágir, sögulega séð. Þetta hefur það í för með sér að greiðslubyrði af lánum lækkar og þar með aukast ráðstöfunartekjur heimila. Lægri vextir geta einnig aukið svigrúm fólks til fasteignakaupa, þar sem hægt er að taka hærra lán en ella án þess að greiðslubyrði aukist.
Þetta skrifar Una Jónsdóttir, hagfræðingur í Hagfræðideild Landsbankans, í greininni „Íbúðamarkaður á tímum heimsfaraldurs – Vaxtalækkanir og nokkuð óvænt hækkun íbúðaverðs“ sem birtist í nýjustu Vísbendingu.
Hún segir að slíkt geti skapað þrýsting til hækkunar húsnæðisverðs. Vaxtalækkanir geti því haft margskonar áhrif á íbúðamarkað. Lækkað greiðslubyrði og bætt fjárhagsstöðu heimilanna til skemmri tíma, en aftur á móti hækkað húsnæðisverð til lengri tíma litið.
„Gera hefði mátt ráð fyrir því að aukið atvinnuleysi, versnandi efnahagshorfur og almenn óvissa myndi draga úr viðskiptum með íbúðarhúsnæði og verðhækkanir yrðu litlar sem engar út þetta ár. Nýjustu tölur frá maímánuði bera þess hins vegar merki að íbúðamarkaður sé nokkuð líflegur. Verð hækkaði um 0,8 prósent milli mánaða á höfuðborgarsvæðinu sem er mesta hækkun milli mánaða síðan í nóvember 2018. Í apríl stóð verð hins vegar í stað og í mars var hækkunin aðeins 0,1 prósent frá fyrri mánuði.
Gera má ráð fyrir því að vaxtalækkanir hafi ýtt undir eftirspurn og komið í veg fyrir það að markaðurinn færi í algjört frost með litlum sem engum hreyfingum á nafnverði milli mánaða og auknum líkum á raunverðslækkunum,“ skrifar hún.
Una segir að ef litið sé til breytinga á húsnæðisliðnum í mælingum Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs sjáist áhrif vaxtabreytinga glögglega. „Í júní hækkaði húsnæðisliðurinn reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar útgjöld húsnæðiseigenda, um 0,37 prósent milli mánaða. Vísitala markaðsverðs húsnæðis, sem fangar breytingar á húsnæðisverði, hækkaði hins vegar um 0,89% milli mánaða. Mismunurinn skýrist af lægri vöxtum, sem vógu 0,52 prósentustigum til lækkunar í júní. Haldi verðhækkanir áfram á húsnæðismarkaði munu áhrifin af vaxtalækkunum, að óbreyttu, vega minna og verðbólga gæti orðið meiri. Fylgjast þarf því vel með þessari þróun á næstu mánuðum og er viðbúið að frekari hækkanir íbúðaverðs kunna að hafa áhrif á verðbólgu sem aftur dregur úr líkum á áframhaldandi vaxtalækkunum.“