„Hugmyndin um Ísland sem urðunarstað öskra er soldið góð í tvær sekúndur en verður svo strax eiginlega ansi vond. Þetta gerist þegar fengin er til verka auglýsingastofa með lítil eða mjög lausbundin tengsl við Ísland – landið er þar en ekki hér í vitund fólksins sem þetta vinnur. Útkoman er næstum því eins og afurð heimsvaldastefnunnar.“
Þetta skrifar Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, í stöðuuppfærslu á Facebook í dag. Tilefnið er ný herferð Íslandsstofu þar sem útlendingar eru hvattir til að taka upp öskur sín sem síðan munu glymja í gegnum hátalara víðs vegar um Ísland. Streitulosun og ferðalög eru markmiðin.
Þingmaðurinn segir að hugmyndin snúist um „að hægt sé að dömpa hér öllu ergelsi, eins og heimsveldin urða kjarnorkuúrganginn sinn á eyjum þar sem býr varnarlaust fólk. Þú öskrar heima hjá þér og það kemur svo út um gulan – gulan! – risahátalara einhvers staðar í óbyggðunum hér.“
„Í guðanna bænum, kæra Íslandsstofa, ekki gera þetta“
Hann bætir því við að sá sem hefur snefil af tilfinningu fyrir íslenskri náttúru, óbyggðunum, viti að áhrifamáttur þeirra felist ekki síst í þögninni, þessari voldugu kyrrð.
„Hver sá sem vinnur með það að selja ferðir til Íslands hlýtur að byrja á því að vinna með þetta: þögn öræfanna – hina heilögu þögn öræfanna sem umlykur stórborgarbúann og afvopnar hann, strýkur honum ásamt golunni á vanga og knýr hann til að leita inn á við og horfast í augu við innri mann og allt sitt bauk í lífinu fram að því. Í þessu felst vitrunin sem býður allra þeirra sem halda á íslenska hálendið, og ganga á vit einmanalegrar tignar þess. Svo getur verið kikk að öskra á Dettifoss eða brimið, en þá verður maður að vera þar.
Maður er kannski á gangi á Laugaveginum. Maður er einn með sjálfum sér og öllu því sem maður hefur iðjað. Maður horfir á strá. Maður sér fugl. Maður finnur fyrir líkamanum, hverjum vöðva, hverri taug, og maður er í þann veginn að komast að mikilvægustu ákvörðun lífsins eftir langa og djúpa umþenkingu þegar skyndilega berst garg úr risastórum gulum hátalara frá örvilnuðum unglingi í Maine í Bandaríkjunum sem er að verða vitlaus á mömmu sinni. Í guðanna bænum, kæra Íslandsstofa, ekki gera þetta. Segiði svo auglýsingastofunni að spyrja næst einhvern Íslending hvort þetta sé góð hugmynd,“ skrifar hann að lokum.
URÐUNARSTAÐUR ÖSKRA? Hugmyndin um Ísland sem urðunarstað öskra er soldið góð í tvær sekúndur en verður svo strax...
Posted by Guðmundur Andri Thorsson on Thursday, July 16, 2020