Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segist í stöðuuppfærslu á Facebook vona af öllu hjarta að félagsmenn í Félagi íslenskra atvinnuflugmanna sjái „hversu ömurlegt það er að standa ekki með flugfreyjum og taki ekki þátt í að hjálpa Icelandair að komast upp með svívirðilega framkomu með því að ganga í störf samstarfsfólks síns. Ef þeir standa ekki í lappirnar hér er skömm þeirra mikil.“
Vísar hún í frétt mbl.is þar sem talað er við Jón Þór Þorvaldsson, formann Félags íslenskra atvinnuflugmanna, um ákvörðun Icelandair að láta flugmenn starfa sem öryggisliðar um borð í flugvélum félagsins nú fyrst búið er að segja upp öllum flugfreyjum og flugþjónum.
Jón Þór segist í samtali við mbl.is ekki líta svo á að flugmenn séu með beinum hætti að ganga í störf flugfreyja og bendir á að um sé að ræða breytingu í flugrekstrarhandbók Icelandair sem flugmenn verði að fara eftir.
„Samkvæmt loftferðarlögum og flugrekstrarfyrirmælum berum við ábyrgð á öryggi um borð. Þetta eru flugrekstrarfyrirmæli sem okkur ber að fara eftir,“ segir Jón Þór. „Við þurfum að skoða þetta okkar megin hvað þetta þýðir en við getum ekki vikið okkur undan vinnuskyldu.“
„Reknar úr starfi eins og eitthvað drasl“
Sólveig Anna segist aldrei hafa vitað annað eins. „Karlar ætla að ganga í störf kvenna sem verða fyrir eins ógeðslegri framkomu og hægt er að hugsa sér, eru reknar úr starfi eins og eitthvað drasl, þrátt fyrir ára og áratuga starfsferil. Karlarnir ætla um leið og þeir taka þátt í svívirðunni að fela sig á bak við samfélagslega ábyrgð, að hér verði bara að tryggja samgöngur stöðvist ekki,“ skrifar hún.
Ég hef aldrei vitað annað eins: Karlar ætla að ganga í störf kvenna sem verða fyrir eins ógeðslegri framkomu og hægt er...
Posted by Sólveig Anna Jónsdóttir on Friday, July 17, 2020
Drífa Snædal, forseti ASÍ, sagði í samtali við Kjarnann fyrr í dag að þau væru að leita allra leiða til að koma í veg fyrir þetta. „Þetta er ótrúleg ósvífni af hendi Icelandair. Vanvirðing gagnvart starfsfólki og vanvirðing gagnvart þeim reglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði og þeirra sem ganga til samninga,“ sagði hún.