Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ, segir að það sem sé hræðilegast við aðgerðir Icelandair er að þær hafi verið þaulskipulagðar. „Markmiðið var alltaf að reyna að brjóta stéttarfélag flugfreyja á bak aftur og ganga þannig í augun á fjárfestum, einkum erlendum,“ skrifar Halla á Facebook-síðu sína. „Icelandair vildi aldrei semja.“
Icelandair sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem sagði að samningaviðræður við Flugfreyjufélag Íslands kæmust ekki lengra og að þeim væri lokið. Í tilkynninguni sagði ennfremur að samkomulag við helstu hagaðila Icelandair Group, svo sem lánveitendur, flugvélaleigusala, stjórnvöld, birgja og stéttarfélög væri mikilvægur liður í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins sem unnið hafi verið að á undanförnum vikum. Í kjölfarið stefni félagið að hlutafjárútboði sem sé forsenda þess að koma félaginu í gegnum þær krefjandi aðstæður sem nú ríkja sem og að styrkja rekstrargrundvöll og samkeppnishæfni félagsins til framtíðar.
Halla segir gleymast hverjir séu helstu bakhjarlar Icelandair, það sé þjóðin í gegnum lífeyrissjóðina og svo veittan og mögulegan ríkisstuðning.
Í samtali við Kjarnann ítrekar Halla útreikninga sem ASÍ gerði í maí á launakostnaði flugfreyja. Hún rifjar upp að forstjóri Icelandair hafi greint frá því í fjölmiðlum í vor að þessi kostnaður nemi um 20 prósent af heildarlaunakostnaði félagsins. Halla bendir á að flugfreyjur séu um 20 prósent starfsmanna. Til samanburðar nema laun flugmanna 30 prósent af heildarlaunakostnaði en þeir séu aðeins um 14 prósent starfsmanna.
„Sé miðað við þessar forsendur sem forstjórinn setti fram í vor og rýnt í ársreikninga má ætla að launakostnaður flugfreyja nemi 7 prósent af rekstrarkostnaði Icelandair,“ segir Halla. „Það er því pólitísk, ekki peningaleg, ákvörðun að ráðast gegn þeim af slíku offorsi.“
Líkt og Drífa Snædal forseti ASÍ sagði í gær segir Halla að „skipulögðum niðurbrotstilraunum á stéttarstarfi“ líkt og Icelandair sé að reyna, verði svarað af fullri hörku. „Því réttindi launafólks eru grunnurinn að almennri velferð á Íslandi.“
Í tilkynningu Icelandair kom fram að félagið væri jafnframt „knúið til að segja upp þeim flugfreyjum og flugþjónum sem starfa hjá félaginu. Flugmenn félagsins munu frá og með mánudeginum 20. júlí starfa tímabundið sem öryggisliðar um borð. Þjónustustig um borð í vélum Icelandair mun áfram taka mið af þeim ráðstöfunum sem gerðar hafa verið vegna COVID-19 og verður því í lágmarki. Félagið gerir ráð fyrir að hefja viðræður við annan samningsaðila á hinum íslenska vinnumarkaði, um framtíðarkjör öryggis- og þjónustuliða hjá félaginu“.
Halla segir að ASÍ muni styðja flugfreyjur í þeirra aðgerðum og að sambandið trúi því ekki að óreyndu að flugmenn muni ganga í þeirra störf. „Verkalýðshreyfingin öll mun standa saman gegn svona tilburðum.“