Samninganefnd Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) skrifaði í nótt undir nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins og Icelandair sem gildir til 30. september 2025. Það gerðist eftir langa fundarsetu hjá ríkissattarsemjara og tilkynning þess efnis var send út á öðrum tímanum í nótt.
Icelandair hafði tilkynnt um það á föstudag að félagið hefði lokið viðræðum sínum við FFÍ og að öllum starfandi flugfreyjum og -þjónum yrði sagt upp. Í kjölfarið yrði samið við aðra aðila um að sinna störfum þeirra og til að byrja með yrði það í höndum flugmanna. Í framhaldi á undirritun samnings hefur Icelandair óskað eftir vinnuframlagi frá flugfreyjum og flugþjónum félagsins og því munu flugmenn ekki sinna störfum öryggisliða um borð.
Ákvörðunin var harðlega gagnrýnd víða, sérstaklega hjá verkalýðsforystunni, en Samtök atvinnulífsins studdu hana.
FFÍ boðaði samstundis til undirbúnings allsherjarverkfalls.
I tilkynningu frá FFÍ sem send var út í nótt segir að nýundirritaði samningurinn byggi á fyrri samningi sem felldur var í atkvæðagreiðslu hjá FFÍ nýverið. Nýi samningurinn feli hins vegar m.a. í sér breytingar á tveimur umdeildum ákvæðum. Málamiðlun náðist milli deiluaðila um aukafrídaga fyrir flugfreyjur eldri en 60 ára og um svokallaða sex daga reglu.
Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður FFÍ, segir að það hafi alltaf verið vilji FFÍ að koma til móts við Icelandair í því gjörbreytta landslagi sem blasi við á þessum markaði. „Það er von okkar að sem flestir félagsmenn FFÍ geti í framhaldi af þessu mætt til vinnu á ný og aðilar geti í sameiningu unnið að þeim stóru verkefnum sem við blasa. Jafnframt fögnum við því að samhliða undirritun kjarasamnings mun Icelandair draga til baka þær fyrirhuguðu uppsagnir sem tilkynntar voru félagsmönnum FFÍ 17. júlí 2020.“
Samningurinn verður kynntur félagsmönnum FFÍ á fundi 20. júlí og verða greidd atkvæði um hann í kjölfarið. Atkvæðagreiðslunni lýkur 27. júlí nk.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir það mikinn létti fyrir alla að búið sé að semja. Hann bindur miklar vonir við að félagsmenn FFÍ samþykki samninginn. „Með þessum samningi næst sú hagræðing sem við teljum nauðsynlega. Undanfarnir dagar hafa reynt verulega á og ég er afskaplega sáttur að við séum að ná lendingu. Þetta er gríðarlega mikilvægt skref í því stóra verkefni sem við stöndum frammi fyrir.”