Allt frá því faraldur kórónuveirunnar braust út hefur það verið megin reglan að fólk sem komist hefur í tæri við sýkta einstaklinga fari í tveggja vikna sóttkví. Þannig hefur það m.a. verið hér á landi. Að sama skapi hefur víðast hvar verið mælst til þess að fólk sem greinist með veiruna fari í að minnsta kosti tveggja vikna einangrun en jafnvel lengur, eftir alvarleika veikinda þeirra.
Nú hefur orðið breyting á þessu í Bandaríkjunum, sem hafa hingað til fylgt 14-daga reglunni. Smitsjúkdómastofnun landsins, CDC, hefur ákveðið að stytta þann tíma sem fólki er uppálagt að dvelja í einangrun eftir að greinast með veiruna sem og þeirra sem þurfa að fara í sóttkví. Segir stofnunin breytinguna byggða á aukinni þekkingu á smithættu.
Uppfærð tilmæli stofnunarinnar eru á þann veg að fólk sem greinst hefur með COVID-19 og er með það sem kallað er virkt smit skuli fara í einangrun í tíu daga eftir að það fær einkenni og vera í einangrun í sólarhring eftir að það verður hitalaust. Fyrir þá sem greinast með veiruna en sýna engin einkenni er samt sem áður mælt með tíu daga einangrun.
Í grein Washington Post um þessi breyttu tilmæli Smitsjúkdómastofnunarinnar segir að í mörgum rannsóknum megi nú finna vísbendingar um að flest fólk með veiruna smiti aðeins í stuttan tíma eða í 4-9 daga. Í tilmælum stofnunarinnar er bent á að lítill hluti fólks sem fái alvarleg einkenni geti smitað aðra af veirunni í lengri tíma og því gæti það þurft að vera í einangrun í allt að tuttugu daga.
Líkt og með margt sem snýr að leiðbeiningum og tilmælum varðandi nýju kórónuveiruna og sjúkdóminn sem hún veldur, COVID-19, eru skiptar skoðanir meðal sérfræðinga um hversu lengi smitaðir ættu að vera í einangrun og sóttkví. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin, WHO, uppfærði sínar leiðbeiningar í júní og samkvæmt þeim er mælt með því að smitaðir en einkennalausir séu í einangrun í tíu daga en þeir sem fái einkenni í að minnsta kosti þrettán daga.
Sérfræðingar hafa bent á að rannsóknir sem gerðar hafa verið á því hvenær fólk smiti aðra eftir að hafa smitast sjálft hafi verið nokkuð samhljóða. Í rannsókn sem birtist í vísindatímaritinu Nature í apríl var niðurstaðan m.a. sú að mótefni sem líkaminn myndar hafi þegar veikt veiruna á fimmta degi frá smiti og á þeim áttunda eða níunda sé hún afvopnuð og viðkomandi því hættur að smita.
Í annarri rannsókn sem birt var í New England Journal of Medicine var niðurstaðan m.a. sú að nánast á sama degi og fólk fer að sýna einkenni sjúkdómsins fari magn veirunnar í líkama þeirra að minnka.
En rannsóknir sýna einnig að misjafnt er hversu lengi fólk er mögulega smitandi. Og með því að stytta einangrun í tíu daga er ekki hægt að útiloka algjörlega smithættu. Slíkt á reyndar við um alla smitsjúkdóma –ekki aðeins COVID-19.
Enn að minnsta kosti 14 daga einangrun á Íslandi
En hvernig er þessu nákvæmlega háttað hér á Íslandi?
Á vefnum Covid.is er að finna mikið gagn hagnýtra upplýsinga, m.a. um það hvernig einangrun eftir COVID-19 sýkingu er aflétt.
Það gerist svona:
Læknar COVID-19-teymis Landspítala sjá um útskriftarsímtöl fyrir einstaklinga sem útskrifast úr einangrun. Þeir þurfa að uppfylla bæði eftirfarandi skilyrði og staðfesta það í samtali við lækni:
Að komnir séu a.m.k. 14 dagar frá greiningu/jákvæðu sýni (greiningarsýni).
Að hafa verið einkennalausir í 7 daga.
Þá fá allir þau tilmæli að huga sérstaklega vel að handþvotti og hreinlæti í tvær vikur eftir að einangrun hefur verið aflétt. Þá ber þeim einnig að forðast umgengni við viðkvæma einstaklinga svo sem eldra fólk og einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóm í a.m.k. 2 vikur.
Sóttkví vegna COVID-19 eru 14 dagar frá síðasta mögulega smiti eða þar til einkenni koma fram.
Líka spurning um peninga
Umræðan um lengd sóttkvíar er ekki aðeins tilkomin til að aflétta félagslegri einangrun þeirra sem sýkst hafa og auka þeirra ferðafrelsi. Í Bandaríkjunum snýst hún einnig um laun starfsmanna sem komast ekki í vinnuna vegna einangrunar eða sóttkvíar.
Í upphafi faraldursins var það staðfest í aðgerðapakkanum vegna COVID á þinginu að starfsfólk lítilla- og meðalstórra fyrirtækja skyldi fá laun frá hinu opinbera kæmist það ekki til vinnu af þessum sökum. Í stóru landi eins og Bandaríkjunum, þar sem faraldurinn er mjög útbreiddur og tugir þúsunda greinast með veiruna daglega, skipta nokkrir dagar því miklu þegar kemur að ríkisútgjöldum.