Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,2 prósent maí og júní en síðastliðna tólf mánuði hefur hún hækkað um 1,7 prósent. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Þjóðskrá Íslands.
Vísitalan leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs.
Meðalleiguverð á fermetra var hæst í stúdíóíbúðum í Reykjavík milli Kringlumýrarbrautar og Reykjanesbrautar, 5.129 krónur. Leiguverð stærri íbúða var hæst í Reykjavík, vestan Kringlumýrarbrautar, og á Seltjarnarnesi en þau eru flokkuð saman á vef Þjóðskrár.
Á vef Þjóðskrár segir að í leigugagnagrunninum séu 805 leigusamningar sem þinglýst var í júní 2020. Inni í talnaupplýsingum um leiguverð í júní eru upplýsingar úr 638 leigusamningum því inn í talnaupplýsingarnar fara ekki tölur úr leigusamningum sem eru eldri en tveggja mánaða við þinglýsingu, samningum þar sem herbergjafjöldi er ekki þekktur og samningum um félagslegar íbúðir.