Hótel- og gistirými heldur áfram að aukast á næstunni en alls eru 51 þúsund fermetrar í byggingu á höfuðborgarsvæðinu. Sú aukning nemur fimmtungi af því rými sem til staðar er nú, að því er fram kemur í fundargerð frá fjórða fundi Fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands sem birt var á vef bankans í vikunni.
Þá segir í fundargerðinni að fjárhæð útlána viðskiptabankanna með veði í gistirými og yfir 70% veðsetningu hafi hækkað um tæplega 15% að raunvirði á síðasta ári.
Nefndin fjallar á fundinum um horfur í efnahagslífinu, um bankakerfið, fasteignamarkaðinn, gjaldeyrismarkaðinn og fjármálastöðugleika í landinu. Ákvarðanir voru teknar á fundinum um að halda sveiflujöfnunarauka óbreyttum og að Seðlabankinn útfærði sérstakan tímabundinn veðlánaramma til að fjármagna stuðningslán með 100% ríkisábyrgð, líkt og áður hefur komið fram.
Atvinnuleysi nái hámarki á þriðja ársfjórðungi
Nefndin spáir því að atvinnuleysi nái hámarki á þriðja ársfjórðungi og verði tæplega níu prósent á árinu öllu.
„Einkaneysla dróst verulega saman milli ára í mars og apríl en viðsnúningur varð í maí. Störfum hefur fækkað verulega og atvinnuleysi aukist. Spáð er að atvinnuleysi nái hámarki á þriðja ársfjórðungi og verði tæplega 9% á árinu öllu. Verðbólga hafði ekki aukist þrátt fyrir lækkun á gengi krónunnar þar sem lækkun olíuverðs og alþjóðleg lækkun matvæla- og hrávöruverðs hafa vegið á móti. Verðbólguvæntingar hafa jafnframt haldist við markmið.”
Nefndin telur stuðningslán til fyrirtækja mikilvæg enda sé með þeim dregið úr líkum á greiðslufalli lántaka og stutt við útlánagæði í fjármálakerfinu. Þannig styðji veiting stuðningslána við fjármálastöðugleika og brýnt sé að hvetja bankana til að veita þau. Því var einróma samþykkt á fundinum að Seðlabankinn myndi útfæra sérstakan tímabundinn veðlánaramma stuðningslána á sömu kjörum og eru á sjö daga bundnum innlánum hjá bankanum á hverjum tíma.
„Ársfjórðungsleg gögn benda til þess að í lok síðasta árs og á fyrsta fjórðungi þessa árs hafi upptaktur fjármálasveiflunnar að mestu stöðvast. Skuldasveifla einkageirans var enn í upptakti en húsnæðis- og fjármögnunarsveiflan að mestu staðnaðar. Aðgerðir stjórnvalda tengdar farsóttinni gætu blásið lífi í húsnæðissveifluna og líklegt er að upptaktur skuldasveiflunnar aukist á nýjan leik, einkum vegna aukinna útlána til heimila til fasteignakaupa og brúar- og stuðningslána til fyrirtækja. Þetta gæti aukið upptakt fjármálasveiflunnar á nýjan leik.
Almennt virtist samt áhættuvilji hafa minnkað í fjármálakerfinu sl. ár sem gæti haft neikvæð áhrif á upptakt fjármálasveiflunnar ef áhrifanna gætir til lengri tíma litið,” er meðal þess sem fram kemur í fundargerðinni.
Nefndin hefur ekki áhyggjur af fjármálastöðugleika
Almennt ræddi nefndin um slökun á aðhaldi vegna farsóttarinnar. „Víða erlendis hafa lágir og jafnvel neikvæðir vextir verið við lýði um nokkurt skeið og það samhliða slakara aðhaldi fjármálastöðugleikastefnunnar hefur ýtt undir áhyggjur af stöðu fjármálastöðugleika. Aðstæður hér á landi eru aðrar, slakara aðhald er nýlega tilkomið sem viðbrögð við dökkum efnahagshorfum."
Segir í fundargerð að þrátt fyrir slakara aðhald fjármálastöðugleikastefnunnar hér á landi hafi nefndin enn sem komið er „ekki áhyggjur" af stöðu fjármálastöðugleika.
Aukið laust fé í umferð virðist ekki hafa leitt til aukinna útlána til fyrirtækja og aðgengi þeirra fjármagni í gegnum bankakerfið sé einhverju leyti takmarkað. Útlánaaukning einkageirans undanfarna mánuði sé þannig nær eingöngu fasteignalán til heimila.
„Óhóflegur skuldavöxtur og ósjálfbærar hækkanir á eignamörkuðum eru því enn sem komið er ekki áhyggjuefni hér á landi," segir í fundargerð.
Nefndarmenn töldu þó mikilvægt að allir yrðu viðbúnir því að núverandi ástand væri tímabundið. Herða þyrfti aðhald að nýju þegar áhrif farsóttarinnar og sóttvarnaraðgerða myndu fjara út.