Samkvæmt nýrri vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar er áætlað að rúmlega 217.200 (± 6.200) einstaklingar hafi að jafnaði verið á vinnumarkaði í júní 2020 sem jafngildir 83,1 prósent (±2,4) atvinnuþáttöku. Af þeim sem eru á vinnumarkaði er áætlað að 209.500 (±4.900) hafi verið starfandi en 7.700 (± 2.500) án vinnu og í atvinnuleit. Áætlað hlutfall atvinnulausra var því 3,5 prósent (±1,1).
Á vef Hagstofunnar segir að mælt atvinnuleysi í júní hafi lækkað frá fyrri mánuði þegar það mældist 9,9 prósent. Það sé nú svipað því sem var fyrir ári síðan þegar það var 3,2 prósent en á milli áranna 2015 og 2018 hafi mælt atvinnuleysi verið á bilinu 2,2 til 3,1 prósent.
„Samkvæmt árstíðarleiðréttum tölum var fjöldi atvinnulausra í júní 8.300 eða um 4,1% af vinnuaflinu. Árstíðarleiðrétt atvinnuþátttaka var 80,1% og árstíðarleiðrétt hlutfall starfandi 75,5%. Árstíðarleiðrétt atvinnuþátttaka jókst um hálft prósentustig og hlutfall starfandi hækkaði um 2,7 prósentustig borið saman við maí 2020,“ segir í tilkynningu.
Sérstaklega er tekið fram að árstíðarleiðréttar tölur geti verið ónákvæmar við óvenjulegar aðstæður líkt og nú eru uppi. „Árstíðarleiðréttar tölur gera ráð fyrir almennum árstíðarbundnum sveiflum á vinnumarkaði, til dæmis auknum fjölda atvinnulausra að vori þegar námsmenn hefja leit að sumarvinnu, en slíkar leiðréttingar duga skammt þegar óvæntir og einstakir atburðir hafa áhrif á atvinnustöðu fólks. Því er mikilvægt að horfa frekar til óleiðréttra mælinga við mat á skammtímaáhrifum,“ segir í tilkynningu.
Þá er einnig tekið fram að um bráðabirgðatölur sé að ræða sem verði endurskoðaðar þegar ársfjórðungi lýkur. Vísbendingar séu um að einstaklingar sem fengu greiddar atvinnuleysisbætur í júní hafi verið ólíklegri til að svara spurningalista rannsóknarinnar heldur en þeir sem ekki fengu greiddar slíkar bætur. Það kann að hafa leitt til vanmats á atvinnuleysi í júnímánuði.