Enn er ekki búið að finna uppruna smits hjá fullorðnum einstaklingi sem tekið hafði þátt í fótboltamótinu ReyCup í Laugardalnum. Smitið uppgötvaðist í gær og hafa sextán manns sem voru í nánu samneyti við þann smitaða verið sendir í 14 daga sóttkví. Smitrakning er í gangi.
Einungis hluti íþróttaliðsins sem maðurinn var með á mótinu er í sóttkví og samkvæmt tilkynningu frá almannavörnum hafa íþróttafélagið og mótshaldararar farið eftir leiðbeiningum og reglum sóttvarnalæknis og gert viðeigandi ráðstafanir, en ReyCup lýkur í dag.
Tvö innanlandssmit til viðbótar uppgötvuðust á landinu í gær, samkvæmt tilkynningu almannavarna. Annað þeirra tengist smiti frá sem greint var frá á föstudag. Samkvæmt raðgreiningu Íslenskrar erfðagreiningar á þeim sýnum eru þeir smituðu með afbrigði veirunnar sem ekki hefur fundist hér á landi áður og því má leiða líkum af því að upprunann megi rekja út fyrir landsteinana. Í því máli er smitrakningu lokið, en einn er í einangrun og tólf manns eru í sóttkví.
Þriðja smitið sem greindist er frá einstaklingi sem kom til landsins þann 15. júlí. Það greindist á suðvesturhorni landsins. Hann er kominn í einangrun og sex sem voru í samneyti við hann í sóttkví. Þeir fara jafnframt í sýnatöku en tveir eru farnir að sýna einkenni veirunnar.
Til viðbótar greindust tvö smit við landamærin, en beðið er eftir niðurstöðu frekari rannsókna á því hvort um virk eða gömul smit sé að ræða.
Fólk fari í próf ef það hefur minnsta grun um einkenni COVID-19
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis brýna fyrir fólki að gæta varúðar og huga vel að einstaklingsbundnum smitvörnum.
Leiki minnsti vafi á hvort einkenni COVID-19 veirunnar séu til staðar er sá hinn sami beðinn um að fara í sýnatöku á næstu heilsugæslustöð.