Félagsmenn Flugfreyjufélags Íslands samþykktu nýjan kjarasamning með 83,5 prósentum greiddra atkvæða, en rafrænni kosningu lauk kl. 12 hádegi og hafði staðið yfir frá því á hádegi síðasta miðvikudag, 22. júlí. Niðurstaðan er mjög afgerandi, eins og tölurnar bera með sér.
Alls greiddu 812 atkvæði af þeim 921 sem voru á kjörskrá, en 678 eða 83,5 prósent samþykktu samninginn. 109 eða 13,42 prósent voru á móti nýjum samningi en auðir seðlar voru 25 talsins, 3,08 prósent greiddra atkvæða.
Starfsmenn Icelandair sem greiða félagsgjöld til Flugfreyjufélags Íslands höfðu atkvæðisrétt um samninginn, sem var undirritaður aðfaranótt sunnudagsins 19. júlí eftir langa fundarsetu í húsakynnum ríkissáttasemjara í Borgartúni.
Icelandair hafði þá áður tilkynnt um það á föstudaginn 17. júlí að félagið hefði lokið viðræðum sínum við FFÍ, öllum starfandi flugfreyjum og -þjónum yrði sagt upp. Í kjölfarið yrði samið við aðra aðila um að sinna störfum þeirra og til að byrja með yrði það í höndum flugmanna.
Flugfélagið tilkynnti um þessar fyrirhuguðu aðgerðir sínar í kjölfar þess að félagsmenn FFÍ höfnuðu fyrri kjarasamningi, sem undirritaður hafði verið 25. júní. Þetta skref Icelandair vakti mikla reiði innan verkalýðshreyfingarinnar og FFÍ boðaði samstundis til undirbúnings allhersherjarverkfalls.
En sættir náðust og skrifað var undir nýjan samning, sem áður segir. Nú hefur hann verið samþykktur með afgerandi hætti.
FFÍ hafði sagt félagsmönnum sínum að nýi samningurinn fæli meðal annars í sér breytingar á tveimur umdeildum ákvæðum; málamiðlun hefði náðst á milli FFÍ og Icelandair varðandi aukafrídaga fyrir flugfreyjur eldri en 60 ára og um svokallaða sex daga reglu.
Icelandair segir samning í samræmi við markmið
Bæði Icelandair og Flugfreyjufélagið hafa sent frá sér yfirlýsingar um samþykkt samningsins. Icelandair segir hann „í samræmi við þau markmið sem lagt var upp með um að auka vinnuframlag en á sama tíma verja ráðstöfunartekjur flugfreyja og flugþjóna“ og að samningurinn stuðli að auknum sveigjanleika fyrir bæði félagið og starfsfólk.
Stjórn og samninganefnd FFÍ segist fagna því að viðræðum sé lokið og þakkar félagsmönnum sínum fyrir samstöðu og stuðning, sem ríkt hafi meðal hópsins undanfarna mánuði.
„Kjörsókn var mjög góð og sýnir það ábyrgð og áhuga félagsmanna á starfskjörum sínum og vinnuumhverfi,“ segir í yfirlýsingu félagsins.