Alls tapaði Icelandair 331 milljón dala á fyrstu sex mánuðum ársins, sem samsvarar tæpum 45 milljörðum króna á gengi dagsins í dag. Tapið er að stórum hluta af völdum kórónuveirufaraldursins en einskiptikostnaður vegna veirunnar nam rétt rúmlega 30 milljörðum króna á fyrstu tveimur ársfjórðungum ársins.
Uppgjör Icelandair fyrir annan ársfjórðung var birt í dag. Á fjórðungnum nam tap félagsins 12,3 milljörðum króna eða 90,8 milljónum dala.
Á fjórðungnum dróst framboð á farþegaflugi saman um 97 prósent og farþegum fækkaði um 98 prósent. Eigið fé félagsins nam 151,2 milljörðum króna í lok júní og er eiginfjárhlutfall félagsins ellefu prósent. Þá nam lausafjárstaða félagsins 21,3 milljörðum króna í lok júní eða 152,5 milljónum dala.
„Eins og í flugheiminum öllum, hafði COVID-19 heimsfaraldurinn gríðarleg áhrif á rekstrarniðurstöðu annars ársfjórðungs hjá Icelandair Group. Þrátt fyrir að flug hafi legið nánast alveg niðri, eða einungis þrjú prósent flugáætlunar okkar verið starfrækt, lögðum við höfuðáherslu á að tryggja lágmarksflugsamgöngur til og frá landinu fyrir farþega og frakt, bæði til Evrópu og Norður Ameríku,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra, í tilkynningu frá félaginu til Kauphallar Íslands.
Þar segir einnig: „Við þurftum að grípa til erfiðra en nauðsynlegra aðgerða í fjórðungnum til að draga úr kostnaði og útflæði fjármagns sem meðal annars fólu í sér verulegar uppsagnir og breytingar á skipulagi félagsins. Vinna við fjárhagslega endurskipulagningu félagsins hefur staðið yfir undanfarnar vikur og stefnum við að því að ljúka samkomulagi við helstu hagaðila fyrir lok júlímánaðar og hefja hlutafjárútboð í ágúst.“