Uppfærð grunnsviðsmynd IATA, alþjóðasamtaka flugfélaga, um framtíðina í farþegaflutningum á heimsvísu, gerir ekki ráð fyrir því að flognir farþegakílómetrar (e. revenue passenger kilometers) nái sama marki og fyrir kórónuveirufaraldurinn fyrr en árið 2024. Fyrri sviðsmynd samtakanna gerði ráð fyrir því að flugið myndi jafna sig hvað þetta varðar ári fyrr, eða árið 2023.
Í fréttatilkynningu frá IATA í dag segir að búist sé við að styttri flugleiðir muni komast í eðlilegt horf fyrr en þær lengri, hvað fjölda farþega varðar. Þó er ekki búist við því að fjöldi flugfarþega á heimsvísu nái sama marki og fyrir veiruna fyrr en árið 2023, en í fyrri spá var gert ráð fyrir að fjöldi farþega myndi ná sömu hæðum og fyrir COVID árið 2022.
Hvað varðar skammtímahorfur í fluggeiranum hefur spá IATA einnig dökknað, en nú er gert ráð fyrir því að samdráttur í fjölda flugfarþega á þessu ári muni nema um 55 prósentum, samanborið við þann 46 prósent samdrátt sem samtökin spáðu í apríl.
Á heimsvísu dróst flugumferð, mæld í flognum farþegakílómetrum, saman um 86,5 prósent frá fyrra ári í júní. Það er ögn skárra en í maí, þegar flugumferð dróst saman um 91 prósent á sama mælikvarða frá sama mánuði í fyrra. Samtökin segja þetta skýrast af aukinni eftirspurn á innanlandsmörkuðum, sérstaklega í Kína.
Lítið traust hjá neytendum og útbreiðsla veirunnar dekkja horfur
Nokkrir þættir eru sagðir útskýra verri horfur í þessari nýju spá samtakanna, miðað við spána sem gefin var út í apríl. Í fyrsta lagi er það vanmáttur Bandaríkjastjórnar og stjórnvalda í ýmsum vaxandi hagkerfum við að hafa hemil á útbreiðslu veirunnar. Áframhaldandi útilokun Bandaríkjanna og fleiri ríkja frá alþjóðaflugmarkaðinum hefur umtalsverð áhrif á bata fluggeirans í heild sinni.
Í annan stað er búist við því að viðskiptaferðir verði mun færri en áður á næstu misserum, þar sem mörg fyrirtæki séu í fjárhagsvandræðum veirunnar vegna.
Og í þriðja lagi eru það neytendurnir og vilji þeirra til að ferðast, en mælingar hafa sýnt að margir hafa hug á að ferðast alls ekki neitt á næstunni. Yfir helmingur þeirra sem IATA spurði í könnun í júní ætluðu ekki að ferðast neitt árið 2020. Almennt, segja IATA, er neytendatraust lágt um þessar mundir, er margir sjá fram á atvinnuóöryggi, ofan á hættuna af því að smitast af COVID-19 á ferðalögum.
Haft er eftir Alexandre de Juniac, forstjóra IATA, að neytendatraust sé afar lítið og að ákvörðun Bretlands um að skipa öllum ferðamönnum í sóttkví sem snúa heim frá Spáni hafi ekki bætt úr skák.
„Og í mörgum hlutum heimsins fer fjöldi sýkinga enn vaxandi. Allt þetta bendir til þess að endurkomutíminn verði lengri með auknum þjáningum fyrir fluggeirann og heimshagkerfið,“ segir de Juniac. Einnig segir hann að þetta séu slæmar fréttir fyrir flugfélög, þar sem þetta bendi til þess að áfram þurfi fluggeirinn að treysta á stuðning stjórnvalda.