Færeyska skipafélagið Smyril Line hefur ákveðið að hefja þróun á nýrri siglingaleið á milli Noregs og Hollands og mun nýtt skip byrja að sigla til Þorlákshafnar í kjölfarið. Frá þessu greinir Elliði Vignisson bæjarstjóri í Ölfusi í færslu á vef sínum.
Áfram munu tvö skip frá Smyril Line hafa vikulega viðkomu í Þorlákshöfn, en Smyril Line er að bæta við sig skipi í flotann til þess að þróa nýju siglingaleiðina. Það skip heitir Mistral, en núna sigla skipin Mykines og Akranes frá Þorlákshöfn til Rotterdam í Hollandi og Hirtshals í Danmörku.
Nýja skipið mun samkvæmt orðum bæjarstjórans taka við siglingaleiðinni á milli Þorlákshafnar og Hirtshals, en Akranesið mun sigla nýju siglingaleiðina á milli vesturstrandar Noregs og Rotterdam.
Mistral er 153 metra langt og 21 metra breitt og því öllu stærra en Akranesið.
Býst við frekari sóknarskrefum
„Þorlákshöfn hefur sannað gildi sitt sem lykilhöfn Íslands í Evrópusiglingum. Sigling þaðan syttir enda siglingatímann til og frá Evrópu um hátt í sólarhring og munar um minna bæði hvað varðar tíma, fjármagn og kolefnisspor,“ segir bæjarstjórinn í Ölfusi, sem hrósar framtakssemi Smyril Line í fraktsiglingum um Þorlákshöfn, sem hófust árið 2017 er Mykinesið lagðist í fyrsta sinn að bryggju í Þorlákshöfn.
Í upphafi þessa árs kom svo Akranesið í fyrsta sinn til Þorlákshafnar og hóf siglingar til Hirtshals en nú mun Mistral leysa Akranesið af hólmi í þeim siglingum.
„Ekki þarf að efast um að þessi viðbót mun skapa enn frekari tækifæri fyrir okkur hér í Þorlákshöfn þar sem siglingaleiðin hér tengist nú beint við flutninga milli Noregs og Rotterdam og öfugt. Við erum sannfærð um að enn stærri sóknar skref eru innan seilingar,“ skrifar bæjarstjórinn.
Athugasemd ritstjórnar: Fréttin hefur verið uppfærð og bæði fyrirsögn hennar og meginmáli breytt. Blaðamaður misskildi orð Elliða á þann veg að ný siglingaleið Smyril Line myndi hafa viðkomu í Þorlákshöfn, en svo verður ekki. Áfram munu því tvö skip hafa vikulega viðkomu í Þorlákshöfn, en ekki þrjú.